TIL að bæta aðstöðu til rannsókna á konum vegna þvaglekavandamála hefur St. Jósefsspítala í Hafnarfirði verið færður vandaður rannsóknarbúnaður að andvirði rúmlega tvær milljónir króna.
Konur gefa rannsóknarbúnað

TIL að bæta aðstöðu til rannsókna á konum vegna þvaglekavandamála hefur St. Jósefsspítala í Hafnarfirði verið færður vandaður rannsóknarbúnaður að andvirði rúmlega tvær milljónir króna. Gefendur eru konur í Kvenfélagasambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu, en það er samband kvenfélaga í sýslunni; frá Garðabæ, Bessastaðahreppi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Keflavík, Njarðvík, Vogum, Grindavík, Sandgerði, Garði og Kjósarhreppi. Innan sambandsins, sem kallast jafnan KSGK, starfa 1.100 konur, formaður er Guðbjörg Vilhjálmsson.

Í fréttatilkynningu segir: "Þvagleki er mjög algengt vandamál sem háir mörgum konum og hefur verið sagt að fjórða hvert dömubindi sem notað er sé til að hindra afleiðingar þvaglega. Orsakir fæðingar og geta, ýmist strax eða síðar á ævinni, leitt til að konur missi að einhverju eða öllu leyti stjórn á þvaglátum sínum. Þvaglekavandamálið er flokkað niður eftir orsökum í áreynsluleka, bráðaþvagleka og blöndu af hvoru tveggja, en mismunandi meðferð er beitt við meðferð. Ef um áreynsluþvagleka er að ræða þarf skurðaðgerð, en við bráðaþvagleka felst meðferð í lyfjagjöf og annarri meðferð. Mjög mikilvægt er að rannsaka konur fyrir aðgerð til að hafa rétta greiningu til að tryggja rétta meðferð. Tækið sem nú hefur verið gefið spítalanum eykur öryggi greiningar og auðveldar kvensjúkdómalæknunum Gunnari Herbertssyni og Benedikt Sveinssyni störfin, en margar konur leita til þeirra vegna þvaglekavandamála."



Frá afhendingu búnaðarins. Frá vinstri: Árni Sverrisson, framkvæmdstjóri St. Jósfefsspítala, Gunnhildur Sigurðardóttir, hjúkrunarforstjóri og Gunnar Herbertsson, kvensjúkdómalæknir.