Leikstjóri: Danny Cannon. Handrit: Trey Callaway. Aðalhlutverk: Jennifer Love Hewitt og Mekhi Phifer. (100 mín) Bandaríkin. Skífan. Bönnuð innan 16 ára. FLJÓTLEGA eftir útkomu hinnar vinsælu en stöðluðu hryllingsmyndar Ég veit hvað þú gerðir síðasta sumar var hafist handa við framhaldið og þannig reynt að vinda síðustu blóðdropana úr þurrausinni hryllingstískubylgju.
Andlaus eftirherma Ég veit enn hvað þú gerðir síðasta sumar (I Still Know What You Did Last Summer) Hrollvekja Leikstjóri: Danny Cannon. Handrit: Trey Callaway. Aðalhlutverk: Jennifer Love Hewitt og Mekhi Phifer. (100 mín) Bandaríkin. Skífan. Bönnuð innan 16 ára.

FLJÓTLEGA eftir útkomu hinnar vinsælu en stöðluðu hryllingsmyndar Ég veit hvað þú gerðir síðasta sumar var hafist handa við framhaldið og þannig reynt að vinda síðustu blóðdropana úr þurrausinni hryllingstískubylgju. Þar komumst við að því að raðkrókarmorðinginn úr fyrri myndinni hefur engu gleymt. Hann eltir enn uppi spengilegar ungmeyjar, þ.e. kvenhetjuna Julie James (Jennifer Love Hewitt) og grandalausa vinkonu hennar. Hér er öllum heila klisjubúnkanum pakkað snyrtilega inn í andlausa eftirhermu sem sleppur nokkurn veginn fyrir horn sem staðlað skemmtiefni fyrir unglinga. Jennifer Love Hewitt gegnir mikilvægu hlutverki við að draga að karlkyns áhorfendur og hefur hæfileikalaus leikstjórinn gripið til þess ráðs að beina myndavélinni ítrekað að barmi ungstjörnunnar. Lítil áhersla er lögð á leikinn sem slíkan, sem er áberandi dauðyflislegur hvert sem litið er. Það er sem sagt ekki hægt að mæla með þessari mynd, né heldur hugsanlegum framhaldsmyndum hennar. Heiða Jóhannsdóttir 3