MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun frá stjórn Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur: "Stjórn Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur, stuðningsfélags Samfylkingarinnar, lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vegna þeirrar verðbólguskriðu og skuldasöfnunar heimila og þjóðarinnar allrar sem teflir stöðugleika efnahagslífsins og afkomu heimilanna í tvísýnu.
Lýsa ábyrgð á hendur ríkisstjórn

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun frá stjórn Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur:

"Stjórn Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur, stuðningsfélags Samfylkingarinnar, lýsir fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar vegna þeirrar verðbólguskriðu og skuldasöfnunar heimila og þjóðarinnar allrar sem teflir stöðugleika efnahagslífsins og afkomu heimilanna í tvísýnu. Með veikum tökum á ríkisfjármálum á undangengnu hagvaxtarskeiði hefur ríkisstjórnin búið illa í haginn fyrir komandi tíð. Ennfremur hefur ríkisstjórnin með fálmkenndri einkavæðingu opinberra fyrirtækja og stofnana ýtt undir óvissu og þenslu í íslensku efnahagslífi en eina ástæðu mikillar útlánaþenslu fjármálastofnana má rekja til sölu á hlutafé ríkisbankanna. Nýtt húsnæðislánakerfi var illa undirbúið og hefur þurft uppstokkunar við eftir að alls kyns brestir komu í ljós sem m.a. leiddu til verulegrar hækkunar á verði húsnæðis. Afleiðingin er sú að greiðslubyrði húsnæðislána eykst verulega og kaupmáttarauki er af launþegum tekinn. Fyrir síðustu alþingiskosningar vöruðu frambjóðendur Samfylkingarinnar við óheillaþróun í efnahagsmálum. Með hverri viku sem líður verður landsmönnum æ betur í ljós sá vandi sem við blasir en ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa til þessa kosið að stinga höfðinu í sandinn."