Aðalatriðið er að fötluðum sé kynnt hvaða möguleika þeir hafa, segir Jóhannes Þór Guðbjartsson, með hjálpartækjum og eftirlit haft með að það fé sem fer í kaup á tækjum nýtist sem best.
Hjálpartæki fatlaðra, afhending og notkun Hjálpartæki Aðalatriðið er að fötluðum sé kynnt hvaða möguleika þeir hafa, segir Jóhannes Þór Guðbjartsson , með hjálpartækjum og eftirlit haft með að það fé sem fer í kaup á tækjum nýtist sem best. HJÁLPARTÆKI; hvað er það? Þegar frummaðurinn missteig sig og tók upp trjábút til að styðja sig við var komið fyrsta hjálpartækið. Í tímans rás hefur maðurinn þróað hjálpartæki, sem hann notar til að bæta sér upp líkamlegan missi sem hann hefur orðið fyrir hvort sem það er: hreyfigeta, heyrn, sjón eða annað. Í þróuðum samfélögum hefur verið sett upp tryggingakerfi til að hjálpa fólki við kostnað sem af þessu hlýst. Hér á landi er það Tryggingastofnun sem fer með þau mál. Margt er þar vel gert en annað má betur fara. Langar mig til að minnast á nokkur atriði sem mæti laga með litlum tilkostnaði. Hjólastólar Nær undartekningarlaust þarf aðili sem fær hjólastól að sækja hann og þá er málið afgreitt af hálfu Tryggingastofnunar, ekkert er gert til að sýna hvernig stóllinn virkar, hvernig er hægt að taka hann sundur og fleira. Þegar einstaklingur þarf að notast við hjólastól ætti honum að bjóðast námskeið, ásamt ættingjum, um það hvernig stólinn nýtist honum sem best og hvað þarf að gera til að viðhalda stólnum sem best. Ekki skiptir máli hvort það sé rafmagnsstóll eða venjulegur, einnig ætti að fylgja bók á íslensku með helstu atriðum um notkun og símanúmerum þeirra sem þjónusta stólinn. Þessi bók ætti alltaf að vera í lokuðu vel merktu hólfi á stólnum. Einnig er nauðsyn þegar einstaklingur fær nýjan stól að þar sé sams konar bók og honum kennt að fara með hann. Mjög oft hef ég rekið mig á að fólk sem ég hef verið að ferðast með kann ekkert á stólana sína eða hvað skal gera ef eitthvað ber út af. Hækjur Þegar þú ert á sjúkrahúsi og þarft að fara heim á hækjum ertu heppin(n) ef farið er með þig einu sinni í tröppur til æfinga, síðan máttu sjá um þig sjálfur. Ekkert er minnst á alls konar hættur: blaut gólf, sand á gólfum, ýmsar varhugaverðar gólfflísar og ísingu. Hvað þá heldur hvað þú átt að gera ef þú sest í alltof mjúkan sófa? Þarna þyrfti að koma til námskeið og eftirlit með einstaklingnum því að ef hjálpartækið nýtist honum ekki þá þarf að finna heppilegra tæki, annars einangrast hann frá umheiminum og gefst upp á að hjálpa sér sjálfur. Heyrnartæki Þegar þú færð heyrnartæki þá er því stungið í eyrað á þér og sagt að til að kveikja á því snýrðu til hægri og öfugt til að slökkva á því. Ekkert er talað um bergmál og hvar megi vænta þess að tækið nýtist illa. Í Finnlandi er það skylda að fara á viku námskeið til að læra á heyrnartækið og kynnast kostum þess og göllum. Fleiri slíkar sögur væri hægt að segja um önnur hjálpartæki, þar sem fólk lendir í vandræðum vegna þess að því er ekki kennt á tækin. Niðurstaða Það er áreiðanlegt að sá kostnaður fengist til baka margfalt sem leiddi af slíkum námskeiðum, með margs konar sparnaði. Fólk þyrfti færri stóla af því það kynni á stólana sína og vissi hvernig þeir nýtast og endast best, sama mætti sjálfsagt segja um mörg önnur hjálpartæki sem fólk fær en nýtist því ekki vegna vankunnáttu. Nú veit ég að talsvert er unnið að þjálfun fatlaðra með stuðningi iðjuþjálfa, þroska- og sjúkraþjálfa en ekkert kerfi er í gangi sem athugar hvort það skilar árangri að aðilinn fái hjálpartæki við hæfi. Ef sá sem þarf að nota hjálpartækið lætur ekkert í sér heyra athugar enginn hvort það nýtist honum eða ekki og þá verður það kannski engum til gagns. Hjálpartækjaskóli Bót væri ef starfræktur væri hjálpartækjaskóli þar sem kennt væri eða fylgst með að fólki væri kennt á tækin. Hann hefði einnig eftirlit með þeim hjálpartækjum sem í notkun væru. Slíkur skóli mætti eins vera rekinn sem einkaskóli eð á vegum ríkisins. Aðalatriðið er að fötluðum sé kynnt hvaða möguleika þeir hafa með hjálpartækjum og eftirlit með að það fé sem fer í kaup á tækjum nýtist sem best. Þá er ég viss um að tækin nýttust betur og allir væru ánægðari. Höfundur er framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu. Jóhannes Þór Guðbjartsson