Valur Gautason Við kveðjum elskulegan frænda okkar, Val Gautason. Hugur okkar varðveitir myndir: Það er 1. mars. 1971 og komið kvöld á Akureyrarflugvelli. Lítill drengur er kominn heim, fluttur alfarið frá Svíþjóð þar sem hann hafði búið ásamt foreldrum sínum og bræðrum, þeim Arnþóri og Bjarna. Þeir standa í röð bræðurnir, klæddir heimasaumuðum frökkum tvíhnepptum, í reimuðum leðurskóm og með loðhúfur. Fallegir drengir með eftirvæntingu í augum. Okkur systkinum fannst einhver ævintýraljómi yfir þessum sigldu bræðrum. Við sjáum Val litla fyrir okkur með sín ótrúlega fallegu augu, skörp en jafnframt svo tilfinningarík. ­ Val með stóra koddann sinn sem hann tók svo miklu ástfóstri við og tosaði með sér hvert sem hann fór og fannst svo notalegt að nudda við litla nebbann. ­Val alltaf á harða hlaupum, glaðan og síspurulan. Við minnumst þess líka þegar Valur, svo lítill að hann þurfti að taka snuðið út úr sér þegar hann svaraði því hver hefði nú brotið gluggann, "það var hann Jantjunt". "Og hvar býr Jantjunt?" spurðum við. "Í skóginum," var svarið. Jantjunt var hugarfóstur lítils drengs með ríkulegra ímyndunarafl en flestum er gefið og Jantjunt deildi þeim óhöppum með Val sem dugnaðurinn leiddi stundum til. Valur, lítil manneskja sem náði strax inn að hjartarótum okkar sem eldri vorum. Allt var svo einfalt og gott og við öll full trúnaðartrausts til lífsins og tilverunnar. Við megum sannarlega oft þakka fyrir að sjá ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Annars hefðum við ekki notið líðandi stundar og stundirnar sem við frændsystkinin áttum saman á Akureyri eru ómetanlegar. Valur var ekki nema 8 ára þegar Arnþór bróðir hans lést af slysförum á 18. aldursári. Skömmu áður hafði Arnþór ferðast um landið og kom heim upptendraður og bergnuminn af fegurð þess. Við hugsuðum, nú er Arnþór endanlega kominn heim til Íslands og hann er að verða fullorðinn; svona eru tilfinningar þroskaðs manns. Slysið var ægilegt reiðarslag okkur öllum en ekki hvað síst litlum dreng sem ekki heldur skildi þau vandamál sem sorg okkar eldri olli, ­ okkar sem áttum að styðja hann og gleðja aftur. Síðar skildu leiðir foreldra hans og hann flutti nokkrum árum seinna til Reykjavíkur ásamt móður sinni og Bjarna bróður. Þar átti Valur eftir að eignast stóran hóp af nýjum vinum. Vinum sem margir eins og hann voru að fást við oft ótroðnar og spennandi leiðir í tónlistarsköpun og flutningi. Valur stofnaði ásamt öðrum á gagnfræðaskólaárunum hljómsveitina Trúðinn sem vakti heilmikla athygli. En Valur þoldi illa álagið sem fylgdi því að koma sér áfram í hörðum heimi framans og unglingsáranna. Eftir að starfinu með Trúðnum lauk varð ekki áframhald á opinberum tónlistarferli hans. Hann samdi þó stöðugt ­ mest í einrúmi ­ tónlist sem gat verið myrk en líka svo óendanlega björt og fögur; ballöður og jafnvel heilu sinfóníurnar. Þar útsetti hann allt sjálfur og spilaði og söng stundum með fallegu röddinni sinni mergjaða texta. En það var aldrei neitt nógu gott að hans mati. Hann vantreysti sjálfum sér stöðugt. Einhvern tíma var hann að því kominn að fá hluta af verkum sínum gefinn út en gat einhvern veginn ekki látið kné fylgja kviði. Mótlæti túlkaði hann sem höfnun og sönnun á vanhæfni sinni. Og þá leið honum svo illa. Hann hafði ekki harðan skráp og var enginn fjármálamaður. Við sem fengum að hlusta á verk hans vitum hins vegar að margt af því sem hann samdi var hrein snilld: tónlistarperlur. Þegar Valur var ungur drengur hafði hann áhuga á nánast öllu. Hann stundaði íþróttir af ástríðu. Brunaði á skíðum hraðar en augu festu og sparkaði bolta af meira kappi en flestir. Þess á milli lá hann á gólfinu með hlustunartækin á höfðinu og drakk í sig tónlist. Strax sem smápatti eyddi hann öllum peningum sem hann eignaðist í hljómplötur. Hann æfði sig á trommur og síðar á gítar og hæfileikarnir voru ótvíræðir. En það er erfitt að samræma aga jafn brennandi áhuga á svo mörgu, hæfileikana, kraftinn og viðkvæmnina. Skilin á milli barns, unglings og fullorðins manns urðu honum erfiðari en mörgum ­ og af ýmsum ástæðum, meðfæddum og utanaðkomandi. Við minnumst þess hversu hreinskilinn Valur var. Hann sagði það sem honum datt í hug og meinti. Það gat stundum verið óþægilegt en líka kómískt, enda laust við alla illgirni. Það var eins og hann skynjaði ekki á sama hátt og við hin þá veggi sem við lærum að forðast í mannlegum samskiptum. Oft rak hann sig á þá eða bara hann sveif yfir þá og við hin töpuðum sjónar af honum í bili. Valur var svo flókin manneskja og því oft líka erfiður. Stundum fannst okkur sem hann dveldi í skóginum hjá Jantjunt og við hin rötuðum ekki til hans. Hann var tilfinninganæmur, hugsaði mikið og djúpt en var þó nánast barnslega óreiðufullur á stundum og á sama tíma haldinn fullkomnunarástríðu. Valur gerði miklar kröfur til sjálfs sín, oft óraunhæfar kröfur. Þegar hann gat ekki samhæft þær eða uppfyllt var stutt í örvæntinguna. Við hin hörmum það hversu lítt hæfileikar hans fengu að njóta sín og hversu erfitt lífið var svo lengi. En það komu þó alltaf tímabil á milli þar sem við gátum aftur notið fallega, góða og skapandi drengsins okkar, hans Vals. Við frændsystkini Vals samhryggjumst móður hans, föður og bróður og öðrum aðstandendum. Það er okkur mikill styrkur og gleði í sorg okkar að Bjarni Gautason og fjölskylda hans eru flutt heim eftir langa dvöl í Kanada. Brynja Dís, Ólafur, Arna Guðný, Ólöf Sigríður, Arnbjörg Hlíf og fjölskyldur.