Solveig Faringer söng norræn lög; Gustav Djupsjöbacka lék með á píanó. Fimmtudagskvöld kl. 20.30. UPPHAFLEGA voru sungnar rómönsur langir strófískir sagnaljóðabálkar, hetjusöngvar og ástarsöngvar. Sungna rómansan á rætur að rekja til miðalda, jafnvel lengra aftur, en þróaðist í ýmsar áttir allt til nítjándu aldar.
Norrænar rómönsur TÓNLIST Norræna húsið EINSöNGSTÓNLEIKAR

Solveig Faringer söng norræn lög; Gustav Djupsjöbacka lék með á píanó. Fimmtudagskvöld kl. 20.30. UPPHAFLEGA voru sungnar rómönsur langir strófískir sagnaljóðabálkar, hetjusöngvar og ástarsöngvar. Sungna rómansan á rætur að rekja til miðalda, jafnvel lengra aftur, en þróaðist í ýmsar áttir allt til nítjándu aldar. Þýska ljóðið kom þá sem byltingarkennd nýjung í söngtónlist rómantíkurinnar, og rómansan fór að þykja frekar gamaldags. Víða hélt hún þó áfram að þróast; ­ vissulega sótti hún ýmislegt til ljóðatónlistarinnar, en einnig til salonsöngva, gamansöngva, þjóðlaga og jafnvel óperunnar. Angi rómönsuhefðarinnar barst hingað til lands um og eftir aldamótin síðustu með erlendum söngvum í þeirri merku bók, Íslensku söngvasafni, og í söngkverum Þórðar Kristleifssonar Ljóðum og lögum, í sönglögum eftir Weyse, Berggren, Mendelssohn og fleiri. Norræn sönglagahefð á meira skylt við rómönsuhefðina en þýska ljóðasöngshefð, þótt mörg norræn tónskáld sverji sig sannarlega í ljóðasöngsætt, eins og samtímamaður Sibeliusar og landi Yrjö Kilpinen. Norræna húsið og Norræna tónlistarnefndin NOMUS standa fyrir þeim menningarauka um þessar mundir að kynna hér Norræna sönglagahefð með þrennum tónleikum sem kallaðir eru rómönsukvöld. Á fyrstu tónleikunum, á fimmtudagskvöld, söng Solveig Faringer frá Svíþjóð, en Finninn Gustav Djupsjöbacka lék með á píanó.

Á efnisskrá voru sönglög eftir finnsk, norsk, dönsk og sænsk tónskáld, ­ það elsta Waldemar Thrane fæddur 1790, og það yngsta Rolf Wallin fæddur 1957. Fyrirferðarmestir í efnisskránni voru Carl Nielsen, Edvard Grieg, Jean Sibelius og Ture Rangström, en þessir kappar verða að teljast landsliðsfyrirliðar meðal sönglagasmiða Norðurlanda á seinni hluta síðustu aldar og fram á okkar öld, hver í sínu landi. Flytjendur kvöldsins létu ekki hugfallast þótt tómahljóð væri í sal Norræna hússins og aðeins um fimmtán manns mættir. Þeim mun sárari verða vonbrigði þeirra sem hefðu viljað koma, en komu ekki, þegar það spyrst hvílíkt einvala dúó hér var á ferð. Solveig Faringer er reynd söngkona. Rödd hennar er yndislega falleg, lýrísk sópranrödd, sem virðist nánast tæknilega fullkomin. Meira um vert er að hún er mikill músíkant og afar sterkur túlkandi, ­ persónuleg og heillandi. Gustav Djupsjöbacka er afbragðsgóður píanóleikari, með sterkt næmi fyrir söngnum og orðinu, og samspil þeirra Solveigar var algjörlega hnökralaust. Það sem upp úr stóð í flutningi listamannanna var Norskur fjallasöngur eftir Waldemar Thrane, ­ smalaljóð selsstúlku sem kallar á kýrnar sínar, ­ eins og hefðbundin norsk kúalokka sungin í brotnum hreinum hljómum, með jóðli og trillum. Þetta var glæsilega gert. Lög Carls Nielsens voru hvert öðru yndislegra í flutningi Solveigar og Gustavs, ­ ekki síst hið ægifagra lag Sænk kun dit Hoved du blomst, við ljóð eftir Johannes Jørgensen og ástarsöngurinn Æbleblomst við ljóð Ludvigs Holsteins. Af lögum Griegs voru standardinn Med en Primula Veris og På Skogstigen áhrifamikil. Í laginu Et håb reyndi verulega á píanísk tilþrif og ólgandi dramatík, og var flutningur lagsins frábær. Af lögum Sibeliusar stóð Våren flyktar hastigt upp úr fyrir sérstaklega fallegan söng Solveigar. Lagaflokkur Ture Rangströms, Hennes ord, þrír söngvar við ljóð eftir Bo Bergman, er stórkostlegur. Tónlistin er tjáningarrík og tónlistarmennirnir hurfu inn í veröld orða og tóna, voru gjörsamleg á valdi hennar og sköpuðu eftirminnilega og óviðjafnanlega músíkalska stemmningu. Af lögum tónskálda sem fædd eru á okkar öld var Schlu -Stück eftir Rolf Wallin við ljóð Rilkes sérstaklega heillandi, og eins Nattjakt eftir Lars Johan Werle, fantasía og orðaleikur um ljóð eftir Matts Rying. Fyrsta rómönsukvöld Norræna hússins var einstaklega ánægjulegt og vel heppnað, þrátt fyrir fámennið. Það er svo mikilvægt fyrir íslenskt tónlistarlíf að fá gesti erlendis frá til að syngja og leika, ­ sýna hvernig sungið er í útlöndum og flytja tónlist sem ekki er hversdagsmeti hér. Það er okkur hættulegt að verða of sjálfhverf og ein með sjálfum okkur í listinni. Bergþóra Jónsdóttir