AKUREYRARBÆR hefur tekið í notkun nýja heimasíðu á Netinu. Veffangið er www.akureyri.is en þar er að finna upplýsingar um starfsemi og þjónustu bæjarins auk annars fróðleiks og skemmtunar. Gunnar Frímannsson, verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ, sagði að kappkostað væri að hafa síðuna létta, svo notendur fældust síður frá henni.
Ný heimasíða Akureyrarbæjar

AKUREYRARBÆR hefur tekið í notkun nýja heimasíðu á Netinu. Veffangið er www.akureyri.is en þar er að finna upplýsingar um starfsemi og þjónustu bæjarins auk annars fróðleiks og skemmtunar.

Gunnar Frímannsson, verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ, sagði að kappkostað væri að hafa síðuna létta, svo notendur fældust síður frá henni. Þannig hefur myndum verið stillt í hóf, en notendum gefst þó kostur á að líta nokkrar svipmyndir úr bæjarlífinu á síðunni.

Birtar eru fréttir úr bæjarkerfinu á síðunni, ljóð mánaðarins er þar að finna, upplýsingar um Staðardagskrá 21 og jafnréttisáætlun Akureyrarbæjar svo eitthvað sé nefnt.

Tæki til að miðla upplýsingum

"Akureyrarbær er stofnun sem þarf að eiga góð samskipti við stofnanir og einstaklinga og umfram allt þarf bæjarstofnunin að eiga góð samskipti við bæjarbúa. Vefsíða er tæki til að miðla upplýsingum og bera fólki boð um það sem efst er á baugi hverju sinni, hvort heldur um er að ræða hugmyndir einstaklinga eða málefni innanbúðar í flóknu opinberu kerfi," segir Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri í ávarpi sínu á síðunni.

Á síðunni eru upplýsingar um starfsemi bæjarfélagsins, deildir þess og stofnanir auk þess sem fundargerðir nefnda eru þar. Greint er frá fulltrúum í bæjarstjórn og birtar myndir af þeim. Þá eru þar einnig umsóknareyðublöð vegna ýmiskonar þjónustu og hægt er að sækja þar um vinnu hjá bænum, lóðir eða byggingarleyfi svo eitthvað sé nefnt.

Þá má nefna að fólki gefst kostur á að taka þátt í umræðum á síðunni um hvaðeina sem viðkemur bæjarfélaginu og sem stendur fer þar fram lífleg umræða um gufuböð. Hagmæltir eiga þar einnig sinn stað, en þessa stundina eru menn helst að yrkja um sláturtíðina.