ÁGÚST Einarsson, fyrrverandi alþingismaður, segir að KR, Knattspyrnufélag Reykjavíkur, hafi nýtt sér gerbreytt ástand íþróttamála og virkjað keppnisanda ungs fólks. Ágúst segir: "Íþróttir skipa stóran sess í lífi margra. Varla er til betri aðferð í uppeldi en hlúa að íþróttastarfsemi barna og unglinga.
KR-ingar skynja breytta tíma ÁGÚST Einarsson, fyrrverandi alþingismaður, segir að KR, Knattspyrnufélag Reykjavíkur, hafi nýtt sér gerbreytt ástand íþróttamála og virkjað keppnisanda ungs fólks. Ágúst segir: "Íþróttir skipa stóran sess í lífi margra. Varla er til betri aðferð í uppeldi en hlúa að íþróttastarfsemi barna og unglinga. Keppnisíþróttir hafa alltaf skipað mikilvægan sess í samfélagi mannsins og stríð hafa brotist út í kjölfar knattspyrnuleiks eins og gerðist milli Hondúras og El Salvador árið 1969. Grikkir frestuðu átökum sín á milli þegar Ólympíuleikar voru haldnir til forna." Miklar breytingar OG ÁFRAM heldur Ágúst: "Nú er keppt um sífellt hærri peningaupphæðir og allir íþróttamenn sem eitthvað geta eru atvinnumenn. Við hugsum til Gunnars, Torfa, Arnar, Hauks, Vilhjálms, Guðmundar og Valbjarnar í hillingum. Allt gerðu þeir vel en aðstæður nú eru gerbreyttar. Fjölmiðlar hafa nýtt sér einstakt skemmtanagildi íþrótta með sífellt meiri umfjöllun. Nú fylgjast Íslendingar af miklum áhuga með kappakstri í Formúlu 1-keppninni, nokkuð sem fáir veittu athygli fyrir nokkrum árum. Einstök íþróttafélög hafa nýtt sér þessa þróun með fagmannlegum hætti og er KR þar langfremst. Þar er atvinnumennska í fyrirrúmi, ekki aðeins gagnvart leikmönnum, heldur er búin til umgjörð um leiki, stjórn og hliðarrekstur sem styrkir félagið, skilar fé og gerir KR nær óstöðvandi á knattspyrnusviðinu. Fyrir nokkrum árum spáði ég hvernig þjóðfélagið yrði um miðja næstu öld og fjallaði aðallega um hvernig sjávarútvegur liti þá út en ég hafði í frásögninni að KR hefði orðið Íslandsmeistari í knattspyrnu fimm ár í röð um aldamótin. Ég var farinn að örvænta um sannleiksgildi þessa en nú bendir margt til að þetta geti ræst, m.a. vegna þess að KR-ingar hafa skynjað breytta tíma á undan öðrum." Miklir peningar LOKS segir: "Það eru miklir peningar í íþróttum nútímans og við getum hæglega náð fótfestu á afmörkuðu sviði. Torfæruakstur er sérsvið okkar Íslendinga og sýnt er frá keppni héðan víða um heim. Slík keppni og þjónusta við bíla og útflutningur á þekkingu í þessu sambandi er örugglega arðbær atvinnugrein. Það er fleira matur en feitt ket. Gleymum samt ekki í áhuganum yfir keppnisíþróttunum að unga fólkið á skilið að fá meiri umfjöllun um sínar íþróttir. Fjölmiðlar ættu að líta meira til þessa hóps því þau eru svo sannarlega "strákarnir og stelpurnar okkar"."