ÚTGJÖLD sjúkratrygginga eru áætluð rúmir 9 milljarðar á næsta ári og segir í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu að útgjöld málaflokksins á þessu ári verði um 730 milljónum króna hærri en heimild fjárlaga 1999 veitir.
Ríflega 9 milljarðar til sjúkratrygginga

Leitað leiða til

lækkunar um milljarð

ÚTGJÖLD sjúkratrygginga eru áætluð rúmir 9 milljarðar á næsta ári og segir í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu að útgjöld málaflokksins á þessu ári verði um 730 milljónum króna hærri en heimild fjárlaga 1999 veitir. Grípa á til ýmissa aðgerða til að freista þess að lækka útgjöld til sjúkratrygginga og er gert ráð fyrir að allar ráðstafanir sem áformað er að grípa til í sjúkratryggingum geti leitt til allt að eins milljarðs króna lækkunar í málaflokknum.

Miðað við útgjöld fyrstu sex mánuði þessa árs er áætlað að útgjöld sjúkratrygginga verði nærri 9,5 milljarðar á árinu sem er um 730 milljónum umfram heimild fjárlaga. Lækniskostnaður á þessu ári stefnir í að verða 1.950 milljónir, sem er um 200 milljónum umfram heimild fjárlaga. Hækkunin stafar af fjölgun læknisverka og af breytingum sem gerðar voru á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og segir í greinargerð frumvarpsins að sparnaðaráform hafi ekki gengið eftir.

Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir 12% hækkun lyfjakostnaðar milli ára, meðal annars vegna þess að sífellt eru sett á markað ný og dýrari lyf. Þróunin er hin sama hjá nágrannalöndunum og því hafa Norðurlöndin ákveðið að leita sameiginlegra leiða til að fást við aukninguna. Talið er að lyfjakostnaður aukist um 700 til 800 milljónir króna verði ekkert að gert en með ýmsum aðgerðum er stefnt að því að ná fram um 170 milljóna króna lækkun með eftirfarandi aðgerðum:

Útboð og leiðbeiningar

Áformað er að endurskoða heildsölu- og smásöluálagningu lyfja og ráðast í aukin útboð á lyfjum til að bæta og styrkja skynsamlegt og hagkvæmt lyfjaval jafnt innan sem utan heilbrigðisstofnana.

Áfram verður unnið að gerð leiðbeininga og ráðgjöf verður efld.

Áformað er að taka upp nýtt fyrirkomulag á niðurgreiðslum almannatrygginga vegna lyfja að sænskri og danskri fyrirmynd sem gerir mögulegt að flytja að einhverju leyti greiðsluþátttöku ríkisins frá einstaklingum sem að jafnaði nota lítið lyf til þeirra sem raunverulega þurfa á meiri og dýrari lyfjum að halda.