Tveir heildstæðir skólar verða í Grafarholti Grafarholt BORGARRÁÐ Reykjavíkur hefur samþykkt að stefna að því að byggðir verði tveir heildstæðir grunnskólar, þ.e. skólar með nemendur frá 1.-10. bekk, í nýja hverfinu í Grafarholti.

Tveir heildstæðir skólar verða í Grafarholti

Grafarholt

BORGARRÁÐ Reykjavíkur hefur samþykkt að stefna að því að byggðir verði tveir heildstæðir grunnskólar, þ.e. skólar með nemendur frá 1.-10. bekk, í nýja hverfinu í Grafarholti.

Borgarráð samþykkti ályktun fræðsluráðs þessa efnis nýlega en í greinargerð fræðsluráðs með samþykktinni kemur fram að áætlaður íbúafjöldi í Grafarholtshverfunum bjóði upp á heppilegar skólastærðir fyrir tvo heildstæða grunnskóla. Áætlað er að í Grafarholtshverfum búi um 4.500 manns, sem þýðir að í hvorum skóla yrðu 350-450 börn.

Flestir grunnskólar borgarinnar eru heildstæðir en í nokkrum hverfum eru safnskólar sem taka við börnum á unglingastigi úr nokkrum skólum. Dæmi um það eru Hagaskóli, Réttarholtsskóli og Laugalækjarskóli, sem eru unglingaskólar heilla hverfa og safna til sín unglingum úr öðrum skólum, Hagaskóli tekur t.d. við nemendum Vesturbæjarskóla, Grandaskóla og Melaskóla og Réttarholtsskóli við nemendum Fossvogsskóla og Breiðagerðisskóla.

Skiptar skoðanir hafa verið um hvort heppilegra sé að hafa heildstæðan grunnskóla með alla árganga eða annars vegar barnaskóla fyrir 1.-7. bekk og hins vegar unglingaskóla með 8.-10. bekk. Báðir kostirnir þykja hafa ýmislegt til síns ágætis og ákvörðun byggist á mati á valkostum.

"Mat fræðsluráðs er að heildstæður skóli hafi meira forvarnargildi, haldi betur utan um einstaklinginn. Unglingaskólar hafa hins vegar meiri möguleika á að bjóða upp á fagkennslu. Skólarnir í Grafarholti eru skipulagðir mjög nálægt hvor öðrum og gætu því boðið unglingum upp á val í námsáföngum. Þannig ættu að nást höfuðkostir tveggja skólastiga í Grafarholti," segir í greinargerð fræðsluráðs.

Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri í Reykjavík sagði í samtali við Morgunblaðið að nú væri unnið að uppbyggingu skóla í borginni samkvæmt fimm ára áætlun, sem þrjú ár eru eftir af. Nýbyggingar skóla í Grafarholti hefjist tæpast fyrr en að þeim tíma liðnum enda taki hönnun og undirbúningur bygginga að minnsta kosti tvö ár. Búast megi við að skólastarf hefjist í hverfinu í lausum skólastofum. Skólum hefur þegar verið valinn staður í skipulagi hverfisins.