Ég man hvað ég gladdist og fór um þig fagnandi höndum í fyrsta sinn, afdaladrengur, ókunnur sævarins ströndum, alinn við fallsins kinn, en þú varst mér teiknið frá djúpsins dunandi söndum og dýrgripur minn.


GUÐMUNDUR BÖÐVARSSON

HÖRPUSKEL

Ég man hvað ég gladdist og fór um þig fagnandi höndum

í fyrsta sinn,

afdaladrengur, ókunnur sævarins ströndum,

alinn við fallsins kinn,

en þú varst mér teiknið frá djúpsins dunandi söndum

og dýrgripur minn.



Hvað snerti það mig þó að hríðaði meira og meira

í myrkri og snæ,

fyrst dýrðlegri hafnið fékk enginn annar að heyra

né átti sér blárri sæ

í kvöldvökulok er ég lagði þig mér við eyra

í litlum bæ?



Ó, vissuð þér nokkurn er heilsaði hvítari degi

úr húmsins gröf?

Og hvar er sá maður er stýrt hafi stoltara fleyi

um stærri og voldugri höf?

Hver hlaut slíka skyggni á úthafsins víðu vegi

í vöggugjöf?



Og Lorelei djúpsins er gullhár um sólarlag greiðir

var mín,

öll sæfarans gleði á því hafi sem hrynur og freyðir,

því hafi sem speglar og skín.

­ Ó, trúið mér, ég fór einn um þess óraleiðir

úr allra sýn.

Guðmundur Böðvarsson, 1904-1974, var ljóðskáld og bóndi á Kirkjubóli í Hvítársíðu. Fyrsta ljóðabók hans kom út 1936 og einkenndist af nýrómantík, en síðar urðu ljóð hans þjóðfélagslegri og efnistökin raunsærri.