ÁÆTLAÐ er að heildargjöld málefnaflokksins Háskólar og rannsóknir hækki um rúman milljarð og verði 7.743 milljónir króna. Sé leiðrétt fyrir flutning myndlistarnáms á háskólastig er hækkunin 875 milljónir á milli ára. Til málefnaflokksins teljast m.a.
Aukin framlög til háskóla

ÁÆTLAÐ er að heildargjöld málefnaflokksins Háskólar og rannsóknir hækki um rúman milljarð og verði 7.743 milljónir króna. Sé leiðrétt fyrir flutning myndlistarnáms á háskólastig er hækkunin 875 milljónir á milli ára.

Til málefnaflokksins teljast m.a. Háskóli Íslands og tengdar stofnanir, Háskólinn á Akureyri, Tækniskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála, Samvinnuháskólinn, Viðskiptaháskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands, Rannsóknarráð Íslands og ýmsir rannsóknasjóðir.

Heildargjöld Háskóla Íslands eru áætluð 3.800 milljónir kr. og hækka um 473 milljónir frá fjárlögum þessa árs. Áætlað er að á móti rekstrargjöldum upp á 3.429 milljónir komi 923 milljóna kr. sértekjur og nema þær 26,9% rekstrargjalda. Nýr fjárlagaliður, Ritlauna- og rannsóknasjóður prófessora, kemur nú til sögunnar í kjölfar úrskurðar kjaranefndar um laun prófessora. Á þennan lið eru færðar 60 milljónir af framlagi til háskólans.

Annar nýr fjárlagaliður í þessum málefnaflokki snýr að Listaháskóla Íslands. Þar er gert ráð fyrir 169 milljóna króna rekstrarútgjöldum á fyrsta starfsári skólans og 157 milljóna króna framlagi til hans. Samkvæmt tveggja ára samningi skólans við menntamálaráðuneytið sem tók gildi 1. ágúst sl. tók skólinn við nemendum og rekstri Myndlista- og handíðaskólans (MHÍ). Framlög til MHÍ, 92 milljónir af fjárlögum 1999 og 51 milljón frá Reykjavíkurborg, færast á þennan fjárlagalið. Frá ágúst á næsta ári er gert ráð fyrir að framlög til skólans verði ákvörðuð eftir nýjum reiknireglum.

Miðað er við að skólinn annist leiklistarkennslu á háskólastigi skólaárið 2000­2001 og verður þá hætt rekstri Leiklistarskóla Íslands. Stefnt er að því að gera heildarsamning við Listaháskólann um listmenntun á háskólastigi frá og með ágúst árið 2001.

Kostnaðarflokkun náms

Nú er að ljúka vinnu við gerð reiknireglna um kostnað við kennslu í háskólum og mun menntamálaráðuneytið gefa þær út á næstunni. Námi er skipt í nokkra flokka og er reiknað út meðalverð á nemanda sem stundar fullt nám til lokaprófs í hverjum flokki. Gert er ráð fyrir að greiða nálægt 300 þúsund kr. fyrir hverjar 30 einingar sem hver innritaður nemandi í lægsta verðflokki gengur til prófa í. Í lægsta verðflokki, með verðhlutfall 1, er t.d. nám á sviði félags- og mannvísinda, guðfræði, lögfræði og annað sambærilegt. Nám í tannlækningum fær hæsta verðhlutfall eða 5,2.

Frá verði sem þannig er reiknað út dregst m.a. skrásetningargjald nemenda og fjárhæð vegna fjárbindingar í húsnæði sem þegar er búið að byggja fyrir fé ríkisins og er umfram fermetraviðmiðun í hverjum flokki.

Á næstu mánuðum áformar menntamálaráðuneytið að ljúka samningum við háskólana um þjónustu þeirra og verkefni. Ákvörðun um um fjárframlög vegna kennsluþáttarins í starfsemi þeirra verður byggð á fyrrnefndum reiknireglum en ekki framlög vegna rannsókna.