BARNALEIKRITIÐ Glanni glæpur í Latabæ var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á fimmtudagskvöld. Leikritið er sjálfstætt framhald Áfram Latibær sem sýnt var í Loftkastalanum við miklar vinsældir fyrir tveimur árum. Höfundar eru Magnús Scheving, þolfimikappi og íþróttaálfur, og Sigurður Sigurjónsson sem jafnframt er leikstjóri.
Glanni glæpur í Latabæ frumsýnt Kátir krakkar á frumsýningu

BARNALEIKRITIÐ Glanni glæpur í Latabæ var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á fimmtudagskvöld. Leikritið er sjálfstætt framhald Áfram Latibær sem sýnt var í Loftkastalanum við miklar vinsældir fyrir tveimur árum. Höfundar eru Magnús Scheving, þolfimikappi og íþróttaálfur, og Sigurður Sigurjónsson sem jafnframt er leikstjóri. Í Latabæ, sem nú heitir Sólskinsbær, er allt með kyrrum kjörum eftir að íþróttaálfurinn tók þar til hendinni í Loftkastalanum þar til óprúttinn náungi kemur í bæinn og gerir mikinn usla. Börnin skemmtu sér konunglega á sýningunni, sem eflaust á eftir að njóta viðlíkra vinsælda og fyrri sýningin, og gengu leikhúsgestir, ungir sem aldnir, með bros á vör út úr Þjóðleikhúsinu að sýningu lokinni.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson Þær Anna Kristín Lárusdóttir og Hansína Gunnarsdóttir virða fyrir sér brúður í anddyri leikhússins.

Guðmundur A. Jóhannsson tók börn sín, Helgu Guðrúnu og Andra Frey, á Glanna glæp í Latabæ og Jón Brynjar Jónsson kom einnig með.

Róbert Arnfinnsson spjallaði við Hall Helgason og Rúrik Haraldsson í hléinu en sonardætur Rúriks, Anna Krista og Helen, fengu að fara með afa í leikhúsið.