ALLS eru um 80 vatnslitamyndir, stórar og smáar, á sýningu Kristínar Þorkelsdóttur í Sverrissal, Apótekinu og kaffistofu Hafnarborgar. Sýningin ber yfirskriftina Ljósdægur og er meginuppistaða hennar myndir af íslensku landslagi, málaðar á vettvangi. Þar eru ennfremur myndir úr norskri strandnáttúru og portrettmyndir, sem hún kallar "nokkrar ásjónur á veggjum".
LJÓSDÆGUR

KRISTÍNAR

ALLS eru um 80 vatnslitamyndir, stórar og smáar, á sýningu Kristínar Þorkelsdóttur í Sverrissal, Apótekinu og kaffistofu Hafnarborgar. Sýningin ber yfirskriftina Ljósdægur og er meginuppistaða hennar myndir af íslensku landslagi, málaðar á vettvangi. Þar eru ennfremur myndir úr norskri strandnáttúru og portrettmyndir, sem hún kallar "nokkrar ásjónur á veggjum".

Kristín málar landslagsmyndir sínar úti í náttúrunni andspænis viðfangsefninu og segir náttúruna vera sér afskaplega mikils virði. "Það skiptir manninn í nútímanum svo miklu máli að hafa aðgang að náttúrunni og að geta opnað tilfinningar sínar gagnvart sjálfum sér. Þetta eru mín ljósdægur," segir Kristín. "Þessi sama náttúra á í vök að verjast í nútímanum, eins og við vitum ósköp vel," heldur hún áfram. Hún kveðst þó ekki vera að prédika í myndum sínum, heldur fyrst og fremst að lýsa því hvers virði náttúran er henni.

Á norskri strönd

Nokkrar myndanna á sýningunni eru sem áður sagði málaðar í Noregi, nánar tiltekið á Ryvarden í sveitarfélaginu Sveio, skammt fyrir norðan Haugasund. Þaðan lagði Hrafna- Flóki upp á sínum tíma og þar er nú verið að byggja upp samband milli Noregs og Íslands á listasviðinu. Þar hefur gömlum vitavarðarbústað og húsum í kringum hann verið breytt í gallerí, veitingahús, vinnustofu og bústað fyrir listamenn og aðra gesti. Einu sinni á ári er úthlutað myndarlegum styrk til norsks eða íslensks listamanns og fylgir honum sex vikna dvöl á Ryvarden og í framhaldi af því sýning á staðnum. Kristín varð fyrsti Íslendingurinn til að fá styrkinn árið 1998 og dvaldi þar sex vikur í hálfgerðri einangrun. "Þetta er í tveggja eða þriggja kílómetra fjarlægð frá annarri byggð og ég var þar ein," segir Kristín og lætur vel af dvölinni. Í apríl síðastliðnum hélt hún svo sýningu á afrakstri dvalarinnar og þúsundir Norðmanna komu gangandi á sýninguna.

Morgunblaðið/Ásdís Snæfellsjökull III, málað á Jökulhálsi í ágúst 1999.

Ljósmynd/Hörður Daníelsson

Kristín Þorkelsdóttir á vettvangi á Jökulhálsi ­ að búa sig undir að mála myndina sem sést hér á síðunni.