VÍKVERJI varð fyrir talsverðu áfalli nú í vikunni eftir að hafa lesið frétt í DV þess efnis að svokallað "Íslandstorg" í Tallin, höfuðborg Eistlands, væri bara ómerkileg umferðareyja. Þjóðarstoltið var sært og sú óþægilega tilfinning gróf um sig í hjarta Víkverja að hann hefði verið hafður að fífli.
VÍKVERJI varð fyrir talsverðu áfalli nú í vikunni eftir að hafa lesið frétt í DV þess efnis að svokallað "Íslandstorg" í Tallin, höfuðborg Eistlands, væri bara ómerkileg umferðareyja. Þjóðarstoltið var sært og sú óþægilega tilfinning gróf um sig í hjarta Víkverja að hann hefði verið hafður að fífli.

Forsaga málsins er sú, að á fundi með utanríkisráðherrum Norðurlandanna á Egilsstöðum nú í sumar lýsti utanríkisráðherra Eistlands því yfir að ákveðið hefði verið að gefa torgi einu í Tallin nafnið Íslandstorg til að votta íslensku þjóðinni virðingu fyrir að hafa orðið fyrst þjóða til að viðurkenna sjálfstæði Eistlands árið 1991. Fylgdi sögunni að utanríkisráðuneyti landsins stæði við torgið. Víkverja þótti vænt um að heyra þetta og sjálfsagt hafa fleiri Íslendingar hugsað hlýlega til Eista við þessi tíðindi. En ef marka má frétt DV er ekki allt sem sýnist í þessum efnum.

Í frétt blaðsins kemur fram að þeir DV-menn hafi verið á ferð í Tallin nýverið og farið á stúfana að leita torgsins og segir blaðið svo frá: "Ekki fannst neitt Íslandstorg við utanríkisráðuneytið. Leigubílstjórar sem talað var við könnuðust ekki við neitt slíkt torg og á upplýsingamiðstöð ferðamála í borginni hafði enginn heyrt af þessu og dró starfsfólkið mjög í efa að torgið væri til. Kona sem starfar í afgreiðslu ráðuneytisins áttaði sig ekki á þessu Íslandstorgi en hringdi um bygginguna til að finna einhvern sem vissi eitthvað um málið. Loks var gefið samband við konu sem hló mikið þegar hún var spurð um torgið og sagði hún það vera beint fyrir framan húsið. Þegar út var komið varð ljóst að Íslandstorg í Tallin er umferðareyja á Ravalastræti framan við húsið og algjörlega ómerkt hinu virðulega nafni."

Ekki er ástæða til að draga í efa frásögn DV af þessu máli. Sú spurning vaknar hins vegar hvort ekki hefði farið betur á því að utanríkisráðherra Eistlands hefði sleppt því að nefna þetta í ræðu sinni á Egilsstöðum úr því að svona er í pottinn búið. Var maðurinn að narrast að okkur Íslendingum? Eða á kannski eftir að reisa þarna torg sem stendur undir nafni? Víkverji sefur ekki rólegur fyrr en þetta er komið á hreint!



XXX

EFTIR því sem nær dregur áramótum magnast deilur um aldamótaárið. Víkverji las nú í vikunni aðsent bréf í Morgunblaðinu, þar sem kerfisfræðingur svarar verkfræðingi, og eru nú deilurnar farnar að snúast um heimildir. Kerfisfræðingurinn getur þess sérstaklega að sér hafi alltaf leiðst biblíusögur í barnaskóla og gefi því lítið fyrir Biblíuna sem heimild, en svo er að skilja að verkfræðingurinn hafi einkum stuðst við hana til að rökstyðja þá skoðun sína að aldamótin séu um næstu áramót. Kerfisfræðingurinn er hins vegar harður á áramótunum 2000/2001 sem upphafi nýrrar aldar og dregur fram ýmsar heimildir máli sínu til stuðnings svo sem almanök úr ýmsum áttum, Rímfræði Þorsteins Sæmundssonar stjörnufræðings og vefslóðir. Því næst segir kerfisfræðingurinn að einföldustu rökin fyrir því að aldamótin séu um áramótin 2000/2001 sé að finna í rökvísi einfaldrar talningar þar sem byrjað er að telja á 1 (ekki núlli), tugurinn sé fylltur með tölunni 10 (ekki 9) og næsti tugur hefjist á tölunni 11 (ekki 10).

Rökvísi einfaldrar talningar er vissulega góð og gild, en þó er Víkverji ekki sannfærður um að hún eigi við í þessu tilfelli. Víkverji vill nefnilega líkja upphafi nýrrar aldar við fæðingu barns, sem er 0 ára þegar það fæðist og verður ekki eins árs fyrr en 365 dögum eftir að það fæðist. Þá fyrst verður það eins árs, þegar það hefur lifað í eitt ár. Og fjandakornið sem við höldum upp á tíu ára afmæli barnsins daginn sem það verður 11 ára. Þeir sem ekki vilja samþykkja töluna 0 sem upphafstölu hefðu gott af að draga út tommustokk og virða hann vel fyrir sér. Eigum við, samkvæmt rökvísi einfaldrar talningar, að byrja að mæla einn metra út frá tölunni 1 cm og brjóta síðan framan af tommustokknum og líma aftan við töluna 100 cm til að fá út metrann? Hvers konar hundalógík er þetta eiginlega, Víkverji bara spyr?