LÖGREGLAN í Reykjavík og SVR standa þessa dagana fyrir umferðarfræðslu fyrir nemendur í 3. bekk grunnskólanna í Reykjavík, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Kjalarnesi. Nemendur eru sóttir á strætisvagni og þeim ekið á athafnasvæði SVR við Kirkjusand, þar sem sett hefur verið upp æfingasvæði fyrir krakkana.
Lögreglan og SVR með umferðarfræðslu fyrir átta ára börn

Litið vel til beggja hliða

Reykjavík

LÖGREGLAN í Reykjavík og SVR standa þessa dagana fyrir umferðarfræðslu fyrir nemendur í 3. bekk grunnskólanna í Reykjavík, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Kjalarnesi. Nemendur eru sóttir á strætisvagni og þeim ekið á athafnasvæði SVR við Kirkjusand, þar sem sett hefur verið upp æfingasvæði fyrir krakkana. Þar er lögð sérstök áhersla á að kenna þeim notkun gangbrauta og gangbrautarljósa og einnig hvernig umgangast skal strætisvagna og hvað ber að varast þegar stigið er úr vögnunum við biðstöðvar. Fyrstu nemendurnir mættu 13. september sl. og er áætlað að umferðarfræðslunni ljúki í byrjun nóvember. Gert er ráð fyrir að 90 bekkir taki þátt í námskeiðunum og að fjöldi nemenda verði um 1700.

Nemendur í 3. bekk Selásskóla mættu á námskeiðið á þriðjudaginn í glampandi sól í haustblíðunni. Eftir að strætisvagn hafði ekið þeim á æfingasvæðið fóru lögregluþjónarnir Kristín og Eiríkur yfir mikilvægar reglur varðandi það hvernig á að ganga yfir gangbrautir og hvernig nota eigi gangbrautarljósin. Krakkarnir fylgdust vel með og lærðu að mikilvægasta reglan væri sú að byrja alltaf á því að stoppa við gangbrautir, aldrei að æða yfir göturnar, og líta svo vel til beggja hliða.

Þegar umferðarfræðslunni lauk fóru börnin aftur í strætisvagninn þar sem bílstjórinn fræddi þau um hvernig umgangast eigi vagnana. Að því loknu fengu allir glaðning í verðlaun fyrir góðan námsárangur á námskeiðinu, poka með reglustiku, endurskinsmerki, smá nammi og fleiru. Í vagninum dró Eiríkur upp gítarinn og börnin tóku lagið á leiðinni heim.

Morgunblaðið/Golli

Helgi Már, Teitur, Lilja Ósk og Silja Rut sögðust hafa kunnað reglurnar áður en þau mættu á námskeiðið, enda höfðu þau verið í umferðarskólanum áður. Þau sögðu að það væri samt gott að koma á námskeiðið til að rifja reglurnar upp. Ekki sögðust þau vera hrædd í umferðinni og hafa sem betur fer aldrei lent í neinum óhöppum. Þau voru sammála um að námskeiðið væri mjög skemmtilegt. Silja Rut þarf að fara fyrir eina umferðargötu á leiðinni í skólann og Teitur segist þurfa að fara yfir tvær götur. Þau fara alltaf mjög varlega á leiðinni og krakkarnir voru allir ákveðnir í því að standa sig vel í umferðinni í framtíðinni.

Eiríkur Pétursson lögregluþjónn sýndi börnunum hvernig á að nota gangbrautarljósin og ganga yfir göturnar.