DAGSKRÁRGERÐ fjölmiðla og skrif blaða eru öll mótuð af fólki, ýmist þolendum eða gerendum. Þegar samræmi er á milli viðhorfs og tilfinningar þjóðar og efnisflutnings fjölmiðla, ríkir einskonar sálarfriður í andrúmsloftinu.
Borðað

í Sri Lanka

DAGSKRÁRGERÐ fjölmiðla og skrif blaða eru öll mótuð af fólki, ýmist þolendum eða gerendum. Þegar samræmi er á milli viðhorfs og tilfinningar þjóðar og efnisflutnings fjölmiðla, ríkir einskonar sálarfriður í andrúmsloftinu. En þegar fjölmiðlar miða dagskrá sína við erlendar hugmyndir um skrímslasögur handa börnum, eða manndrápaseríur hlutabréfaeigenda í New York eða Hollywood, er mjög hæpið að slík framleiðsla sé í þágu áhorfenda á Íslandi nema sem liður í uppeldi á börnum eða til upplýsingar handa unglingum. Þess vegna er verið að tala um innlenda þáttagerð, jafnvel þótt hún sé léleg. Íslensk ævintýri eru að vísu misgóð og kvikmynaframleiðendur misgóðir líka, en það mætti reyna að veita fé í einhverja slíka framleiðslu í stað þess að ala börn upp við teiknimyndir, sem snerta ekki eina einustu taug í landsmönnum, ungum sem gömlum. Ævintýri og þjóðsögur okkar eru tilfinning, en skrímslagengi kvikmyndagengisins eru sprottin úr hópvinnu vitleysinga. Þess vegna er verið að biðja um innlenda þætti í stað innflutta ruslaralýðsins. Við lítum varla á okkur sem nýlendu kauphallarbraskaranna í kvikmyndaiðnaðinum.

Ríkiskassinn hefur byrjað að sýna danskan framhaldsþátt, sem heitir Löggan á Sámsey. Hann er ekkert rosalega góður, en hann er alveg í lagi. Það er gaman að heyra dönskuna talaða og orðfærið gæti allt eins verið íslenskt á köflum. Danir eru mikið skyldir okkur og hafa reynt okkur vel í mörgum efnum eftir aðskilnaðinn. Þeir eru ólíkir öðrum Norðurlandaþjóðum og mikið auðveldara yfirleitt fyrir okkur að nálgast þá en hinar þjóðirnar. Þeir hafa átt sína stóru daga í kvikmyndum, en það er nokkuð langt síðan. Hins vegar hafa þeir náð árangri í sjónvarpsþáttagerð. Þótt Löggan á Sámsey sé ekkert sérstakt er hún samt vel þess virði að fylgst sé með henni. Ótrúlegt er ef ekki er hægt að framleiða slíka þætti á Íslandi, láti kvikmyndamenn af hinni yfirþyrmandi heimsfrægðargloríu sinni. Hún hefur leitt þá á vegleysur, enda vantar þá íslenska stefnu.

Til innlendra þátta má telja að Sigmar B. Hauksson fór til Sri Lanka (Ceylon) og sýndi í ríkiskassanum. Það mátti hafa gaman að þessum þætti, enda staðurinn fallegur og ríkur að sögu. Menn fara misjafnra erinda til útlanda. Sumir skoða bara kirkjur. Sigmar skoðaði fræga staði úr sögu landsins, kryddgarða, þar sem hann smakkaði margvíslegt krydd sem óx úr jörðu. Auk þess virtist hann alltaf vera að borða. En hvað um það. Þetta var geðugur þáttur með sínum blómum, dansandi fólki og steik. Næst verður Sigmar í Barcelona. Hvað ætli hann borði þar?

Ríkiskassinn er ötull við að sýna íþróttir sem fyrri daginn. Nú var keppnin um Ryderbikarinn á dagskrá og stóð í þrjá daga: sumt á besta sýningartíma. Hvorki ríkiskassinn eða keppendur slógu holu í höggi, en margir lentu í karganum. Lýsingar voru á keppninni á íslensku, en maður skyldi minnst af þeirri íslensku, þótt stundum væri brugðið á það réð að tala um pétur eða pál á vellinum. Þulirnir virtust vera sæmilega lesnir í sögu golfsins, en það fór fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sem ekkert vissu um golf og voru steinhissa að horfa á fullorðna menn vera keppast við að koma kúlum niður i holur á grænum velli.

Frægðarfólk er farið að leggja leið sína til Íslands af minnsta tilefni. Hingað kom Jagger, sem er eins og karl nokkur í Eyjafirði. Hann var að fylgja tveimur konum bæjarleið í mikilli ófærð um vetur. Ógnarskafl varð á leið þeirra. Hann fylgdi annarri konunni fyrst yfir skaflinn, en snéri síðan við eftir hinni. Í fyllingu tímans áttu þær báðar börn á sama tíma og kenndu karli. Þannig hefði getað farið fyrir Jagger nema það fyrirfannst enginn skafl á Ísafirði. Seinfeld kom líka hingað einhverra erinda. Landið var snjólaust um það leyti. Hann gerði stuttan stans en er nú kominn aftur á Stöð 2 til að skemmta fólki og hann er gamansamur. Svo er Kramer vinur hans óborganlegur.

Indriði G. Þorsteinsson