Stefán Þormóðsson Það mun hafa verið 1984 sem "húsamýsnar", ég þar á meðal, urðu þess varar að kominn var nýr húsvörður í íþróttahúsið okkar að Varmá, í húsið sem við höfðum eytt mestum hluta okkar frítíma og rúmlega það í nokkur undangengin ár. Þangað vorum við strákarnir komnir strax eftir skóla og var helst ekki farið út fyrr en skellt var í lás eftir miðnætti. Á ýmsu hafði oft gengið í samskiptum við forvera þessa nýja manns, enda litum við, þessar "húsamýs" oft á húsið, sem kallað var, sem okkar annað heimili, athvarf í blíðu og stríðu þar sem við vorum oft líkari heimaríkum hundum en músum.

Þessi nýi húsvörður sem þarna var kominn tók á móti okkur, ærslafullum unglingum, af stóískri ró, á hvítum klossum, gallabuxum, gömlu góðu bómullarvinnuskyrtunni, rauðri á lit, með klút um hálsinn, hár, spengilegur, með grásprengt skegg og einlægan glampa vináttu og góðsemi í augunum. "Ég heiti Stefán Þormóðsson, hvað heitir þú?"

Þarna var kominn "einhver karl" héldum við, sem ætlaði að fara ganga um með vöndinn og standa klár á öllum reglum hússins, bæði skrifuðum og óskrifuðum. Víst er að snemma kom í ljós að hann fór eftir reglunum, en hann fór svo fínt í það, að áður en við vissum af vorum við farnir að fylgja þeim í hvívetna án þess að hafa minnstu hugmynd um. Og án þess að hann notaði vönd. Þannig vann Stefán verk sitt, án láta. Með rósemi og kurteisi í hvívetna fékk hann alla til þess að virða þær reglur sem sjaldan höfðu verið virtar. Með honum myndaðist nokkurskonar fjölskyldustemmning í íþróttahúsinu meðal starfsfólks og fastagesta.

Fleira vakti forvitni okkar. Stefán var á margan hátt sérvitur, hann kom t.d. með sitt eigin kaffi í poka og geymdi í kæli í íþróttahúsinu og hellti síðan upp á lútsterkt kaffi fyrir vini sína. "Maður á að drekka lítið kaffi á hverjum degi en hafa sterkt og gott," sagði hann þegar sviti spratt af enni viðmælandans sem hafði komið í heimsókn í íþróttahúsið til Stefáns og var greinilega ekki vanur slíkri kjarnablöndu. Með kaffinu bauð hann upp á heilhveitivöfflur og heimatilbúina sultu, sem var engri annarri sultu lík. Þetta var einkennilegt, eitthvað sem við vorum ekki vön. Ekki urðum við minna undrandi þegar við komumst að því að hann stundaði líkamsrækt innan um unga fólkið í líkamræktarstöðvum höfuðborgarinnar. Í okkar huga var það ekki fyrir "gamalt" fólk að lyfta lóðum. Síðan tókum við eftir því að hann gekk með skúringarvélinni um sali hússins á kvöldin en nýtti sér ekki þetta fína sæti sem vélinni fylgdi. Einkennilegt. Og ekki vakti mataræðið síður forvitni og tal um makróbíótískan mat og lífrænt ræktuð matvæli, te sem voru undarleg að lit og lyktuðu sum hver jafnvel ekki vel. Heimabakað brauð og kökur sem oft og tíðum voru svo gróf að annað eins hafði ekki sést, heimatilbúið smjör og grænmetissúpur sem voru með þarablöðum. Brennandi áhuga hafði Stefán á blóma- og grænmetisrækt og ekki leið á löngu þar til blóm voru komin á hina og þessa staði í íþróttahúsinu. Blóm sem hann hugsaði um eins börnin sín, talaði við þau og kom jafnvel sérstaklega í vakt- og sumarfríum til þess að vökva. Ég og fleiri vissum ekki um stund hvernig bæri að taka þessum manni sem sífellt var að sýna á sér nýjar hliðar, hliðar sem við áttum ekki að venjast af samferðamönnum. En góðmennskan og hlýhugurinn var alltaf sá sami og svo kom að ef maður missti dag úr í íþróttahúsinu þá saknaði maður þessa ljúflings og fannst sem maður væri að missa af einhverju.

Að þessari sérvisku og góðsemi laðaðist ég og fleiri og nutum leiðsagnar hans og hvatningar til betra lífs um leið og skeggrætt var um allt milli himins og jarðar. Maður kom nefnilega sjaldnast að tómum kofanum hjá Stefáni. Hann var fróður og víðlesin á fjölmörgum sviðum og hvenær sem tóm gafst frá amstri daganna var hann að lesa margskonar fróðleik um ýmis mál, næringarfræði, íþróttaþjálfun, lyfjanotkun íþróttamanna, stjörnufræði, stjörnuspeki, sálfræði, trúmál svo fátt eitt sé nefnt. Þegar á leið ávann hann sér sífellt meiri virðingu og vinsemd bæði meðal þeirra yngri og eldri sem leið áttu um íþróttahúsið. Þá myndaðist vinskapur sem aldrei féll skuggi á.

Nú þegar lífsbók Stefáns Þormóðssonar hefur verið lokað sitja eftir minningar okkar sem eftir lifum og kynntumst þessum sérstaka manni. Fyrir þau kynni vil ég þakka nú þegar leiðir okkar skilja. Kynni mín af Stefáni mörkuðu spor í líf mitt og breyttu því til hins betra. Ég og fjölskylda mín vottum eiginkonu Stefáns, Kristbjörgu, og fjölskyldu hans allri okkar dýpstu samúð. Guð blessi minningu Stefáns Þormóðssonar.

Ívar Benediktsson.