Hafsteinn Guðmundsson

Um nær þriggja áratuga skeið áttum við Hafsteinn Guðmundson náið og gott samstarf að útgáfumálum og það er í ljósi þeirrar reynslu, sem ég tel mér óhætt að fullyrða, að hann gekk að hverju verki af fágætri vandvirkni og smekkvísi. Um það tala sínu máli fagrar og vandaðar útgáfubækur hans, en Hafsteinn hannaði bækur sínar sjálfur og valdi þeim þá umgjörð, sem hann taldi hæfa efni þeirra. Höfuðatriði í hans huga var menningarlegt gildi hverrar bókar og í þeim efnum hugsaði hann til langrar framtíðar. Það var honum meira virði en fjárhagslegur ávinningur af útgáfunni. Varðveizla menningar og sögu íslenzku þjóðarinnar var rauði þráðurinn í öllum hans störfum - skyldan við óbornar kynslóðir sjálfstæðrar og frjálshuga þjóðar.

Listfengi Hafsteins við hönnun og aðra gerð bóka var slíkt, að margir bókaútgefendur leituðu til hans, þegar mikið þótti liggja við um vandaða bókagerð. Enda naut hann mikillar virðingar í heimi prentlistarinnar og stundum var haft á orði, að með honum hafi íslenzk prentlist, eða svartlistin eins og hún er stundum kölluð, risið hæst á þeirri öld, sem senn er liðin.

Maðurinn, sem þessi háfleygu orð eru sögð um, var einstaklega ljúfur og viðmótsþýður, og sérlega gamansamur. Þrátt fyrir virðulegt fas, sem þverslaufan undirstrikaði, var ekki lognmolla umhverfis Hafstein og hann hafði mikla ánægju af því að taka á móti og hitta mann og annan og var þá stutt í gamansemina. Einn helzti samstarfsmaður hans við bókaútgáfuna um langt skeið var Gísli Ólafsson, ritstjóri, en lunderni þeirra og spaugsemi féll vel saman. Gísli gekk að jafnaði með þverslaufu eins og Hafsteinn. Þeir unnu saman fram á háan aldur. Eitt sinn þurfti sendibílstjóri að sækja pakka til Þjóðsögu að Skálholtsstíg. Hann kom til baka og kvað þar engan að finna nema tvö gamalmenni með þverslaufu. Við þessa sögu skemmti Hafsteinn sér konunglega, enda ungur í anda alla tíð og elli kerling fjarri huga hans.

Ég get seint fullþakkað forlögunum að hafa haft tækifæri til að vinna með báðum þessum heiðursmönnum. Það var sannarlega mannbætandi.

Við Guðrún sendum eiginkonu Hafsteins, Helgu, og fjölskyldunni allri hugheilar samúðarkveðjur við fráfall Hafsteins Guðmundssonar.

Björn Jóhannsson.