Linux á Raunvísindastofnun LINUX-stýrikerfið nær sífellt meiri útbreiðslu og þó flestir líti sjálfsagt til þess hvernig stýrikerfinu farnist á borðtölvum manna um heim allan, sækir það sífellt í sig veðrið á stofnunum og fyrirtækjum. Á Raunvísindastofnun hefur Linux komið í góðar þarfir.
Linux á Raunvísindastofnun LINUX-stýrikerfið nær sífellt meiri útbreiðslu og þó flestir líti sjálfsagt til þess hvernig stýrikerfinu farnist á borðtölvum manna um heim allan, sækir það sífellt í sig veðrið á stofnunum og fyrirtækjum. Á Raunvísindastofnun hefur Linux komið í góðar þarfir. Þeir Viðar Guðmundsson prófessor í eðlisfræði og Marteinn Sverrisson tæknimaður eðlisfræðistofu raunvísindastofnunar skýra frá því að stofnunin sé nýbúin að festa kaup á tveggja örgjörva HP-netþjóni sem keyra mun Linux-stýrikerfið og þjónusta rúmlega hundrað starfsmenn. Vélin tekur við af eldri UNIX-tölvu og verður meðal annars notuð sem skráamiðlari, póstþjónn, vefþjónn, nafnamiðlari, prentþjónn og einnig mun vélin sjá um öryggisafritun á tölvum stofnunarinnar. Að sögn Viðars hefur Linux- vélum á stofnuninni fjölgað mjög undanfarin ár og eru þær nú um það bil 40. "Þær eru notaðar til almennrar vinnslu, mælinga og þungra reikninga. Á stofnuninni eru flest þau stýrikerfi í notkun sem völ er á og sýnir reynslan að engin þeirra hafa getað keppt við Linux og ýmsar útgáfur UNIX í stöðugleika og rekstraröryggi. Engin vandamál eru vegna tölvuveira og fjölvaveira eða þess háttar fyrirbæra, sem hrjá önnur algeng stýrikerfi og hafa valdið notendum og fyrirtækjum óþægindum og fjárhagslegu tjóni. Afar sjaldgæft er að nokkuð nema rafmagnsleysi hafi stöðvað Linux-vél. Dæmi er um Linux-tölvu starfsmanns, en hún hafði gengið samfellt í meira en 400 daga í fullri vinnslu án endurræsingar, þegar rafmagn fór af svæðinu." Þar sem Linux er fjölnotendakerfi og því fjölverkakerfi segir Viðar að þó nokkuð hafi verið um það að vélar starfsmanna séu nýttar til þungra reikninga samhliða þeirra eigin vinnslu. "Í flestum tilfellum verða notendur vélanna ekki varir við þessa vinnslu vegna þess að stýrikerfið sér til þess að þunga reikniverkið víki umsvifalaust til hliðar þegar notandinn þarf á afli örgjörvans að halda. Mjög mikið er til af hugbúnaði fyrir Linux sem nýtist vel til flestra verka sem unnin eru á stofnuninni. Þannig má finna öll nauðsynlegustu forritunarmál, vefþjóna, skrifstofupakka, forrit til grafískrar úrvinnslu og þægileg gluggaumhverfi." Raunvísindastofnun er í nokkrum húsum á háskólasvæðinu og fer öryggisafritun af öllum vélunum fram yfir Netið að nóttu til og segir Viðar að fyrir utan rekstraröryggið og fjölvinnslueiginleika kerfisins sé aðalávinningur stofnunarinnar í örum uppfærslum stýrikerfisins beint af Netinu og lágt verð vélbúnaðar. Kerfisstjórnun er gerð yfir net og sé það einkar hentugt vegna þess hversu dreifðar vélarnar eru á háskólasvæðinu, en allar uppfærslur stýrikerfisins og innsetning forrita er gerð gegnum net frá tölvu kerfisstjóra, án þess að hann þurfi að fara á staðinn.