ENN eitt ágætisbréfið hefur mér borist, og nú frá Þór Magnússyni þjóðminjaverði: "Góði Gísli. Fyrir nokkrum vikum gerðir þú að umtalsefni í pistli þínum orðatiltækið: Þar stendur hnífurinn í kúnni. Fannst þú jafnframt tilsvarandi orðatiltæki í þýzku, en hins vegar minntist þú ekki á hvað liggja kynni á bak við að þannig væri tekið til orða.
ÍSLENSKT MÁL

Umsjón: Gísli Jónsson

1025. þáttur

ENN eitt ágætisbréfið hefur mér borist, og nú frá Þór Magnússyni þjóðminjaverði:

"Góði Gísli.

Fyrir nokkrum vikum gerðir þú að umtalsefni í pistli þínum orðatiltækið: Þar stendur hnífurinn í kúnni. Fannst þú jafnframt tilsvarandi orðatiltæki í þýzku, en hins vegar minntist þú ekki á hvað liggja kynni á bak við að þannig væri tekið til orða.

Hér glyttir greinilega í gamla þjóðtrú, er vafalaust um að ræða hina gömlu hræðslu við að ekki mætti ganga frá kú eða öðrum stórgrip á blóðvelli nema stinga hníf í skrokkinn fyrst, annars gengi gripurinn aftur.

Þetta er þekkt í gamalli íslenzkri þjóðtrú. Jónas á Hrafnagili segir í Þjóðháttunum: "Eigi máttu ganga frá svæfðum eða skornum bola á blóðvelli, því að þá gat hann gengið aftur (sögðu Múlsýslingar) eða orðið að nykri (Skaftfellingar)." Segir hann þar að einn illur draugur í Múlasýslu sé þannig til kominn, nefnir þá einnig Þorgeirsbola.

Þórður Tómasson segir á bls. 33 í bók sinni Þjóðhættir og þjóðtrú, að einhverju sinni hefði kvígu verið slátrað í Holtunum og fóru menn allir frá henni á blóðvellinum en gættu þess ekki að stinga hnífi í skrokkinn á henni áður. Er þeir komu aftur sáu þeir að stór fugl var að kroppa í banakringluna á kvígunni, sem reis þá upp með húðina flakandi og steypti sér í tjörn þar hjá.

Orðatiltækið, að hnífurinn standi í kúnni, er einmitt haft þegar eitthvað hindrar.

Skemmtilegt er ef hægt væri að sýna fram á að þessi þjóðtrú sé svo gömul sem ætla mætti að þýzkan gefi til kynna, hluti af sameiginlegum norrænum menningararfi sem hafi þekkzt á hinu forna germanska menningarsvæði, og sé því menja hennar einnig að finna í þýzku máli.

Þú hefur ýmsu góðu komið til leiðar í lagfæringu málfars í fjölmiðlum. Vil ég þakka þér fyrir hrós þín til útvarpsþula um fjórðung (stundar) í stað korters, og nú heyri ég fleiri útvarpsþuli en Sigvalda nota þetta orð. En sumir eru að gerast kaþólskari en páfinn og nú heyrist jafnvel að klukkan "sé "þriðjung" gengin í eitt. Þarna finnst mér nú skemmtilegra að segja einfaldlega "tuttugu mínútur", og það er prýðilega þjált.

En gætir þú ekki skorið upp herör gegn því að nota orðið "ferskt" sýknt og heilagt um alla nýja hluti, einkum þá matvæli? "Ferskt kjöt, ferskur fiskur, ferskt vatn". ­ Vafalaust er þetta ekki rangt á neinn hátt, en minnir þó mjög á notkun Dana og enskumælandi þjóða á fersk og fresh. Til skamms tíma sögðu menn "nýtt kjöt", "nýr fiskur", áttu þá við ófryst eða ósaltað, og "hreint vatn". ­ Í sjónvarpsþætti í fyrrakvöld var sífellt tönnlazt á "fersku vatni".

Eins mættir þú leggja til atlögu við veðurfræðingana sem sífellt tönnlazt á "að bæti í vind". ­ Hjá þeim heyrist sjaldan að kuli, hvessi eða rjúki upp, enda verið að taka upp staðlað veðurmál (er það fyrirskipun frá Brussel, eins og svo margt annað?).

Mér finnst einhvern veginn að málfarsráðunautar útvarps og blaða fái litlu til leiðar komið. Væri ekki vænlegra að málhagir menn væru látnir lesa yfir fréttir og tilkynningar í útvarpi og greinar í blöðum og laga málfarið? Það er voðalegt að sjá ambögur eins og "áhöfn fallbyssunnar er þrír menn" (maður þakkar fyrir að ekki stóð "áhafnarmeðlimir fallbyssunnar"), sem var í Mogganum í gær, og eins að útvarpsmenn tala sífellt um "óbreytta borgara", sem falla fyrir vopnum hermanna og glæpalýðs í útlöndum. Venjulegt fólk eða almenningur heyrist þarna ekki nefnt.

Svo þakka ég þér fyrir að vera hættur að gefa fréttamönnum eða öðrum "prik" fyrir það sem þeir segja vel eða skrifa. Ég var alltaf hræddur um að þeir færu að berja hver annan með prikunum. En það er hættulítið að veita þeim hrós.

Bestu kveðjur."

Umsjónarmaður þakkar þetta fróðlega og greinargóða bréf. Bréf, símtöl og samtöl á víðum velli eru líftaugar þáttarins. Hann lætur svo fylgja hér nokkrar athugasemdir frá sér sjálfum:

1) Mér finnst "þriðjung gengin" ágætt, sbr. fjórðung gengin, en úrslitum ræður að þetta sagði hún amma mín.

2) Ég tek sterklega undir með Þ.M. um ofnotkun orðsins "ferskur" og hef reynt að andæfa henni áður. Ekki síður tek ég í streng með bréfritara um að "bæta í vind". Mér þykir stundum sem gleymst hafi sögnin að hvessa .

3) Ég er ósammála Þ.M. um málfarsráðunautana. Ég veit að þeir hafa miklu góðu til leiðar komið.

4) Um einkunnagjöf mína, ætlaða til uppörvunar, fjölyrði ég ekki.

Ég kveð Þór Magnússon með þökkum og virktum.

Inghildur austan kvað:

Upp í himininn gáir nú Gústi,

í gærdag lá honum við rústi,

og af þessum sökum

hann ansar ei rökum

og ætlar sér ríðandi á kústi.

Ríki íslenskunnar er að vísu ekki viðáttumikið í rúmi, hún hefur ekki lagt undir sig löndin, en hún hefur lagt undir sig aldirnar. . . . Egill Skallagrímsson, víkingurinn, og Matthías Jochumsson, klerkurinn, gætu skipst á hendingum yfir tíu aldir og skilið hvor annan til fulls. Svo mikill er kraftur hins íslenska orðs, að tönn tímans hefur aldrei unnið á því ­ og skal aldrei gera.

(Árni Pálsson, 1878­1952.) Skeyti frá Haraldi Blöndal:

"Sæll, góði vin.

Ég var að skoða færeysku vefsíðurnar, og sá þá gullfallegt orð, sem Færeyingar hafa um Vesturnorræna ráðið, Vestnordisk Råd. Á færeysku heitir þetta félag einfaldlega Útnorðurráðið. Finnst þér ekki eins og mér, að Íslendingar ættu að taka þetta nafn upp eftir Færeyingum?

[Jú, þetta er fínt orð. Út vil ek, sagði Snorri, þegar hann ætlaði vestur til Íslands.] Svo sá ég vísubrot, sem ég læt fylgja, þetta er úr gamalli grein eftir Erlend Patursson:

Meðan líðin elur seyð

og havið fisk,

so fæst við Guðs hjálp dagligt breyð

á føroyinga disk."



Auk þess fær Íslandsflug vænt prik fyrir að auglýsa á mannamáli " Fleiri ferðir ". Og sömu leiðis Sigvaldi Júlíusson fyrir þriðjung gengin og þriðjudaginn var í sama fréttatíma.