FRESTA á ýmsum framkvæmdum á næsta ári sem nemur ríflega tveimur milljörðum króna. Stærsti hluti þeirrar upphæðar er vegna framkvæmda á vegum samgönguráðuneytisins eða kringum einn milljarður. Í greinargerð frumvarpsins segir að komi ekki til frestunar muni stofnkostnaður aukast milli ára vegna markaðra tekjustofna til vegagerðar og áforma sem voru uppi um að ljúka umfangsmiklum byggingaráformum.

Framkvæmdum frestað fyrir tvo milljarða

FRESTA á ýmsum framkvæmdum á næsta ári sem nemur ríflega tveimur milljörðum króna. Stærsti hluti þeirrar upphæðar er vegna framkvæmda á vegum samgönguráðuneytisins eða kringum einn milljarður. Í greinargerð frumvarpsins segir að komi ekki til frestunar muni stofnkostnaður aukast milli ára vegna markaðra tekjustofna til vegagerðar og áforma sem voru uppi um að ljúka umfangsmiklum byggingaráformum.

Fresta á framkvæmdum fyrir um 550 milljónir á vegum Vegagerðarinnar og 350 milljónir hjá Siglingastofnun Íslands. Þá verður frestað framkvæmdum við flugvelli fyrir um 100 milljónir. Leggur samgönguráðherra fram á þingi nú í haust tillögur sínar um breytingar á veg- og hafnaáætlun til samræmis við þessi áform.

Meðal annarra liða má nefna að á vegum iðnaðarráðuneytisins verður frestað framkvæmum á vegum Rarik fyrir um 50 milljónir og lækkar framlag til liðarins styrking dreifikerfis í sveitum sem því nemur. Hjá menntamálaráðuneyti lækkar stofnkostnaður um 160 milljónir vegna frestur framkvæmda Endurbótasjóðs menningarbygginga. Hjá umhverfisráðuneyti er gert ráð fyrir 205 milljóna króna lækkun stofnkostnaðar vegna frestunar framkvæmda. Nærri helmingur upphæðarinnar er vegna frestunar á styrkjum vegna fráveitna hjá sveitarfélögum og um 100 milljónir vegna frestunar framkvæmda á vegum Ofanflóðasjóðs.

Þá má nefna að framlag til undirbúnings að smíði varðskips lækkar um 13,9 milljónir og verður 5 milljónir króna og er þetta einnig í þágu þeirra áforma ríkisstjórnarinnar um sparnað og frestun stofnkostnaðar. Gert er ráð fyrir að framlagið dugi þó til þess að ljúka megi undirbúningnum á næsta ári þannig að útboð geti farið fram í árslok.