JAFNRÉTTISNEFND Háskóla Íslands hefur opnað heimasíðu, en nefndin tók til starfa árið 1998. Slóð heimasíðunnar er: http: //www.hi.is/stjorn/nefndir/jafnrettis Í fréttatilkynningu frá nefndinni segir m.a.: "Á heimasíðu jafnréttisnefndar er að finna upplýsingar um starfsemi nefndarinnar, aðgerðir og fræðslu á hennar vegum.
Jafnréttisnefnd HÍ með heimasíðu

JAFNRÉTTISNEFND Háskóla Íslands hefur opnað heimasíðu, en nefndin tók til starfa árið 1998. Slóð heimasíðunnar er: http: //www.hi.is/stjorn/nefndir/jafnrettis

Í fréttatilkynningu frá nefndinni segir m.a.: "Á heimasíðu jafnréttisnefndar er að finna upplýsingar um starfsemi nefndarinnar, aðgerðir og fræðslu á hennar vegum. Niðurstöður kannana og úttekta á mismunandi aðstæðum og kjörum kynjanna innan Háskólans eru kynntar. Ennfremur er að finna tölfræðilegar upplýsingar um kynjahlutfall í stöðum, deildum og námsgreinum, ofl. Vísað er á aðra aðila sem sinna jafnrétti og nokkrar jafnréttisnefndir við æðri menntastofnanir í nágrannalöndunum. Þarna er einnig að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar, eins og t.d. um kynferðislega áreitni við háskóla, og leiðbeiningar um hvað sé til ráða ef fólk lendir í slíku.

Í frétt frá jafnréttisnefnd á heimasíðunni er lýst áhyggjum yfir mun á launum karla og kvenna í Félagi háskólakennara. Samkvæmt nýlegri samantekt um laun og launaþróun hjá aðildarfélögum Bandalags háskólamanna sem Félag háskólakennara er hluti af virðist í fljótu bragði sem munur á dagvinnulaunum karla og kvenna innan Félags háskólakennara hafi aukist eftir að nýja launkerfið tók gildi í árslok 1997. Í desember 1997 var munur á dagvinnulaunum karla og kvenna 3,9%, en í mars 1999 var hann 7,4%. Jafnréttisnefnd telur ljóst er að gögn þessi þurfi að skoða nánar og kanna hvort nýja launakerfið auki kynbundinn launamun. Það þarf vart að geta þess að munur á heildarlaunum kvenna og karla er enn meiri. Á undanförnum tveimur árum hefur munurinn verið á bilinu 5% þann mánuð er best lætur og 35% er verst lætur."