JAPÖNSK stjórnvöld afléttu í gær skipun um að þúsundir íbúa næsta nágrennis kjarnorkueldsneytisverksmiðjunnar í bænum Tokaimura, þar sem alvarlegt kjarnorkuslys varð í fyrradag, skyldu halda sig innandyra vegna geislunarhættu. Að sögn sérfræðinga er lítil hætta á að slysið valdi varanlegum skaða á umhverfinu eða heilsufari fólks.
Slysið í endurvinnslustöð kjarnorkueldsneytis í Japan

Lítil hætta sögð á

varanlegum spjöllum

Tokaimura. Reuters.

JAPÖNSK stjórnvöld afléttu í gær skipun um að þúsundir íbúa næsta nágrennis kjarnorkueldsneytisverksmiðjunnar í bænum Tokaimura, þar sem alvarlegt kjarnorkuslys varð í fyrradag, skyldu halda sig innandyra vegna geislunarhættu. Að sögn sérfræðinga er lítil hætta á að slysið valdi varanlegum skaða á umhverfinu eða heilsufari fólks.

Rannsókn var hafin á þeim mistökum sem starfsmönnum verksmiðjunnar varð á, sem olli þessu mesta kjarnorkuslysi í sögu Japans. Hiromu Nonaka, talsmaður japönsku ríkisstjórnarinnar, sagði á blaðamannfundi að íbúum húsa innan 10 km radíuss út frá verinu væri nú aftur heimilt að vera utandyra. Þetta gilti þó ekki fyrir það fólk sem bjó innan 350 m radíuss frá verksmiðjunni, en það hafði flest verið flutt burt úr húsum sínum morguninn sem slysið varð.

Japanska ríkissjónvarpið NHK greindi frá því að skólar og barnaheimili, sem voru lokaðir í gær vegna slyssins, yrðu opnir að vanda í dag, laugardag. Íbúar Tokaimura, sem eru um 34.000, tóku fagnandi fréttinni um að þeim ætti að vera óhætt, en bærinn, sem hýsir 15 kjarnorkuiðnaðarver, var sem draugabær þann tíma sem útgöngubannið var í gildi. Aðeins lögregla í hvítum geislunarvarnabúningum sáust á götunum.

55 manns urðu fyrir geislun af völdum slyssins svo vitað sé, flestir starfsmenn í endurvinnslustöðinni en þrír þeirra eru slökkviliðsmenn sem þustu á slysstað. Tveir starfsmenn sem næst voru slysinu er það átti sér stað urðu fyrir lífshættulega mikilli geislun og eru undir gjörgæzlu. Ástand þeirra var enn alvarlegt í gær, þrátt fyrir að það hefði batnað lítillega. Sérfræðingar sögðu mögulegt að þeir ættu ekki eftir að þrauka.

Alvarlegasta slysið í sögu japansks kjarnorkuiðnaðar

Talsmenn stjórnvalda greindu frá því í gær að slysið hefði verið skilgreint af fjórðu gráðu að alvarleika, sem gerir það þar með að alvarlegasta kjarnorkuslysinu frá því Japanir hófu nýtingu kjarnorkunnar fyrir um 40 árum. Alvarlegasta óhappið fram að þessu, sem varð árið 1997, var flokkað sem þriðja stigs slys. Talsmenn kjarnorkumálastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Vín sögðu í gær mögulegt að þegar slysið hefði verið rannsakað til hlítar yrði alvarleikastig þess hækkað. Fjórða stigið felur í sér að geislavirk efni hafi lekið í litlu magni út fyrir kjarnorkuvinnslustöðina.

Þótt slysið í Tokaimura flokkist sem fjórða stigs hafa mörg hinna u.þ.b. 60 kjarnorkuslysa sem orðið hafa á öldinni svo vitað sé verið mun alvarlegri. Slysið í kjarnorkuverinu á Þriggja mílna eyju í Bandaríkjunum árið 1979 var fimmta stigs slys, og Tsjernobyl-slysið árið 1986 var sjöunda stigs, sem er hæsta stig skalans. Slys sem varð í Khystym í Rússlandi árið 1957 var sjötta stigs og slysið í Windscale-verinu í Bretlandi árið 1973 var fimmta stigs.

Talsmenn stjórnvalda í Japan kepptust í gær um að fullvissa fólk um að því væri óhætt. Sérfræðingur í kjarnorkuöryggismáladeild vísinda- og tæknimálaráðuneytisins sagði að engin frekari útbreiðsla geislavirkni hefði mælzt, sem haft gæti áhrif á fólk.

Embættismenn fullyrtu að óhætt væri að drekka kranavatn, en unz búið væri að gera frekari rannsóknir á vatnslindum næst slysstaðnum þætti ekki ráðlegt að nýta vatn úr þeim. Masahiro Saito, prófessor við Kyoto-háskóla, sagði ennfremur að umhverfisáhrif slyssins yrðu sáralítil.

Mannleg mistök

Sérfræðingar stjórnvalda, sem kannað hafa ástæður slyssins, sögðu flest benda til að starfsmaður nokkur í verinu ­ sem framleiðir eldsneyti fyrir kjarnorkurafstöðvar úr endurunnu úrani ­ hefði sett um 16 kg af úrani, nærri átta sinnum meira magn en vera átti, í ílát sem keðjuverkun hófst í, svipuð þeirri sem á sér stað í brennsluofnum kjarnorkuvers.

Sú skýring hefur verið sett fram að starfsmenn kunni að hafa verið vanir vinnu með náttúrulegt úran, en það úran sem var verið að vinna með í Tokaimura var auðgað. Samkvæmt skilgreiningu Geislavarna ríkisins á heimasíðu stofnunarinnar er náttúrulegt úran samsett úr tveimur samsætum. Það er að mestu úr úran-238 (99,3%), en einnig að litlum hluta úr úran-235 (0,7%). Hið sjaldgæfa úran-235 er mun virkara eldsneyti en hið algenga úran-238. Hlutfall úran-235 er því oft aukið í eldsneytinu og er þá sagt að úranið sé auðgað. Mun minna þarf af auðguðu úrani til að fá fram keðjuverkun en af því náttúrulega. Öllum þeim er starfa við kjarnorku ætti að vera ljóst hve miklu hættulegra úran- 235 er en hið náttúrulega úran og því er það mönnum ráðgáta hvers vegna slík mistök gátu orðið sem áttu sér stað í Tokaimura.

Rétt er að vekja athygli á því hér að í Tokaimura er ekki um kjarnorkuendurvinnslustöð eða kjarnorkuver að ræða, heldur kjarnorkueldsneytisverksmiðju. Í slíkri verksmiðju er náttúrulegt úran hreinsað og einangrað frá öðrum efnum. Þótt úran sé geislavirkt, þá stafar tiltölulega lítil geislun frá því, að minnsta kosti í samanburði við þau efni sem bindast við "brennslu" í kjarnorkuveri. Tiltölulega litlar öryggisráðstafanir þarf því að gera vegna geislunar og geislavirkra efna. Hins vegar þarf að tryggja að keðjuverkun geti alls ekki farið af stað. Það má ekki geyma eldsneyti of þétt né hafa styrk þess í vökvum of mikinn, eins og bent er á á heimasíðu Geislavarna ríkisins.

Orsök slyssins í Tokaimura virðist vera sú að alltof mikið magn af auðguðu úrani hafi verið sett í ker með saltpétursýru til vinnslu á eldsneyti (16 kg í stað 2,4 kg). Keðjuverkun hófst og geislun jókst stórlega jafnframt því sem töluverð orka losnaði. Ómögulegt var fyrir starfsmenn að ráða nokkra bót á þessu vegna þess hve geislunin var orðin mikil. Rætt hefur verið um að stöðva megi keðjuverkunina með því að:

­ Bæta við bórlausn sem fangar nifteindir og dregur þar með úr keðjuverkun.

­ Tæma kerið með úranlausninni og dreifa henni. Gera má ráð fyrir að atburðarásin hafi verið komin of langt í Tokaimura til að þetta ráð dygði, vegna hágeislavirkra úrgangsefna.

­ Fjarlægja kælivatn umhverfis kerið með úranlausninni.

Svo virðist sem síðasti kosturinn hafi verið valinn og virðist aðgerðin hafa borið árangur. Að minnsta kosti var fullyrt í fréttum í Japan að tekizt hefði að stöðva keðjuverkunina og geislavirkni hefði í gær strax minnkað verulega.

Svertir mjög horfurnar fyrir framtíð kjarnorkuiðnaðarins

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem geislunarslys verður í Tokaimura. Í kjarnorkuendurvinnslustöð, sem einnig er í bænum, varð óhapp árið 1997 sem olli því að 37 starfsmenn urðu fyrir geislun.

Að sögn Reuters -fréttastofunnar er það álit fréttaskýrenda, að slysið á fimmtudag myndi að öllum líkindum efla um allan helming andstöðu almennings í Japan við kjarnorkunýtingaráætlun landsins.

"Þetta er alvarlegra slys en dæmi eru um til þessa," segir Hideyuki Ban, aðstoðarforstöðumaður Upplýsingaskrifstofu kjarnorkumála í Japan. "Ástandið [sem kjarnorkuiðnaðurinn stendur frammi fyrir] er alvarlegra en nokkru sinni fyrr."

Japan er mjög háð kjarnorku til raforkuframleiðslu; kjarnorkuver sjá landinu fyrir um 35% af heildarraforkuþörf þess.

AP Í ráðhúsi Tokaimura gengust bæjarbúar í gær undir geislunarmælingu, þar á meðal þessi níu ára stúlka.