Yndislegasti dagur í lífi mínu var nótt. Anita Ekberg. Ljóðið holdi klætt! Já, hvað skyldi það nú vera, lesendur góðir? Þið megið geta þrisvar. Konur í svörtu, konur í rauðu, konur í grænu, konur í engu. Konur. Tólf ára gamall fékk ég vinnu nokkrar vikur að sumri til sem sendill á skrifstofu fyrirtækis úti á landi. Þetta var ekki erfið vinna.

LJÓÐIÐ HOLDI KLÆTT

ÖRSAGA EFTIR EYSTEIN BJÖRNSSON

Yndislegasti dagur í lífi mínu var nótt.

Anita Ekberg. Ljóðið holdi klætt! Já, hvað skyldi það nú vera, lesendur góðir? Þið megið geta þrisvar. Konur í svörtu, konur í rauðu, konur í grænu, konur í engu. Konur. Tólf ára gamall fékk ég vinnu nokkrar vikur að sumri til sem sendill á skrifstofu fyrirtækis úti á landi. Þetta var ekki erfið vinna. Ég var aðallega sendur með reikninga og eyðublöð alls konar út um bæinn, til þess að ná í gögn og vörur og vera yfirleitt til taks ef á þurfti að halda. Á skrifstofunni vann ung, ljóshærð stúlka. Ég veit ekki nákvæmlega hve gömul hún var. Eftir á að hyggja hefur hún líklega verið sautján ­ átján ára. Þetta var sumarið þegar ég varð ástfanginn í fyrsta sinn. Allar nætur dreymdi mig hana. Ýmist kom hún svífandi til mín, sveipuð gegnsæjum, rósrauðum slæðum eða hún sat við að tína gul og bleik blóm einhvers staðar í fallegu skógarrjóðri. Og alltaf þegar ég reyndi að nálgast hana í draumnum leystist hún upp og hvarf. Hún var það fyrsta sem ég hugsaði um þegar ég vaknaði á morgnana og síðasta myndin í huga mér áður en ég sofnaði á kvöldin. Það verður erfitt að lýsa því hvernig mér var innanbrjósts þennan sumarpart. Líklega þarf lesandinn að hafa orðið ástfanginn til þess að átta sig á því. Ég var ofsalega fljótur í öllum sendiferðunum. Ég sást aldrei úti nema á hlaupum, var kominn eins og byssubrenndur aftur upp á skrifstofuna, settist á stólinn minn úti í horni, dinglaði löppunum og starði á stúlkuna. Ég fylgdist með hverri hreyfingu hennar hvort sem hún var að skrifa, vélrita, laga til á borðinu eða svara í símann. Augu mín voru límd við blóðrauðar varir hennar á meðan hún talaði, brosti og hló. Og ef hún stóð upp til þess að ná í einhver gögn í skjalaskápinn eða átti erindi við framkvæmdastjórann á innri skrifstofunni fór fyrst að hitna í kolunum. Alveg er ég handviss um að aldrei hefur hjartað í nokkrum manni slegið hraðar og ákafar í kyrrstöðu en þessi tólf ára gamla dæla mín í sínum mjóslegna brjóstkassa. Ég kalla hana Rósu. Hún Rósa gekk ekki. Hún leið áfram, vaggaði, bylgjaðist, sigldi, sveif. Mjaðmir hennar, brjóst og kálfar runnu saman í eitt, mér sortnaði fyrir augum og ég fann óendanlega ljúfsáran, hrollkenndan fiðring fara um mig allan. Titrandi fiðring sem þrengdi sér inn í hverja taug mína og frumu. Ég var stundum svo lengi að koma til sjálfs mín eftir þessar ferðir hennar um herbergið að hún hélt að ég hefði skyndilega orðið veikur þar sem ég sat þarna kafrjóður í framan, augun öll á skakk, með hálfopinn munninn og aulalegan yfirliðssvip á andlitinu. Hún var alltaf að brýna það fyrir mér að fara mér hægar í sendiferðunum. Það væri áreiðanlega ekki gott fyrir mig að hendast svona fram og aftur eins og brjálaður maður og hún spurði mig oftar en einu sinni að því með umhyggjusvip hvort ekki gæti verið að það væri eitthvað að hjartanu í mér. Hún lagði einu sinni höndina á enni mitt eftir að ég hafði dottið út enn eina ferðina í stólnum og kvað upp þann úrskurð að ég væri með bullandi hita og skyldi þegar í stað fara heim, upp í rúm og láta mér batna. Þegar ég var eðlilegur, að henni fannst, spjallaði hún heilmikið við mig, gantaðist og stríddi mér á hinu og þessu. Hún var alltaf að spyrja mig hvort ég ætti ekki kærustu, og þegar ég kvað nei við því, hvernig mér litist á hina og þessa, hvort ég vildi hafa þær ljóshærðar, dökkhærðar, rauðhærðar, freknóttar, grannar, þybbnar, lágvaxnar eða háar. Loks vorum við búin að gera úttekt á öllum stelpum í bænum á mínum aldri. Hún hætti að vélrita, virti mig fyrir sér með þessu stríðnislega brosi sínu og sagði: ­ Ja, hérna. Það er greinilega ekki auðvelt að gera herranum til hæfis. Hvernig þarf hún eiginlega að vera, þessi stelpa, til þess að hún fái náð fyrir augum þínum ? ­ Eins og þú ­ Ég missti þessi þrjú orð út úr mér algerlega óviljandi. Þau brutust bara út úr munni mínum með offorsi, þvert ofan í vilja minn og ásetning. Á dauða mínum átti ég von en ekki því að heyra sjálfan mig segja eitthvað þessu líkt. Brosið hvarf af andliti Rósu. Í staðinn komu hörkudrættir við munninn sem ég hafði aldrei tekið eftir áður. Hún leit á borðið fyrir framan sig, bankaði á nokkur umslög sem búið var að árita. ­ Viltu gjöra svo vel að fara með þessi umslög á pósthúsið fyrir mig, sagði hún, án þess að líta í áttina til mín, og hélt svo áfram að vélrita. Ég tók umslögin og fór með þau á pósthúsið en ég kom aldrei aftur á skrifstofuna. Þóttist vera veikur daginn eftir og sagðist svo vilja fara í sveit til frænda míns. Ég vissi að foreldrar mínir höfðu lengi talið það góðan kost fyrir mig að kynnast dásemdum sveitalífsins. Ég hafði öðlast mína fyrstu reynslu í samskiptum við sterkara kynið og þetta er ekki prentvilla.



Höfundurinn er rithöfundur.