MEIRIHLUTI skólanefndar Akureyrar samþykkti á fundi sínum nýlega forgangsreglur í leikskóla bæjarins. Jafnframt var ákveðið að taka reglurnar til endurskoðunar um leið og nýr leikskóli tekur til starfa við Gránufélagsgötu.
Forgangsreglur í leikskóla samþykktar

MEIRIHLUTI skólanefndar Akureyrar samþykkti á fundi sínum nýlega forgangsreglur í leikskóla bæjarins. Jafnframt var ákveðið að taka reglurnar til endurskoðunar um leið og nýr leikskóli tekur til starfa við Gránufélagsgötu.

Forgangsreglur skólanefndar voru í 6 liðum en við afgreiðslu bæjarstjórnar á fundargerð nefndarinnar var sjötti liðurinn felldur út, auk þess sem gerðar voru athugasemdir við þann lið á fundi skólanefndar. Í 6. lið var gert ráð fyrir að börn sem fengið hafa inni í leikskólum í öðrum sveitarfélögum hafi forgang við flutning til bæjarins.

Jón Ingi Cæsarsson skólanefndarmaður lýsti sig andsnúinn forgangi fyrir fólk á leið í bæinn, á kostnað þeirra íbúa sem fyrir eru og tilheyra ekki forgangshópum. Marsibil Fjóla Snæbjarnardóttir sem einnig situr í skólanefnd taldi ekki ástæðu til að hafa 6. lið inni á meðan enn er bið eftir plássum fyrir börn bæjarbúa.

Í forgangsreglunum hafa fötluð börn forgang á forgang. Aðrir sem hafa forgang eru börn einstæðra foreldra, börn námsmanna í fullu dagnámi sem varir í tvö ár eða lengur, börn sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður og börn í tveimur elstu leikskólaárgöngunum.

Forgangsmál vandmeðfarin

Nokkrar umræður urðu um þessa samþykkt skólanefndar á fundi bæjarstjórnar í vikunni en almennt voru þeir bæjarfulltrúar sem til máls tóku sammála um að fella út 6. liðinn. Jafnframt kom fram að þessi forgangsmál séu mjög vandmeðfarin. Oddur Helgi Halldórsson, bæjarfulltrúi L-lista, sagðist á fundi bæjarstjórnar heldur ekki skila af hverju börn námsmanna ættu frekar að hafa forgang á leikskóla bæjarins en börn t.d. hins almenna launamanns.

Á nýlegum biðlista eftir leikskólaplássi sem kynntur var í skólanefnd, kemur fram að á virkum biðlista eru nú 84 börn, þ.e. börn tveggja ára og eldri. Þetta þýðir að verið að veita um 90% þeirra barna þjónustu á leikskóla sem eftir því hafa leitað. Þegar leikskólinn við Móasíðu tekur til starfa verða um 50 börn á virkum biðlista og er þjónustan þá komin í 94%.