UMRÆÐUHÓPUR um klám á vegum Stígamóta verður haldinn mánudaginn 4. október kl. 20 hjá Stígamótum, Vesturgötu 3. Í fréttatilkynningu frá hópnum segir að klámbylgjan sem skollið hafi yfir landið undanfarin misseri hafi vakið litla umræðu. Hvorki opinberir aðilar, kvennahreyfingin eða almenningur hafi haldið uppi andófi svo mark sé á takandi.
Umræðuhópur um klám

UMRÆÐUHÓPUR um klám á vegum Stígamóta verður haldinn mánudaginn 4. október kl. 20 hjá Stígamótum, Vesturgötu 3.

Í fréttatilkynningu frá hópnum segir að klámbylgjan sem skollið hafi yfir landið undanfarin misseri hafi vakið litla umræðu. Hvorki opinberir aðilar, kvennahreyfingin eða almenningur hafi haldið uppi andófi svo mark sé á takandi. Bríet, félag ungra femínista, sé þó undantekning frá sinnuleysinu.

Hjá Stígamótum hefur klámvæðingin verið til umræðu og hvernig bregðast eigi við henni. Stígamótakonur heimsóttu m.a. þrjá nektardansstaði til þess að skoða hvað færi þar fram. Þar hittu Stígamótakonur margar ungar stúlkur sem kepptust um að bjóða líkama sína til sölu. Í samtölum við þær kom fram að þær voru allar útlenskar og þar af margar frá hinum fátæku löndum A-Evrópu. Þær eru gerðar út af alþjóðlegum klámhringjum sem senda þær vítt og breitt um heiminn. "Markaðurinn fyrir líkama ungra stúlkna er stór meðal íslenskra karla og augljóst að klámiðnaðurinn er orðinn að stórútgerð," segir í fréttatilkynningu frá starfshópnum.

"Við Stígamótakonur ætlum að koma á laggirnar umræðuhópi um klám og fara skipulega í gegnum ýmsa þætti þess. Við ætlum að lesa saman bækur, skoða auglýsingar og hvað finna má á Netinu, fá í heimsókn til okkar sem flesta sem eitthvað hafa til málanna að leggja og sjá hvers við verðum vísari. Diana Russell hefur þegið boð okkar um að heimsækja Stígamót á 10 ára afmælinu 8. mars næstkomandi, en hún er heimsþekkt fyrir rannsóknir sínar og skrif um klám og kynferðisofbeldi.

Á fyrsta fundi munum við í sameiningu skipuleggja starfið og ákveða fundartíma og tíðni funda, fara yfir lesefni, hverja við viljum boða á fund okkar og hvað við viljum gera."