Persónuleikaröskun Spurning: Í niðurstöðum geðrannsókna, sem gerðar eru af ýmsu tilefni, m.a. fyrir dómstóla, kemur stundum fram að viðkomandi einstaklingur sé haldinn persónuleikaröskun. Ef slík röskun er nánar skilgreind sem "borderline" þykir það bera vott um alvarlegt geðrænt ástand, sem svari illa meðferð.
Hvað er "borderline" persónuleikaröskun?

GYLFI ÁSMUNDSSON SÁLFRÆÐINGUR SVARAR SPURNINGUM LESENDA

Persónuleikaröskun

Spurning: Í niðurstöðum geðrannsókna, sem gerðar eru af ýmsu tilefni, m.a. fyrir dómstóla, kemur stundum fram að viðkomandi einstaklingur sé haldinn persónuleikaröskun. Ef slík röskun er nánar skilgreind sem "borderline" þykir það bera vott um alvarlegt geðrænt ástand, sem svari illa meðferð. Í hverju felst "borderline" persónuleikaröskun aðallega?

Svar: Í þessum pistlum hefur nokkrum sinnum verið reynt að svara spurningum um persónuleikaröskun, bæði almennt og af sérstöku tagi. Aldrei hefur þó sérstaklega verið fjallað um svokallaða "borderline" röskun. Eins og nafnið bendir til er þetta sjúkdómsástand á einhvers konar jaðarsvæði í geðsjúkdómakerfinu og þá helst á milli geðveiki (psyklosis) og hugsýki (neurosis). Íslensk heiti á þessu sjúkdómsheilkenni, t.d. hambrigðapersónuleikaröskun og jaðarheilkenni, hafa enn ekki náð fótfestu í málinu.

Megineinkenni persónuleikaraskana, sem skilur þær frá öðrum geðsjúkdómum, er að einkenni þeirra koma niður á umhverfi sjúklingsins, öðru fólki, fremur en honum sjálfum. Hann lagar sig illa að siðum og reglum, hefur laka stjórn á hvötum sínum og löngunum og á erfitt með að tengjast öðrum nánum tilfinningaböndum.

Alþjóðleg flokkun geðsjúkdóma hefur breyst talsvert á undanförnum áratugum. Ekki á þetta síst við um persónuleikaraskanir. Fyrir fáum áratugum var þeim skipt annars vegar í psykopatia, sem á íslensku var nefnd geðvilla, og hins vegar í skapgerðartruflanir af ýmsu tagi, sem voru vægari gerð og skyldari hugsýkinni. Geðvilla var gjarnan talin meðfædd, en skapgerðartruflanir orðnar til fyrir áhrif umhverfis og uppeldis. Í geðvillu fólst oftast andfélagsleg hegðun, siðblinda og samviskuleysi. Orðið psykopat var iðulega notað sem skammaryrði. Nú er það ekki notað lengur, en andfélagslegur persónuleiki er sérstakur arftaki þess.

Í nýjustu útgáfu af bandaríska sjúkdómaflokkunarkerfinu DSM-IV, sem er hvað mest notað sem viðmiðun um þessar mundir, eru skilgreindar 11 tegundir persónuleikatruflana. Mörgum þykir að reynt sé að greina á milli of margra tegunda, enda skarast þessar gerðir, þar sem sami einstaklingurinn hefur oft einkenni margra tegunda. "Borderline" persónuleikaröskun er tiltölulega nýr flokkur meðal persónuleikaraskana og hefur verið að mótast á undanförnum 20 árum, en er í dag með algengustu tegundum truflana af þessu tagi. Sumir telja þessa greiningu jafnvel ofnotaða, en einkenni hennar eru mjög blönduð. Samkvæmt DSM-IV eru megin einkenni þessarar persónuleikaröskunar óstöðugleiki í mannlegum samskiptum, óljós sjálfsmynd, stjórnlitlar tilfinningar og hvatvísi. Sjálfseyðileggjandi hegðun er algeng, svo sem stjórnlaus eyðsla, óhóflegt kynlíf, ofneysla áfengis og lyfja og ofát. Sjálfsvígstilraunir eða hótanir um slíkt eru algengar og einnig eiga sjúklingar með þessa greiningu til að skaða sjálfa sig líkamlega. Tilfinningasveiflur eru miklar, allt frá miklu þunglyndi og kvíða, sem á það síðan til að hverfa að skömmum tíma liðnum, en viðvarandi er tómleikakennd. Þessir sjúklingar eiga oft erfitt með að hafa stjórn á reiðitilfinningu, kenna öðrum um og finnst fólk vera á móti sér.

Þetta eru margvísleg einkenni sem koma fyrir í öðrum tegundum persónuleikaraskana og reyndar öðrum geðsjúkdómum. Eitt öruggasta skilmerkið sem liggur að baki hinum ýmsu einkennum, er líklega hin óvissa sjálfsmynd einstaklingsins. Hann á erfitt með að afmarka sig, landamæri hans gagnvart öðru fólki eru óviss. Sjálf (ego) hans er veikt. Hann hefur því oft tilhneigingu til að verða háður öðrum, þarfnast annarra og leitar eftir nánd, sem hann á þó erfitt með að nýta sér. Þótt persónueinkenni sjúklingsins komi niður á öðrum, er óhætt að segja, að hann er yfirleitt sjálfum sér verstur.

Þeim, sem vilja kynna sér "borderline" persónuleikaröskun nánar, er bent á ágæta og ítarlega umfjöllun Magnúsar Skúlasonar geðlæknis í afmælisriti Davíðs Davíðssonar prófessors, Bók Davíðs (Rv. 1996), bls. 395-434.

Lesendur Morgunblaðsins geta spurt sálfræðinginn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 5691100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok, Fax: 5691222. Ennfremur símbréf merkt: Gylfi Ásmundsson, fax: 5601720.