ÞETTA er í annað skipti sem ég leita til Morgunblaðsins til að reyna að hafa uppi á íslenskum föður mínum. Að þessu sinni hef ég ítarlegri upplýsingar undir höndum frá því síðast, sem var í janúar á þessu ári, og vona því að mér verði betur ágengt. Ég veit að þú starfaðir á togara sem kom til Egersund á suðvesturströnd Noregs í lok nóvember 1970.
28 ára Norðmaður leitar að föður sínum ÞETTA er í annað skipti sem ég leita til Morgunblaðsins til að reyna að hafa uppi á íslenskum föður mínum. Að þessu sinni hef ég ítarlegri upplýsingar undir höndum frá því síðast, sem var í janúar á þessu ári, og vona því að mér verði betur ágengt.

Ég veit að þú starfaðir á togara sem kom til Egersund á suðvesturströnd Noregs í lok nóvember 1970. Þú sagðir að sjómannsstarfið væri ekki ævistarf þitt heldur værir þú að afla þér tekna samhliða námi. Þú varst ungur, á bilinu 20­25 ára gamall.

Frá norskum tollayfirvöldum hef ég fengið þær upplýsingar að tvö íslensk skip komu til Egersund á þessu tímabili; Venus frá Hafnarfirði og Helga Guðmundsdóttir frá Patreksfirði. Skipstjórinn á Venusi var Óskar Þórhallsson og við höldum að skipstjórinn á Helgu Guðmundsdóttur hafi verið Höskuldsson. Það er mjög líklegt að faðir minn hafi verið um borð í öðru hvoru þessara skipa.

Móðir mín starfaði á þessum tíma sem gengilbeina á pöbb/kaffihúsi er hét Fiskekroa. Hún var 27 ára gömul, ljóshærð/dökkljóshærð, bláeygð og 1,60 m á hæð. Faðir minn kom ásamt tveimur öðrum Íslendingum, líklega af sama skipi. Þessir þrír menn komu inn á kaffihúsið og kynntust móður minni ásamt tveimur vinkonum hennar (sem störfuðu þar ásamt henni). Kvöldið eftir hittust þau öll aftur. Strákarnir komu með fullt af sælgæti (karamellum) frá skipinu. Eftir langt kvöld hefðu allir mennirnir getað orðið að föður norsk/íslensks barns. Heppnin var hins vegar einungis með föður mínum ...

Um föður minn: Hann var hávaxinn, með sítt dökkt hár (niður á axlir) og klæddist síðum bláum frakka. Hann hafði viðurnefni sem hljómaði líkt og "Sniben". Ég veit ekki hvað hann heitir.

Nokkrum mánuðum síðar fór móðir mín frá smábænum Egersund og flutti til systur sinnar í Ósló til að fæða barnið, sem hún hafði ákveðið að gefa til ættleiðingar. Sem betur fer skipti hún um skoðun nokkrum dögum eftir að ég fæddist. Nokkrum mánuðum síðar fluttumst við aftur til Egersund og þar ólst ég upp ásamt móður minni og móðurforeldrum og átti mjög hamingjusama æsku. Móðir mín giftist aldrei og ég á því engin systkini.

Líkt og ég hef áður sagt þá er það fyrst nú sem ég reyni að hafa uppi á föður mínum. Frá því að ég eignaðist barn sjálfur velti ég föður mínum æ meir fyrir mér og fýsir að vita hver hann er. Það var aldrei rætt mikið um hann er ég var barn. Móðir mín reyndi aldrei að afla frekari upplýsinga um hann eftir að ljóst varð að hún var þunguð, þar sem hún ætlaði að gefa barnið.

Um sjálfan mig: Ég er kvæntur og bý í Bergen í Noregi. Ég hef mastersgráðu (MBA) í viðskiptafræði og starfa sem viðskiptaráðgjafi. Fyrir um ári eignaðist ég barn og hef ákveðið að ég vil hafa uppi á föður mínum, afa dóttur minnar. Dóttir mín er nú 17 mánaða gömul.

Ég vona að einhver lesenda ykkar hafi upplýsingar um það hvar ég get haft uppi á föður mínum. Hægt er að hafa samband við Guðlaugu Sigurðardóttur á Morgunblaðinu eða beint við mig í gegnum eftirfarandi netfang: leter-igjenÊyahoo.no Ekki síst hvet ég þá er störfuðu á Venusi eða Helgu Guðmundsdóttur á þessum tíma til að hafa samband.