YFIR 100 manns, flestir íbúar við Eskihlíð, hafa mótmælt áformum um að reisa 5­6 hæða skrifstofuhús á byggingarlóð við Skógarhlíð 12. Rífa á gamalt, niðurnítt og yfirgefið hús, Hjarðarholt, sem stendur á lóðinni, en hún er í eigu Ísarns hf. Upphaflega samþykktu borgaryfirvöld byggingu á lóðinni 1994 en þá var ekki ráðist í framkvæmdir.
Yfir 100 íbúar mótmæla byggingaráformum við Skógarhlíð

Hlíðar

YFIR 100 manns, flestir íbúar við Eskihlíð, hafa mótmælt áformum um að reisa 5­6 hæða skrifstofuhús á byggingarlóð við Skógarhlíð 12.

Rífa á gamalt, niðurnítt og yfirgefið hús, Hjarðarholt, sem stendur á lóðinni, en hún er í eigu Ísarns hf. Upphaflega samþykktu borgaryfirvöld byggingu á lóðinni 1994 en þá var ekki ráðist í framkvæmdir. Áform fóru að nýju í gang á þessu ári og þegar deiliskipulagstillaga sem byggist á notkun lóðarinnar samkvæmt aðalskipulagi var lögð fram og auglýst bárust 29 athugasemdabréf frá yfir 100 einstaklingum, sem flestir eru búsettir í Eskihlíð.

Mótmæli íbúanna eiga það sammerkt að annars vegar er kvartað undan því að húsið, sem er hærra en önnur hús sem standa neðar í brekkunni við Skógarhlíð, muni spilla útsýni úr blokkunum við Eskihlíð og einnig hafa íbúarnir áhyggjur af umferð sem fylgja muni starfseminni, en við húsið er gert ráð fyrir 163 bílastæðum.

Dregur úr birtu og gildi eigna

"Þetta mun valda okkur íbúunum miklu umferðarónæði og loftmengun, auk þess sem byggingin mun rísa beint fyrir framan stofugluggana okkar og draga úr birtu íbúðanna og spilla fyrir útsýni. Við teljum að þetta muni draga stórlega úr gildi eigna okkar," segir í undirskriftarlista íbúa í fjölbýlishúsinu Eskihlíð 14 og 14a. "Fjölbýlishús okkar stendur við Eskihlíð en það liggur ljóst fyrir að húsið stendur einnig við Skógarhlíð. Umrætt athafnasvæði með öllu sem því tilheyrir er einfaldlega alltof nálægt húsinu okkar," segir ennfremur.

Einnig hafa borist mótmæli frá íþróttafélaginu Val. Þar segir að fyrirhuguð bygging sé á svæði sem fjölmargir gangandi vegfarendur, börn sem fullorðnir, fara um í hverri viku á leið á íþróttasvæði Vals og í útivistarsvæðin í Öskjuhlíð og Nauthólsvík. Öryggi þessara vegfarenda sé að áliti Vals ekki tryggt nægjanlega eins og aðstæðum er háttað í dag. "Ný stórbygging á þessu svæði sem væntanlega hefur í för með sér mikla umferð ökutækja af ýmsum stærðum og gerðum kemur til með að draga enn úr öryggi gangandi vegfarenda á svæðinu. Það er forráðamönnum Vals mikið áhyggjuefni og einnig fjölmörgum foreldrum barna í hverfinu sem haft hafa samband við okkur og lýst áhyggjum sínum vegna málsins," segir í bréfi Vals, þar sem hvatt er til að hugað verði að bættum hag gangandi vegfarenda með undirgöngum og eða gangbrautum og gangbrautarljósum.

Slökkvilið Reykjavíkur hefur einnig sent inn andmæli vegna áhrifa byggingarinnar á aðkomu og akstursleiðir frá slökkvistöðinni. "Gatnamót Flugvallarvegar og Bústaðavegar eru þegar orðin erfið fyrir akstur með forgangi vegna mikillar umferðar. Með tilkomu svo stórs húss á lóðinni númer 12 við Skógarhlíð eins og kynnt er verður að gera ráð fyrir verulegri aukningu umferðar um Flugvallarveg. Það getur valdið verulegum töfum, en einnig aukinni hættu vegna neyðaraksturs Slökkviliðs Reykjavíkur," segir í bréfi Hrólfs Jónssonar slökkviliðsstjóra sem óskar eftir að viðunandi lausn fáist áður en húsið rís.

Í sama streng er tekið í athugasemdum frá læknum neyðarbílsins þar sem lýst er áhyggjum af áhrifum byggingarinnar á umferð um akstursleiðir frá slökkvistöðinni.

Fundur með íbúum

Margrét Þormar hjá borgarskipulagi Reykjavíkur sagði í samtali við Morgunblaðið að þessi nýting lóðarinnar væri í samræmi við aðalskipulag þar sem gert væri ráð fyrir lóðinni sem athafnasvæði. Þá væri nýtingarhlutfall lóðarinnar, 0,75, við lægri mörk nýtingar á athafnasvæði miðsvæðis í borginni samkvæmt aðalskipulagi. Margrét sagði að nokkurs misskilnings hefði gætt um það að umrætt hús yrði verslunarhús en svo væri ekki heldur yrðu þar skrifstofur og þjónustufyrirtæki. Hún sagði að upphaflega hefði byggingin verið samþykkt 1994 og þessi nýting sem nú stæði fyrir dyrum væri svipuð þeirri sem þá var afgreidd. Þá sagði hún að þegar hefði verið ákveðið að ráðast í úrbætur á stýringu umferðarljósa á gatnamótum Flugvallarvegar og Bústaðarvegar með hagsmuni slökkviliðsins og annarrar umferðar í huga.

Borgarskipulagið hélt fund á fimmtudag með íbúum, sem sendu inn mótmælabréf og mættu um 20 manns til fundarins. Margrét Þormar sagði að ekki hefði orðið sérstök niðurstaða af fundinum en þar hefðu íbúum verið kynntar ákveðnar úrbætur á húsinu. Hún sagði að fólkinu hefði ekki fundist nóg að gert og þeir væru ekki sáttir við húsið þótt tillögurnar væru til úrbóta en þær felast m.a. í því að hluti hússins verði lækkaður.

Vandræðagangur

Gylfi Guðjónsson, arkitekt hússins, sagði í samtali við Morgunblaðið að lóðin á Skógarhlíð 12 væri byggingarlóð samkvæmt aðalskipulagi. Borgin hefði ítrekað þrýst á lóðarhafa að hefjast handa um framkvæmdir frá því bygging var upphaflega samþykkt á lóðinni 1994. Á þeim tíma hefðu menn sæst á ákveðið byggingarmagn og húsahæðir en nú væri rætt um ívið minna byggingarmagn en þá. Allt málið væri í samræmi við gildandi aðalskipulag og innan marka þeirra samþykkta sem gerðar voru 1994. "Við fórum að stað með undirbúningsvinnu í góðri trú og þetta virkar á mig eins og hálfgerður vandræðagangur," sagði hann.

Gylfi sagði að hönnun hússins væri á frumstigi en reynt hefði verið að koma til móts við mótmæli íbúa við Eskihlíð með því að lækka húsið um eina hæð næst Eskihlíðinni. Um bílastæðamál hússins sagði hann að ákvörðun um 163 bílastæði væri til komin vegna þess að skipulagslög hefðu hert á kröfum um bílastæði við nýbyggingar; nú þurfi 1 stæði að vera fyrir hverja 35 fermetra í byggingunni. Hann sagði að samkvæmt umsögn umferðardeildar borgarverkfræðings væri lítið gert úr áhrifum hússins á umferð á svæðinu en fyrir sé talsverð umferð til sýslumanns og Krabbameinsfélagsins, neðar við Skógarhlíð. "En ég hef fulla samúð með fólkinu í blokkunum næst húsinu því þetta verður breyting á aðstæðum þess. En þá hefði það þurft að mótmæla aðalskipulaginu. Þarna er verið að byggja á grundvelli gildandi aðalskipulags," sagði Gylfi.