KOSTNAÐUR við landbúnaðarráðuneytið og verkefni þess verður 8,9 milljarðar á næsta ári og breytist lítið frá yfirstandandi ári. Mest fer í málaflokkinn greiðslur vegna búvöruframleiðslu eða 5,8 milljarðar, rúmir 1,4 milljarðar eru framlög og sjóðir í þágu landbúnaðar og rúmar 800 milljónir fara til landbúnaðarstofnana.
Rúmir 5,8 milljarðar í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu

KOSTNAÐUR við landbúnaðarráðuneytið og verkefni þess verður 8,9 milljarðar á næsta ári og breytist lítið frá yfirstandandi ári. Mest fer í málaflokkinn greiðslur vegna búvöruframleiðslu eða 5,8 milljarðar, rúmir 1,4 milljarðar eru framlög og sjóðir í þágu landbúnaðar og rúmar 800 milljónir fara til landbúnaðarstofnana.

Þeir 5,8 milljarðar króna sem fara í greiðslur vegna búvöruframleiðslu skiptast þannig að tæpir 3,6 milljarðar eru vegna mjólkurframleiðslu. Hækka beinar greiðslur til bænda um 250 milljónir króna vegna hækkunar á grundvallarverði mjólkur og vegna hærra greiðslumarks sem nemur milljón lítrum. Niðurgreiðsla ríkisins á hvern mjólkurlítra nemur nú 30,09 krónum.

Þá fara rúmir 2,2 milljarðar til greiðslu vegna sauðfjárframleiðslu. Beingreiðslur til bænda eru miðaðar við 396.360 ærgildi og kosta þær 1.598 milljónir króna en ónýttar beingreiðslur renna til markaðsaðgerða. Fyrir utan þetta fer 81 milljón til Lífeyrissjóðs bænda, 227 milljónir fara til að greiða niður ull og gærur, 243 milljónir í vaxta- og geymslukostnað og 44 til hagræðingar og vöruþróunar. Þá fara 22 milljónir til umhverfisverkefna. Samningur um sauðfjárframleiðsluna rennur út á næsta ári.

Um 15 milljóna hækkun á rekstri aðalskrifstofu

Rekstur aðalskrifstofu ráðuneytisins kostar 118 milljónir króna og hækkar um tæpar 15 milljónir. Almennur rekstur skrifstofunnar hækkar um 6,2 milljónir, framlag til skrifstofunnar hækkar um 2,5 milljónir vegna launa og rekstrargjalda bíls sem umhverfisráðuneytið greiddi áður að hálfu og 5 milljónir bætast við vegna sérfræðings á sviði garðyrkju. Þá hækkar kostnaður ráðuneytisins um 1,2 milljónir vegna skólagjalda fyrir börn fulltrúa ráðuneytisins í Brussel.

Af einstökum liðum í framlögum og sjóðum í þágu landbúnaðar má m.a. nefna framlag til Bændasamtaka Íslands sem verður rúmlega 260 milljónir króna, til framleiðnisjóðs fara 170 milljónir, 150 í Lánasjóð landbúnaðarins og 187 milljónir í Búnaðarsjóð. Þá fara 340 milljónir í Fóðursjóð en hann fær tekjur af andvirði tolla af innfluttu fóðri og hráefnum sem nema sömu upphæð.