AFGREIÐSLA Landsbanka Íslands á Eyrarbakka verður sameinuð svæðisútibúi bankans á Selfossi og tekur sameiningin gildi 25. október. Tveir af þremur starfsmönnum afgreiðslunnar munu hefja störf við svæðisútibúið á Selfossi og sá þriðji mun starfa í afgreiðslu bankans á Stokkseyri.
Hagræðing í útibúaneti Landsbankans

Afgreiðslu bankans á Eyrarbakka lokað

AFGREIÐSLA Landsbanka Íslands á Eyrarbakka verður sameinuð svæðisútibúi bankans á Selfossi og tekur sameiningin gildi 25. október. Tveir af þremur starfsmönnum afgreiðslunnar munu hefja störf við svæðisútibúið á Selfossi og sá þriðji mun starfa í afgreiðslu bankans á Stokkseyri.

Friðgeir Magni Baldursson, útibússtjóri Landsbankans á Selfossi, segir aðspurður að íbúar á Eyrarbakka hafi að vonum áhyggjur af þessum breytingum, sérstaklega þar sem ekki sé önnur peningastofnun í byggðarlaginu. Hann bendir þó á að ekki sé langt í afgreiðsluna á Stokkseyri en einkum eldri íbúar hafi áhyggjur af breytingunum.

"Við erum að hugsa hvort þarna megi eitthvað koma til móts við íbúana, en það er fullsnemmt að ræða það, þótt ljóst sé að ekki verði um að ræða aðra afgreiðslu," segir Friðgeir. Hann bendir jafnframt á að bankinn hafi verið að auka þjónustu sína með þeim hætti að hægt sé að stunda fullkomin alhliða bankaviðskipti bæði í gegnum síma og á Netinu.

Ástæður sameiningarinnar eru víðtæk hagræðing á rekstri bankans, sem meðal annars felst í endurskipulagningu á útibúanetinu. Að sögn Friðgeirs hafa umsvif viðskipta í afgreiðslunni á Eyrarbakka dregist saman undanfarin ár og það kallar á hagræðingu inni í bankanum.