VIÐSKIPTI Íslands og Kína hafa ekki þróast eins hratt og búist hefur verið við á undanförnum árum. Viðskiptajöfnuður hefur ætíð verið neikvæður á milli landanna, Íslandi í óhag, og hafa viðskipti Kínverja heldur dregist saman að undanförnu. Þá hefur lítið ræst úr yfirlýsingum ráðamanna beggja landa um aukin samskipti, t.d. uppsetningu álvers í Kína.
Skýrsla um samskipti Íslands og Kína

Viðskiptin við Kína

hafa dregist saman

VIÐSKIPTI Íslands og Kína hafa ekki þróast eins hratt og búist hefur verið við á undanförnum árum. Viðskiptajöfnuður hefur ætíð verið neikvæður á milli landanna, Íslandi í óhag, og hafa viðskipti Kínverja heldur dregist saman að undanförnu. Þá hefur lítið ræst úr yfirlýsingum ráðamanna beggja landa um aukin samskipti, t.d. uppsetningu álvers í Kína.

Ofangreint kemur fram í skýrslu sem Íslensk-kínverska viðskiptaráðið lét vinna og kynnti á blaðamannafundi í gær. Skýrslan, sem ber heitið "Kína í íslenskum veruleika", fjallar um viðskipti Íslands og Kína undanfarna áratugi. Hún er unnin af Stefáni Úlfarssyni, með aðstoð og ráðgjöf Steingríms Þorbjarnarsonar, varaformanns viðskiptaráðsins. Hún var gerð með stuðningi utanríkisráðuneytisins, var í vinnslu í 2 ár og er tæplega 200 síður.

Ítarleg og áhugaverð skýrsla

Skýrslan er í þremur hlutum sem lúta að samskiptum landanna, kínversku starfsumhverfi og niðurstöður. Farið er ítarlega yfir reynslu fyrirtækja sem reynt hafa fyrir sér á kínverskum markaði. Þá er að finna í skýrslunni viðhorfskönnun þar sem leitað er eftir mati stjórnenda íslenskra fyrirtækja á því hvernig hafi tekist til með viðskipti landanna, hvar helstu vandamál liggi og hvernig samskiptum landanna skuli háttað.

Ýmsar athyglisverðar upplýsingar er að finna í skýrslunni, ekki síst í úttekt sem gerð er í öðrum hluta hennar á kínversku starfsumhverfi; á því hvernig saga, arfleifð og stjórnkerfi fléttast inn í hagkerfið og viðskiptaumhverfið. Þriðji hluti skýrslunnar kallast "Vegvísir fyrir Bingdáta" en orðið Bingdao er kínverska heitið á Íslandi. Þar eru möguleikar á viðskiptum skoðaðir í ljósi ólíkra framleiðsluáherslna.

Að sögn formanns viðskiptaráðsins, Sigtryggs R. Eyþórssonar, var ráðist í skýrslugerðina til að skrá samskipti landanna og rannsaka helstu þætti sem hafa áhrif á þau, með það fyrir augum að liðka til fyrir þeim. Tímabært sé orðið að samskiptin séu aukin og menn vilji ekki síst sjá frumkvæði frá kínverskum stjórnvöldum. "Okkur finnst kominn tími til að Kínverjar fari að beina viðskiptum sínum meira hingað en þeir hafa gert."

Ástæða til bjartsýni

Sigtryggur telur að hugsanlega verði að leita annarra leiða en gert hefur verið. T.d. fara kannski meira inn á markaðinn með kynningu á íslenskum vörum á veitingahúsum. Þótt viðskiptin hafi gengið upp og ofan, eins og skýrslan leiðir í ljós, telur Sigtryggur fulla ástæðu til bjartsýni. "Ég sé fram á að viðskipti Íslands og Kína munu vaxa verulega mikið á næstu öld. Þarna eru miklir möguleikar og mikil uppsveifla í Kína. Við eigum áreiðanlega eftir að eiga mikil og góð samskipti á ýmsum sviðum og þá væntanlega í viðskiptum líka."

Hann segir að skýrslan sé gagnleg fyrir alla þá sem hyggi á viðskipti við kínverska aðila og er hún fáanleg gegn greiðslu hjá Íslensk- kínverska viðskiptaráðinu.

Morgunblaðið/RAX Sigtryggur R. Eyþórsson, formaður Íslensk-kínverska viðskiptaráðsins, Steingrímur Þorbjarnarson, varaformaður ráðsins og annar skýrsluhöfunda, og Stefán S. Guðjónsson, framkvæmdastjóri ráðsins.