ÞÚ VERÐUR að afsaka en íslenskan mín er ómöguleg," segir José Antonio Fernández Romero þegar við höfum heilsast á umferðamiðstöðinni í heimaborg hans Vigo í Galisíu sem er sjálfstjórnarhérað á norð-vesturströnd Spánar.

DÁSAMLEGT ÓHAPP AÐ

HAFA ÞÝTT LAXNESS

José Antonio Fernández Romero hefur þýtt íslenskar bókmenntir á spænsku og galisísku í fjörutíu ár með hléum. ÞRÖSTUR HELGASON komst að því að þýðendaferill Romeros hefur verið með svolitlum ólíkindabrag en á endanum hafa tilviljanir, óhöpp og efasemdir fært íslenskum bókmenntum dýrmætan liðsmann suður á Spáni.

ÞÚ VERÐUR að afsaka en íslenskan mín er ómöguleg," segir José Antonio Fernández Romero þegar við höfum heilsast á umferðamiðstöðinni í heimaborg hans Vigo í Galisíu sem er sjálfstjórnarhérað á norð-vesturströnd Spánar. Ég segi eins og er að mér heyrist hann ekki þurfa að hafa áhyggjur af íslenskunni sinni en hann maldar í móinn og segist hafa verið að lesa í gegnum Þórberg Þórðarson undanfarna daga til að undirbúa sig fyrir viðtalið. "Hann er einn af mestu stílistum sem íslensk tunga hefur átt og því gott að rifja upp málið með honum." Allt viðtalið heldur Romero áfram að afsaka íslenskuna sína en ég kemst alltaf betur og betur að því hve ótrúleg tök hann hefur á málinu, það renna upp úr honum orðasambönd sem fæstir Íslendingar hætta á að nota og þá sjaldan sem honum verður á að beygja vitlaust leiðréttir hann það sjálfur eftir svolitla umhugsun eða spyr forvitinn hvernig þetta eigi nú aftur að vera, ­ nokkuð sem Íslendingar gera heldur ekki svo gjarna. En hugarfar Romeros þarf kannski ekki að koma á óvart, hann er prófessor í málvísindum við Háskólann í Vigo og svo segir hann að það liggi einhverjir leyniþæðir á milli sín og íslenskunnar eftir tíu ára dvöl sína hér á sjötta og sjöunda áratugnum, "þrátt fyrir að hafa lært önnur tungumál þá hefur íslenskan staðið mér næst einhverra hluta vegna," segir hann og brosir að örlögum sínum.

Sjálfsagt þekkja ekki margir Íslendingar nafn Romero, en á Spáni hefur hann verið íslenskum bókmenntum haukur í horni. Í fjörutíu ár, eða allt frá árinu 1959, hefur hann fengist við að þýða íslenskar bókmenntir á spænsku og galisísku, með nokkrum hléum þó. Fyrstu bækurnar voru Íslandsklukkan og Heimsljós eftir Halldór Laxness (útg. 1959). Síðan liðu 23 ár, en þá kom út galisísk þýðing hans á Sagnakveri Skúla Gíslasonar (1982) og tíu Íslendingaþættir (1984). Aftur liðu 11 ár en þá þýddi Romero hátt í þrjúhundruð ljóð eftir íslensk nútímaskáld í mikið safn norrænna ljóða ( Poesía Nórdica , 1995). Fyrir þær þýðingar hlaut Romero æðstu þýðendaverðlaun Spánar ásamt Francisco J. Uriz sem þýddi skandinavískan hluta safnsins. Það sama ár kom út annað ljóðasafn ( 101 Poemas ) þar sem Romero þýddi nokkur íslensk ljóð. Árið 1997 voru birtir fimm Íslendingaþættir í þýðingu Romeros í tímariti sjóðs sem kenndur er við spænska Nóbelsverðlaunahafann Camillo José Cela. Í fyrra kom svo út ljóðasafn Jóhanns Hjálmarssonar ( Antología ) í þýðingu Romeros og fyrr á þessu ári komu Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson út í þýðingu hans. Nýlega hefur Romero svo lokið við að þýða Gísla sögu Súrssonar og Bandamannasögu og væntir þess að þær munu koma út á næstunni.

Tilviljanir

Það vekur athygli hvað það verður langt hlé á þýðingastarfi Romeros eftir að hann þýddi tvær skáldsögur Halldórs Laxness í lok sjötta áratugarins. Romero verður svolítið mæðulegur á svip þegar ég inni hann eftir þessu og segist sem minnst vilja tala um þýðingar sínar á Laxness. Hann segir að allur þýðendaferill sinn hafi verið með svolitlum ólíkindabrag, það hafi til dæmis verið alger tilviljun að hann lagði út á þessa braut í upphafi.

"Það var í fyrsta lagi tilviljun að ég skyldi fara til Íslands af öllum löndum heimsins. Ég var við nám í Madríd 1949 og langaði til að læra germönsk mál, ensku eða þýsku. Það var hins vegar ekki germönskudeild við Madrídarháskóla svo ég hóf nám í málvísindadeild. En löngunin til að læra erlend mál var enn til staðar þannig að ég fór að litast um eftir tækifærum til þess að komast til annars lands. Mig hafði raunar alltaf langað til að fara til útlanda. Ég greip því tækifærið þegar ég sá auglýsingu í dagblaði um styrk til að fara til Íslands. Ég fékk styrkinn en það var svo sem ekkert afrek því ég var sá eini sem sótti um. Spánverjar voru ekki mikið fyrir að ferðast á þessum tíma. Ég ætlaði bara að vera í eitt ár og læra tungumálið en ég var á Íslandi í tíu ár, 1952 til 1962, fyrst sem styrkþegi og svo sem lektor við Háskóla Íslands.

Það var svo einnig tilviljun að ég gerðist þýðandi. Þegar Halldór Laxness fékk Nóbelinn kröfðust Spánverjar að ég þýddi fyrir þá eitthvað eftir hann. Ég virðist hafa verið sá eini sem þeir fundu í verkið. Þetta var í raun dásamlegt óhapp, dásamlegt vegna þess að ég hefði annars aldrei lagt fyrir mig þýðingar en óhapp vegna þess að ég var engan veginn tilbúinn til þess að taka að mér þýðingastörf. Það var misráðið að láta hafa sig út í þetta svona ungan og óreyndan. Ekki vegna þess að mig skorti íslenskukunnáttu heldur vegna þess að mig skorti spænskukunnáttu. Tök mín á móðurmálinu voru ekki nógu góð, málþroskinn ekki orðinn nægilega mikill til þess að fara að vinna með skáldskap. Það verður enginn þýðandi nema hafa góð tök á móðurmálinu. Þetta var mikið áfall fyrir mig. Þýðingin var ekki góð, í mesta lagi sæmileg. Mér líkaði hún ekki og ég held að mönnum hafi almennt ekki þótt hún neitt sérstök. Ég hafði engar forsendur til þess að þýða, ég lét hafa mig út í þetta án þess að hafa getuna til þess. Ég ákvað því að snerta ekki meira á þýðingum. Það var svo ekki fyrr en 23 árum seinna að mig langaði til að reyna aftur. Þá var ég fluttur aftur til Spánar eftir að hafa búið í Svíþjóð og Finnlandi í sextán ár. En þrátt fyrir að það væri langt um liðið frá Íslandsdvöl minni og ég hefði talað sænsku miklu meira þá kom ekkert annað til greina en að þýða úr íslensku, hún virtist hafa skotið dýpri rótum í mér. Eftir nokkra yfirlegu tókst mér að snara Sagnakveri Skúla Gíslasonar og tíu Íslendingaþáttum sem komu út á galisísku. Ég hef haldið áfram að þýða íslenskar bókmenntir nú síðustu ár en ég hef aldrei þýtt neitt úr öðrum tungumálum, ekki einu sinni sænsku."

Það er betra að bíða eilítið

Romero kennir námskeið í þýðingum við Háskólann í Vigo og segist þar hafa reynt að miðla af biturri reynslu sinni sem ungur þýðandi. "Við þessa nemendur segi ég alltaf að þeir verði að gefa sér tíma, þeir verða að bíða með að gefa út þýðingu þangað til að þeir eru tilbúnir. Þýðandi sem hefur ekki náð nægilega góðum tökum á móðurmáli sínu gerir hvorki sjálfum sér né höfundinum sem hann þýðir greiða með því að birta eftir sig þýðingu. Það er betra að bíða eilítið. Ein vond þýðing getur gefið ranga mynd af höfundinum og þýðandanum."

Romero segist ennfremur segja nemendum sínum frá kynnum sínum af Helga Hálfdanarsyni, þýðanda, en hann segist eitt sinn hafa aðstoðað hann við að þýða spænsk þjóðkvæði sem birt voru í tímaritinu Helgafelli . "Ég dáðist mjög að því hversu fljótur Helgi var að þýða. Hann skildi ekki orð í spænsku og bað mig um að þýða vísurnar orð fyrir orð. Síðan bað hann mig að lesa þær fyrir sig á spænsku. Þegar hann hafði heyrt þær tvisvar sinnum greip hann lok af skókassa, sem var sá pappír sem var hendi næst, og hripaði þýðinguna niður. Og hún var frábær. Bæði efnið og hrynjandin komust til skila á undraverðan hátt. Þetta þótti mér alveg stórkostlegt. Þetta geta ekki margir og það segi ég nemendum mínum."

Ég er gamall hundur og flýti mér hægt

Eins og áður sagði hefur Romero nýlokið að þýða tvær Íslendinga sögur. Hann segist halda að Grænlendingasaga, Eiríkssaga og Kormákssaga hafi verið þýddar áður á spænsku. "Annars er áhugi á íslenskum og skandinavískum bókmenntum ekki jafnmikill hér á Spáni og í Frakklandi og á Ítalíu þar sem hann hefur verið að aukast á undanförnum árum. Ég hef þó í hyggju að halda áfram að þýða eitthvað. En ég er gamall hundur og flýti mér hægt, ég þýði þegar ég er í skapi til þess og get ekki þýtt eftir pöntun. Ég vil samt helst ekki velja verkin sem ég þýði sjálfur. Ég er ekki sérfræðingur á sviði bókmennta og vil þess vegna helst að menn sem vit hafa á velji fyrir mig það sem ég á að þýða."

Sem stendur segist Romero þó helst hafa áhuga á að þýða ljóð íslenskra kvenskálda. "Það eru svo ágætar skáldkonur á Íslandi og það væri gaman að gefa út þýðingar á nokkrum þeirra hér. Ég hefði áhuga á samstarfi við einhvern íslenskan bókmenntamann eða forlag um útgáfu á ljóðasafni íslenskra kvenskálda hér á Spáni. Skilaðu því til Íslands með kveðju."

Morgunblaðið/Þröstur José Antonio Fernández Romero