Íbúar og yfirvöld ítölsku borgarinnar Bologna vinna nú ötullega að undirbúningi menningarársins 2000. SIGURBJÖRG ÞRASTARDÓTTIR kynnti sér fjölbreyttar hugmyndir sem innan fárra mánaða taka á sig mynd í borg matar, náms og listar.
VERK:: SAFN'MENNINGARBLAD DAGS.:: 991002 \: SLÖGG:: Bologna STOFNANDI:: TDJI \: \: BOLOGNA MENNINGARBORG EVRÓPU ÁRIÐ 2000

MENNINGARHJARTAÐ

DÆLIR BLÓÐI UM BORGINA

Íbúar og yfirvöld ítölsku borgarinnar Bologna vinna nú ötullega að undirbúningi menningarársins 2000. SIGURBJÖRG ÞRASTARDÓTTIR kynnti sér fjölbreyttar hugmyndir sem innan fárra mánaða taka á sig mynd í borg matar, náms og listar.

ÍTALSKA borgin Bologna er Menningarborg Evrópu árið 2000 ásamt Reykjavík, Prag, Brussel, Helsinki, Björgvin, Kraká, Santiago de Compostela og Avignon. Þema Bologna sem menningarborg er tækni og samskipti, en í undirbúningi er fjölbreytt dagskrá sem spannar allt frá hátíðarmatseðlum veitingastaða til alþjóðlegrar listasmiðju tvö þúsund barna.

"Árið 2000 er hugsað sem óslitin menningarveisla þar sem borgarbúar og gestir gegna lykilhlutverkum," segja stöllurnar Paola Zaccheroni og Francesca Pugliesi á kynningarskrifstofu Bologna 2000 og leggja áherslu á ávinning heimamanna. "Í tengslum við Bologna 2000 hefur verið afráðið að gera þrennt til þess að efla tengsl íbúanna við menningu og sögu borgarinnar: Í fyrsta lagi er unnið að því að afhjúpa ýmis menningarverðmæti sem annaðhvort hafa verið utan seilingar almennings eða legið lengi óbætt hjá garði. Í öðru lagi eru rými sem hingað til hafa hýst menningarstarfsemi "uppfærð" til samræmis við áhuga og kröfur samtímans og í þriðja lagi er svæðum til skipulagðrar menningarstarfsemi fjölgað.

Sem dæmi um verkefni sem sameinar fyrri liðina tvo er fyrirhuguð opnun margmiðlunarbókasafns í gamalli höll við aðaltorg borgarinnar. "Þar var áður ýmis menningar- og viðskiptastarfsemi en nú er unnið að því að bylta húsnæðinu og búa til menningar- og fræðslutorg fyrir upplýsta borgara framtíðarinnar. Í kjallara hússins verða svo afhjúpaðar rómverskar rústir sem ekki hefur fyrr verið veittur aðgangur að," segir Francesca Pugliesi.

Líf og list á torginu

Hún bendir á að menningarlíf borgarinnar sé þegar mjög líflegt. "Menningarneysla í borginni er með því mesta sem gerist á landsvísu og frítími borgarbúa er hlutfallslega hæstur hér í samanburði milli ítalskra borga. Hér er að finna 43 söfn, 50 kvikmyndahús, yfir 200 bókasöfn og tólf leikhús ­ allt frá tilraunaleikhópum til klassískra leikhúsa," segir Pugliesi og kveður fjölbreytnina endurspeglast í dagskrá menningarársins.

Við aðaltorgið, Piazza Maggiore, slær hjarta borgarinnar og þar verður einnig brennipunktur hátíðarhaldanna árið 2000. "Kórinn Raddir Evrópu [undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur] mun syngja ásamt Björk á torginu, en dagskrá ársins í heild er einmitt fléttuð úr hæfileikum heimamanna og stórviðburðum á alþjóðavísu," segir Paola Zaccheroni og bendir einnig á fjölþjóðlega sumarhátíð tónlistarmanna í umsjá ítalska rapparans Jovanotti og fleiri heimamanna. Einnig er beðið með eftirvæntingu eftir framúrstefnulegri hljóð- og ljósasýningu breska leikstjórans Peter Greenway sem setja mun svip á miðborgina allan júnímánuð.

"Sú athygli sem Bologna mun vonandi fá á næsta ári verður nýtt með skipulögðum hætti til þess að auglýsa borgina sem áfangastað erlendra ferðamanna á næstu öld. Sérstöku átaki í menningarferðamennsku hefur verið hrundið af stað enda er hugmynd borgaryfirvalda, eins og áður segir, að opna borgina inn á við og út á við," segir Zaccheroni. Nánar er greint frá ferðamennskuátakinu í Ferðablaði Morgunblaðsins nk. sunnudag.

Loforð um dugandi verklag

Þegar gengið er um sögufræga miðborg Bologna er undirbúningur komandi árs hvarvetna sýnilegur. Á hverju horni er unnið að viðgerðum og breytingum gamalla bygginga, enda hafa yfirvöld opinberlega lýst því yfir að ekkert verkefni muni finnast hálfkarað þegar þriðja árþúsundið brestur á. Til ítrekunar hefur þegar verið birt dagatal þar sem merkt er inn á hvenær helstu staðir og söfn eru opnuð.

Í janúar nk. verður hin fornfræga höll Enzos konungs, sem stendur við fyrrnefnt aðaltorg, formlega vígð sem vettvangur fyrir þing, ráðstefnur og ýmis hátíðahöld. Fyrsta sýningin í höllinni mun snúast um boðskipti í sinni fjölbreyttustu mynd; flutning upplýsinga, samtöl, myndsendingar og fleira og mun sýningin "tala" ein tólf tungumál. Skömmu síðar verður Landsbókasafn kvenna opnað í gamla klaustrinu Santa Cristina, og með haustinu verður opnað sérstakt tónlistarsafn í Sanguinetti-höllinni þar sem m.a. verður haldið á lofti nafni eins frægasta tónlistarnemanda borgarinnar, Wolfgangs A. Mozarts.

Matargerðarlist er einn af litríkustu þáttunum í daglegu lífi Bologna-búa og verður mat gert hátt undir höfði allt árið 2000. Veitingastaðir munu hanna matseðla sína sérstaklega í tilefni ársins, haldin verður ráðstefna um eldhúsið sem samskiptavettvang og í október veitt sérstök verðlaun þeim sem best þykir standa sig í kynningu og varðveislu ítalskrar matargerðarhefðar. Verðlaunin nefnast á ensku "Slow Food ­ Bologna 2000" og er kannski stefnt til höfuðs skyndibitamenningunni, fast food , en gengt aðaltorginu í Bologna gefur einmitt að líta tvo hamborgarastaði af bandarískum uppruna.

"Bak við tjöldin" nefnist kvikmyndahátíð sem reyndar hófst í Bologna í sumar sem leið en verður fram haldið í júní á næsta ári. Þar er skyggnst á bak við tjöldin við undirbúning leiksýninga, tískusýninga og annarra sviðsviðburða á Ítalíu og víðar. Fjöldi heimildamynda verður sýndur en jafnframt kemst almenningur í tæri við leikstjóra, höfunda, leikara og annað fagfólk á ráðstefnum og opnum sýningum.

Dans, leiklist og iðnaður

Með haustinu verður haldin umfangsmikil danshátíð. Undir yfirskriftinni "Meistarar við árþúsundalok" verða dansarar og danshöfundar á borð við Pinu Bausch, Cörlu Fracci, Merce Cunningham og William Forsythe heiðraðir með flutningi verka þeirra eða boði um beina þátttöku. Í sérstakri danssmiðju mun svo verða þróuð listsýningin "Aterballetto" með tónlist eftir ítalska tónlistarmanninn Lucio Dalla sem í sumar var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við listadeild Háskólans í Bologna.

Af öðrum hátíðarliðum má nefna djasshátíð, fjölþjóðlega leiklistarhátíð, bílasýningu og iðnaðarsýningu með sögulegu yfirliti. Bologna verður einnig höfuðborg spennusagnanna um nokkurra mánaða skeið, en frá miðju sumri 2000 fram til mars árið 2001 munu höfundar spennu- og sakamálasagna úr ýmsum heimshornum bera saman bækur sínar í bókstaflegri merkingu á ráðstefnum og í ritsmiðjum sem bera nöfn á borð við "Tryllarannsóknir" og "Hvernig við njósnum".

Í Bologna er starfandi elsti háskóli Evrópu og er gert ráð fyrir virkri þátttöku háskólanema í dagskrá menningarborgarinnar. Börn verða jafnframt hvött til þátttöku og verður áhugamálum þeirra meðal annars mætt með opnun barnabókadeildar í nýju margmiðlunarbókasafni og listsmiðju tvö þúsund barna frá ýmsum löndum að vorlagi. Smiðjan er haldin á vegum EU.NET.ART sem er evrópskt samstarfsnet listamiðstöðva fyrir börn og ungt fólk.

Lestrarmaraþon á Netinu

Áfram mætti halda að telja upp dagskrárliði með alþjóðlegum svip og jafnframt eru ónefnd fjölmörg og umfangsmikil alítölsk verkefni. Að endingu skal þó aðeins minnst á einn lið í viðbót sem sameinar ítalskt frumkvæði og alþjóðlegan menningarbakgrunn. Rithöfundurinn Umberto Eco kynnti í sumar hugmynd sína að lestrarmaraþoni sem standa á allt næsta ár, en Eco er sérlegur ráðgjafi framkvæmdanefndar Bologna 2000 á sviði boðskipta. Maraþonið mun fara þannig fram að sjálfboðaliðar skiptast á um að lesa þýðingarmestu bókmenntaverk sögunnar fyrir framan kvikmyndatökuvél sem varpar lestrinum yfir Netið um alla heimsbyggðina. Um verður að ræða eins konar boðlestur, líkt og boðhlaup, og er hugmyndin að afhenda annari borg "keflið" í lok ársins svo halda megi maraþoninu áfram í öðrum löndum um ókomin ár.

Helstu kennileitum borgarinnar er stefnt saman í kynningarmynd verkefnisins Bologna 2000.

Ljósmynd/Luciano Leonotti Boðið verður upp á útsýnisferðir yfir Bologna í loftbelg, en hann verður jafnframt fljúgandi auglýsing um viðburði menningarársins.

Brennipunktur Bologna 2000 verður aðaltorgið, Piazza Maggiore, þar sem hjarta borgarlífsins slær. Hér sést hluti torgsins.