MIÐBÆJARSAMTÖK hafa verið stofnuð á Akureyri og var fyrsti formaður þeirra kjörinn Ingþór Ásgeirsson verslunarstjóri Bókvals. Um 60 manns sátu stofnfundinn í vikunni og þar á meðal bæjarstjórinn á Akureyri og bæjarfulltrúar, svo og atvinnurekendur í miðbænum, eigendur fasteigna, íbúar og aðrir hagsmunaaðilar.
Formaður nýstofnaðra miðbæjarsamtaka Meðvituð um slaka stöðu miðbæjarins

MIÐBÆJARSAMTÖK hafa verið stofnuð á Akureyri og var fyrsti formaður þeirra kjörinn Ingþór Ásgeirsson verslunarstjóri Bókvals. Um 60 manns sátu stofnfundinn í vikunni og þar á meðal bæjarstjórinn á Akureyri og bæjarfulltrúar, svo og atvinnurekendur í miðbænum, eigendur fasteigna, íbúar og aðrir hagsmunaaðilar.

Ingþór formaður sagði í samtali við Morgunblaðið að markmiðið með stofnun samtakanna væri að stuðla að samkeppnishæfni verslana og vera málsvari miðbæjarins í þeim málum sem upp koma. Einnig að þróa sameiginlega framtíðarsýn hagsmunaaðila í því skyni að efla þjónustu og stuðla að uppbyggingu aðlaðandi og öruggs umhverfis í miðbænum.

Ingþór sagði að menn væru meðvitaðir um það að staða miðbæjarins sé slök í dag. "Það þarf ekki annað en að ganga í gegnum miðbæinn til að sjá stöðuna í húsnæðismálum. Hér eru fullt af auðum plássum, það gengur ekki vel að selja fasteignir og fasteignaverð hefur hreinlega staðið í stað á meðan það er að springa út um allan bæ. Við erum að lesa það í blöðunum að menn hafi mikinn áhuga á að reisa verslunarkjarna víðs vegar um bæinn og ástæðan fyrir því er m.a. sú að menn hafa ekki áhuga fyrir miðbænum. Við þessu viljum við sporna og reyna um leið að auka hér líf."

Snúa vörn í sókn

Kristín Einarsdóttir framkvæmdastjóri miðborgarinnar í Reykjavík mætti á stofnfundinn og fór hún yfir stöðuna á sínum vettvangi, hvað hafi verið gert og hvaða verkefni væru í gangi. "Það kom fram í máli Kristínar að staða miðbæjarins væri ekkert sér reykvískt fyrirbrigði eða sér íslenskt fyrirbrigði, heldur hafi verið að dofna yfir miðbæjum víða um heim og þeir átt erfitt uppdráttar. Alls staðar í kringum okkur hafa þó menn verið að reyna að snúa vörn í sókn."

Ingþór sagði að stofnun miðborgarinnar í Reykjavík hafi skilað mjög góðum árangri og ætti eftir að gera það enn frekar. Borgarstjórn hafi tekið mikinn þátt í því að efla miðborgina og hann vonast eftir góðum viðbrögðum bæjaryfirvalda á Akureyri. "Við erum mjög bjartsýn á að bæjaryfirvöld taki þátt í þessu með okkur og það kom fram í máli bæjarstjóra að hann væri ánægður með þetta framtak. Hér eru líka komin fram samtök sem eru málsvari fyrir allan miðbæinn."

Jólaundirbúningur framundan

Bílastæðamál í miðbæ Akureyrar hafa verið töluvert til umræðu, enda fer stór hluti gjaldfrírra stæða undir bíla starfsmanna í miðbænum. Ingþór sagði að þetta væri mál sem þyrfti að skoða. Einnig þyrfti að skoða aðgengi til og frá bílastæðum og margt fleira.

Það styttist í jólin og fyrsta stóra verkefni samtakanna snýr að jólaundirbúningnum að sögn Ingþórs. "Við viljum samræma jólaskreytingar með bæjaryfirvöldum, m.a. hvenær eigi að setja jólaskreytingar upp og hversu lengi þær eiga að standa. En það er líka heilmikil tiltekt framundan hjá okkur sjálfum en þetta er allt á jákvæðum nótum og menn eru ekki að fara af stað með einhverjar kröfugerðir."

Næsti stjórnarfundur samtakanna er nk. mánudag og þá verða næstu skref ákveðin, að sögn Ingþórs. Með honum í stjórn eru Samúel Björnsson, Karl Jónsson, Gísli Jónsson og Margrét Oddsdóttir.