Hvað þarf til að þessi atvinnugrein, spyr Ingólfur Sverrisson, eflist að mun og útflutningur margfaldist?
Tónninn gefin á Sjávarútvegssýningunni Sjávarútvegsmál Hvað þarf til að þessi atvinnugrein, spyr Ingólfur Sverrisson , eflist að mun og útflutningur margfaldist? SJÁVARÚTVEGSSÝNINGIN sem haldin var á dögunum staðfesti enn einu sinni mikla gerjun í málm- og rafiðnaði á Íslandi. Þarna voru ótrúlega fjölbreyttar vörur, vélar og tæki sem þróuð hafa verið og framleidd hér á landi. Fólk trúði vart sínum eigin augum, slík var fjölbreytnin í þessum afrakstri hug- og verkvits. Sýningargestir frá fiskvinnslu og útgerð sýndu mikinn áhuga og viðskipti blómstruðu sem aldrei fyrr. Þeir vissu líka gjörla að þarna fengju þeir margt af því besta á þessu sviði enda hefur hið nána samband íslenskra iðnfyrirtækja og fyrirtækja í sjávarútvegi fætt af sér margar vörurnar, vélarnar og tækin sem nú eru í fremstu röð í heiminum. Vænlegur vaxtarbroddur Í þeirri umræðu sem nú fer fram um nýja og tæknivædda atvinnuvegi hlýtur þessi efnilegi vaxtarbroddur að vera ofarlega á blaði. Hér er um að ræða atvinnugrein sem hefur alla burði til að færa eigendum sínum arð og starfsfólki góð kjör og ágæta vinnuaðstöðu. Verðmætisaukningin frá því að hráefni er meðhöndlað og þar til úr verður vél eða tæki er meiri en flesta grunar. Það helgast af því að fléttað er saman hugviti, verkviti og tækni svo úr verða verðmæti sem markaðurinn er tilbúinn að greiða vel fyrir. Er þá kominn grunnur að bættum lífskjörum og arðvænlegum fjárfestingum. Möguleikarnir eru því miklir á þessu sviði en spurningin er: Hvað þarf til að þessi atvinnugrein eflist að mun og útflutningur margfaldist? Svarið er fjölþætt og margir sem koma þar við sögu: opinberir aðilar, fyrirtækin og starfsmenn þeirra ásamt samtökum beggja aðila. Margt af því sem gera þarf er ekki á færi einstakra fyrirtækja. Þess vegna verða hagsmunasamtökin að skilgreina með fyrirtækjunum þá þætti sem þau þurfa að vinna að og opinberir aðilar að skapa starfsumhverfi sem stenst samjöfnuð við samkeppnislöndin. Fleiri fagmenn Eins og mál standa núna er mikil þörf á vel menntuðum og þjálfuðum málmiðnaðarmönnum, ekki síst við smíðar úr ryðfríum málmum og við meðferð á tölvustýrðum tækjum. Það er dæmigert viðfangsefni samtaka beggja hagsmunaaðila á vinnumarkaðnum, ásamt með yfirvöldum menntamála, að skipuleggja slíkt nám og fylgja eftir í framkvæmd. Um þessar mundir er einmitt verið að ljúka viðamiklu starfi við endurskipulagningu iðnnáms í málmiðnaðargreinum. Rafiðnaðurinn hefur þegar tekið myndarlega á þeim málum og gerir miklar kröfur til þeirra sem ljúka sveinsprófum. En til þess að unnt sé að koma metnaðarfullum námskrám í þessum greinum til framkvæmda þurfa skólarnir að vera búnir þeim vélum og tækjum sem gerð er krafa um að nemar læri á. Það kostar að sönnu talsverða fjármuni en á móti kemur hinn mikli virðisauki afurðanna, sem kemur öllum til góða; fyrirtækjunum, starfsmönnum þeirra og þjóðfélaginu í heild. Fá þá allir ríkulega endurgoldið það sem í var lagt. Auknar námskröfur Um þessar mundir standa yfirvöld menntamála og talsmenn málmiðnaðarins frammi fyrir mikilvægum ákvörðunum sem snerta framtíðarþróun þessa vænlega vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi. Komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að höfuðnauðsyn sé að kenna sem víðast um land undirstöðunám í málmiðngreinum (fyrstu fjórar annirnar) og ennfremur að koma á fót kjarnaskóla sem býður upp á aðstöðu til verklegrar kennslu í tveimur síðustu áföngum í hverju fagi (stálsmíði, vélvirkjun, rennismíði og blikksmíði). Ofangreindir aðilar hafa skilgreint námið þessar tvær annir og fyrir liggur hvaða vélar og tæki þurfa að vera tiltæk til að unnt sé að uppfylla námskröfurnar. Hér er um að ræða mjög fullkomnar vélar og tæki sem í raun eru nú þegar í notkun í smiðjum sem fremstar standa og hinar eru að taka í notkun í auknum mæli. Á allar þessar flóknu vélar verður að kenna í iðnnáminu sjálfu, enda er það nú gert meðal okkar samkeppnisþjóða. Ef við ætlum að standast þeim snúning og nýta fyrirliggjandi tækifæri verðum við að koma á slíkri aðstöðu með öllu sem því fylgir. Leið til bættra lífskjara Núverandi menntamálaráðherra hefur fullan skilning á þessum þætti málsins og hefur tekið vel í tillögur um að vinna með hagsmunaaðilum í málmiðnaði að því að koma á fót kjarnaskóla málmiðnaðarins sem býður upp á tæki og aðstöðu sem standast ítrustu kröfur. Því aðeins ­ og einnig með því að geta ráðið færustu kennara ­ er unnt að standast alþjóðlegar kröfur í faglegum efnum. Þá yrði mikilli hindrun rutt úr vegi og við blasir á næstu árum möguleikar til verulega aukins útflutnings á verðmætum vélum og tækjum sem heimsbyggðin er tilbúin að greiða vel fyrir. Ævintýrið sem fólk varð vitni að á Sjávarútvegssýningunni verður þá aðeins forsmekkur þess sem bíður þegar sá draumur rætist að Ísland verður ekki einasta frægt fyrir góðar sjávarafurðir heldur einnig fyrir hönnun og framleiðslu eftirsóttra tæknivara. Þá er von til þess að við stöndumst þeim þjóðum snúning sem bjóða þegnum sínum bestu kjör á veraldarvísu. Höfundur er deildarstjóri hjá Samtökum iðnaðarins. Ingólfur Sverrisson