DRAUMAR margra snúast um þjóðfélag án glæpa, mengunar, eiturlyfja eða hvers konar spillingar af völdum mannsins. Samfélag þar sem maðurinn er innsæisrík hugsandi vera og lifir í samræmi við þann tíu boðorða boðskap sem honum var færður í vöggugjöf.

Draumasamfélagið

DRAUMSTAFIR Kristjáns Frímanns



DRAUMAR margra snúast um þjóðfélag án glæpa, mengunar, eiturlyfja eða hvers konar spillingar af völdum mannsins. Samfélag þar sem maðurinn er innsæisrík hugsandi vera og lifir í samræmi við þann tíu boðorða boðskap sem honum var færður í vöggugjöf. Þessi draumur hins vakandi manns virðist um það bil að rætast nú þegar við stígum inn í nýja öld, nýtt árþúsund og þann veruleika sem stjörnuspekin hefur boðað að okkar bíði á tíð vatnsberans. Næturdraumarnir ýja að því að þessi draumur manns og spá stjörnuspekinga sé engin firra, heldur draumur sem rætist. Svartsýnar spár manna um heimsendi og undirgang jarðar virðast ekki eiga við rök að styðjast en túlkanir manna á þeim spám ganga út á endalok heimsins og eyðingu. Í draumum næturinnar birtast allt aðrar túlkanir og önnur mið, þar er gefið í skyn að komandi ragnarök snúist um hamskipti jarðar og hreinsun (líkt og Nóaflóðið forðum) að gamli heimurinn hverfi en nýr taki við. Draumur svefnsins boðar nýöld þar sem Kristur kemur inn í hjörtu fólks, spá stjörnuspekinnar um hátæknivætt og fagurt mannlíf á öld vatnsberans rætist og draumasamfélagið gengur í garð.

Draumar "Sóleyjar"

1. Mig dreymdi að ég og barnsfaðir minn vorum á leið (dreymt tveim mánuðum fyrir fæðingu barnsins) með barnið (stúlka) að láta skíra það. Við vorum bara tvö, ég segi við hann "við erum bara tvö", "já, allt í lagi" segir hann. Stúlkan fékk nafnið Jóhanna.

2. Mig dreymdi að ég væri í vinnunni (stórum vinnustað). Ég var úti og þar var fólk að bjástra eins og við gröf. Ég sé flugvél koma, frekar litla og hún stefnir beint á húsið, flugvélin flaug lágt. Ég forða mér, það verður flugslys og ég heyri að fimm hafi farist. Þetta var hálfógeðfellt. 3. Ég er stödd í húsi eða íbúð sem ég kannast ekkert við. Það er allt hvítt inni í íbúðinni, allar innréttingar og bara allt, íbúðin var frekar falleg.

Ráðning

Þegar maður les drauma er Biblían geymir og útlistanir spámannanna um hvernig Guð hvíslar draumunum í eyru þeirra um nætur, er ekki úr lagi að álykta að svo sé enn og draumar okkar séu orð Guðs um farnað okkar á lífsins braut. Þessir þrír draumar gætu túlkast sem orð frá dýpri vitund til þín um aðgæslu á göngunni.

Fyrsti draumurinn gefur í skyn að á þeirri leið verði vegartálmi í formi ytri aðstæðna sem breyti verulega leið þinni og aðstæðum (þið voruð bara tvö). Það er svo nafnið á barninu sem bendir til að upptökin að breytingunum hvíli þar því nafnið Jóhanna lýsir baráttuglaðri konu með gott hjartalag. Annar draumur lýsir miklum átökum og röskun á persónuleikagerð (gröfin) sem leiði til loka þíns fyrra sjálfs (flugvélin) en upp rísi ný þú, eða líkt og sagan um fuglinn Fönix sem fellur og brennur en úr öskunni rís hann aftur endurborinn. Þriðji draumurinn er svo mynd af þessu nýja sjálfi þínu (hvíta íbúðin) sem enn er ekki liti borið og fullmótað en fagurt samt og hreint.

Draumstafir

Þessum vikulega pistli um drauma og ráðningar þeirra berast mörg bréf sem ég reyni að svara samviskulega og læt því í rétta röð eftir því sem þau berast. Bréfin sem fylla skilyrðin um fullt nafn, fæðingardag, ár, heimilisfang og dulnefni fá sitt númer en hin, þessi andlitslausu lenda í hel. Plássið í blaðinu ræður því svo hversu hratt gengur á draumana og að þinn draumur birtist.



Þeir lesendur sem vilja fá drauma sína birta og ráðna sendi þá með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt heimilisfangi og dulnefni til birtingar til:

Draumstafir

Morgunblaðið

Kringlunni 1

103 Reykjavík



Mynd/Kristján Kristjánsson Draumurinn um nýja jörð í mótun.