ENDURMENNTUNARSTOFNUN Háskóla Íslands gengst í vetur fyrir kvöldnámskeiðum fyrir almenning ásamt ýmsum öðrum námskeiðum eins og undanfarin ár. Fyrsta námskeiðið hefst á mánudaginn kl. 20 í Endurmenntunarstofnun, Dunhaga 7 og nefnist það Jónas og umhverfi hans, en í því fjallar Matthías Johannessen skáld og ritstjóri um ýmsa þætti í skáldskap Jónasar Hallgrímssonar.
Menningarnámskeið njóta vaxandi vinsælda

ENDURMENNTUNARSTOFNUN Háskóla Íslands gengst í vetur fyrir kvöldnámskeiðum fyrir almenning ásamt ýmsum öðrum námskeiðum eins og undanfarin ár. Fyrsta námskeiðið hefst á mánudaginn kl. 20 í Endurmenntunarstofnun, Dunhaga 7 og nefnist það Jónas og umhverfi hans, en í því fjallar Matthías Johannessen skáld og ritstjóri um ýmsa þætti í skáldskap Jónasar Hallgrímssonar.

Kristín Jónsdóttir endurmenntunarstjóri tók undir það að bókmenntir og menning færi vaxandi á námskeiðunum.

Hún sagði að á það væri komin hefð og námskeiðum færi fjölgandi. Námskeiðin hefðu verið og væru í samvinnu við Heimspekideild Háskólans. Nú hefði Reykjavíkurakademían bæst við, en þrjú námskeið væru í samvinnu við hana.

Meðal fastra liða væri samstarf við Þjóðleikhúsið. Rætt væri um ákveðið verk og höfundinn, síðan farið á æfingu og haldinn fundur með aðstandendum sýninga. Þetta hefði reynst mjög skemmtilegt.

Nefna mætti námskeiðið Íslensk tónlist í 1000 ár undir stjórn Bjarka Sveinbjörnssonar. Það væri nýjung.

Jón Böðvarsson hefur haldið námskeið um Íslendingasögur. Nú eru ekki bara bækur á dagskrá heldur landafundir og kristnitaka. Jón væri vinsæll meðal nemenda og væru skráðir 500 þátttakendur hjá honum að þessu sinni.

Foreldrar og börn á Netinu

Kristín vildi líka benda á námskeið Halldórs Guðmundssonar um skáldverk Halldórs Laxness, í fyrra Sjálfstætt fólk, nú Heimsljós. Hún taldi líka námskeiðið Börn og foreldrar á Netinu mikilvægt. Það væri fyrir foreldra og snerist um það hvernig foreldrar geta skoðað og fengist við Netið með börnum sínum og stuðlað þar með að öryggi barna sinna á Netinu. "Börn læra mikið á Netinu," sagði Kristín.

Tveir ungir bókmenntafræðingar, Björn Þór Vilhjálmsson og Björn Ægir Norðfjörð, svipta hulunni af Hollywood með sögu bandarískra kvikmynda í eina öld. Breytingaskeið kvenna, eðlilegt ferli, ný viðhorf, væri líka tímabært námskeið en kennari þess er Arnar Hauksson læknir. Ný viðhorf varðandi breytingaskeiðið sæktu á.

Síðast en ekki síst vildi Kristín minna á námskeiðið um Jónas Hallgrímsson. Jónas hafi verið eitt af höfuðskáldum Íslendinga. Matthías Johannessen hefði verið gestafyrirlesari í Háskólanum og fólk hefði verið mjög ánægt með fyrirlestrana. Það hefði stuðlað að því að Matthías var fenginn til að halda námskeið um Jónas, samtíð hans og samferðamenn.

Háskólinn og almenningur mætast á námskeiðunum, að mati Kristínar. Þau eru öllum opin og Þátttaka vex stöðugt. 1.500 sóttu þau á liðnu ári. Þetta er um 13% af þátttakendum endurmenntunarnámskeiðanna allra. Fólk hefði mikinn áhuga og væri komið til að læra og auka þekkingu sína. Í framtíðinni er fyrirhugað samstarf við Salinn í Kópavogi og aukið samstarf við Íslensku óperuna auk Þjóðleikhússins. Námskeið fyrir listamenn og menningarstofnanir, í því skyni m.a. að auka tengslamyndun í heiminum, alþjóðlegt samstarf. Samstarf er hafið við Norræna húsið um þetta efni en námskeið um kostun menningarstofnana hefði stuðlað að þessu og sannað hve áhuginn er mikill.

Morgunblaðið/Ásdís Kristín Jónsdóttir endurmenntunarstjóri segir að áhugi sé mjög vaxandi á kvöldnámskeiðum Háskólans.