SJALDAN HEFUR fjárlagafrumvarpsins verið beðið af jafnmikilli eftirvæntingu og að þessu sinni. Ástæðan er sú, að efnahagssérfræðingar telja aðgerðir í ríkisfjármálum hafa úrslitaáhrif á verðbólguþróun næstu missera. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár síðdegis í gær. Það gerir ráð fyrir 15 milljarða króna rekstrarafgangi ríkissjóðs árið 2000.
FJÁRLÖG GEGN VERÐBÓLGU

SJALDAN HEFUR fjárlagafrumvarpsins verið beðið af jafnmikilli eftirvæntingu og að þessu sinni. Ástæðan er sú, að efnahagssérfræðingar telja aðgerðir í ríkisfjármálum hafa úrslitaáhrif á verðbólguþróun næstu missera. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, kynnti fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár síðdegis í gær. Það gerir ráð fyrir 15 milljarða króna rekstrarafgangi ríkissjóðs árið 2000. Lánsfjárafgangur, en það er það fé sem er til ráðstöfunar hjá ríkissjóði, verður enn hagstæðari, eða um 24 milljarðar króna. Þetta þýðir, að samanlagður lánsfjárafgangur ríkissjóðs áranna 1998­2000 verður ríflega 60 milljarðar. Þetta mikla fé er hægt að nota til uppgreiðslu lána eða til að bæta stöðu ríkissjóðs að öðru leyti. Umskiptin í ríkisfjármálum eru ótrúlega mikil, því ríkissjóður var rekinn með halla um langt árabil og skuldir hlóðust upp innanlands sem utan.

Rekstrarafgangur ríkissjóðs á næsta ári verður 2,2% af landsframleiðslu. Það er miklu meira en búizt var við miðað við ummæli fjármálaráðherra frá því síðast í ágústmánuði sl. Þá sagði hann eftir þingflokksfundi stjórnarflokkanna, að markmið ríkisstjórnarinnar um 1% afgang af ríkissjóði að lágmarki, miðað við landsframleiðslu næsta árs, virtist ætla að nást. Rekstrarafgangur hefði samkvæmt því orðið 6­7 milljarðar. Það er því augljóst, að ríkisstjórnin hefur tekið alvarlega vísbendingar um aukna verðbólgu í efnahagslífinu.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er ákveðið að fresta opinberum framkvæmdum fyrir um 2 milljarða króna á næsta ári, auk þess sem áformum um ný verkefni verður slegið á frest. Beitt verður aðhaldi í útgjöldum almennt séð. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir, að útgjöld ríkisins á næsta ári verði 27,7% af vergri landsframleiðslu í stað 29,2% á þessu ári.

Einhver ánægjulegustu umskiptin í afkomu ríkissjóðs eru niðurgreiðsla skulda, sem safnast hafa upp um langt árabil. Með því að greiða niður skuldirnar léttir á byrði vaxta og afborgana og það fé, sem þar sparast, er unnt að nota til annarra þarfa samfélagsins. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir því, að skuldahlutfallið verði komið niður í 30% í lok næsta árs, en til samanburðar má geta þess, að það nam 51% fyrir aðeins fjórum árum (árslok 1995).

Á næsta ári er gert ráð fyrir því, að talsvert hægi á hagvextinum frá því í ár (5,8%). Landsframleiðslan mun aukast um 2,7% samkvæmt þjóðhagsspá. Nokkuð mun draga úr viðskiptahallanum, sem er einn mesti vandinn í efnahagsmálum nú, og er því spáð að hann nemi 4,2% á næsta ári í stað 4,6% í ár og 5,7% árið 1998. Viðskiptahallinn verður samt of mikill og þess vegna er nauðsynlegt að mæta honum með ríflegum afgangi ríkissjóðs, svo og með almennum sparnaði landsmanna. Hyggilegt er fyrir ríkisstjórnina að beita sér fyrir aðgerðum sem hvetja almenning til sparnaðar þurfi enn frekar að slá á þensluna í efnahagskerfinu. Annar kostur er varla fyrir hendi nema þá skattahækkanir. Sú leið er þó ófær, þar sem skattar eru enn of háir, auk þess sem framundan eru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði.

Verðbólguhraðinn að undanförnu hefur valdið ugg, en forsendur fjárlaga gera ráð fyrir því, að verulega dragi úr verðhækkunum á næsta ári. Því er spáð, að neyzluvöruvísitalan hækki um 2,5% frá upphafi til loka ársins en 4,5% hækkun var á árinu 1999. Þetta er minni verðbólga, en í nýlegri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem reiknaði með 3,2% verðbólgu á Íslandi árið 2000.

Mikilvægt er að berjast gegn verðbólguþróuninni með öllum tiltækum ráðum, enda skiptir það launþega jafnt sem atvinnulíf miklu, að það takist að varðveita þann mikla árangur, sem náðst hefur í efnahagslífinu síðustu fjögur árin. Hagvöxturinn hefur verið 5,5% að meðaltali þessi ár og kaupmáttur hefur aukizt í samræmi við það.

Ekki verður annað sagt, en að með fjárlagafrumvarpinu hafi ríkisstjórnin brugðizt rösklega við þeim þenslumerkjum, sem vart hefur orðið að undanförnu. Lánsfjárafgangur samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er mun meiri en búizt var við. Til viðbótar er gert ráð fyrir sölu á ríkiseignum fyrir fjóra milljarða og fyrir lok þessa árs verður væntanlega búið að selja hlut ríkisins í FBA fyrir verulegar fjárhæðir. Hvorttveggja mun slá á þensluna, enda er það yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að nota fé vegna eignasölu til niðurgreiðslu skulda.