STEFNA íslenskra stjórnvalda í skattamálum hlýtur í vaxandi mæli að taka mið af þeim breytingum sem orðið hafa á alþjóðavettvangi, að því er segir í fjárlagafrumvarpinu. Þar er vísað til þess að frelsi í viðskiptum hefur víða leyst af hólmi höft, boð og bönn.
Lækkun og samræming eignarskatta

STEFNA íslenskra stjórnvalda í skattamálum hlýtur í vaxandi mæli að taka mið af þeim breytingum sem orðið hafa á alþjóðavettvangi, að því er segir í fjárlagafrumvarpinu. Þar er vísað til þess að frelsi í viðskiptum hefur víða leyst af hólmi höft, boð og bönn.

Á undanförnum árum hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar á sviði skattamála einkum miðað að því að treysta samkeppnisstöðu atvinnulífsins, draga úr atvinnuleysi, tryggja afkomu tekjulágra, stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu og betri lífskjörum. Skatthlutföll hafa verið lækkuð og undanþágum frá skatti fækkað og þannig stuðlað að breiðari skattstofnum.

Í fjárlagafrumvarpinu segir að með skattlagningu fjármagnstekna hafi verið stigið mikilvægt skref í átt til samræmingar í skattkerfinu. Nú þurfi að huga að næstu skrefum sem lúti að lækkun og samræmingu eignaskatta. Sumar tegundir eigna njóti nú skattfrelsis meðan aðrar eru skattlagðar. Einnig er talin þörf á að taka til sérstakrar skoðunar samspil bótakerfis almannatrygginga, greiðslna úr lífeyrissjóðum, skattkerfis og sparnaðar í efnahagslífinu.

Þá er talið brýnt að halda áfram að draga úr neikvæðum jaðaráhrifum í skattkerfinu.