NÁÐST hefur samkomulag í megindráttum um að hópur íslenskra fjárfesta eignist ráðandi hlut í enska knattspyrnufélaginu Stoke City, sem í upphafi verði 51% en fari upp í 75%, og hafði samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verið gengið frá yfirlýsingu þess efnis á fimmtudag þegar strandaði á því að núverandi eigendur vildu fá yfirlýsingu um að hvorki yrðu seldir leikmenn né skipt um þjálfara.
Samningaviðræður íslenskra fjárfesta við knattspyrnufélagið Stoke City á Englandi Yfirlýsing tilbúin en strandaði á ágreiningi um þjálfara

NÁÐST hefur samkomulag í megindráttum um að hópur íslenskra fjárfesta eignist ráðandi hlut í enska knattspyrnufélaginu Stoke City, sem í upphafi verði 51% en fari upp í 75%, og hafði samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verið gengið frá yfirlýsingu þess efnis á fimmtudag þegar strandaði á því að núverandi eigendur vildu fá yfirlýsingu um að hvorki yrðu seldir leikmenn né skipt um þjálfara. Samkvæmt heimildum blaðsins vildi Kaupþing, sem fer með samninga fyrir íslensku aðilana, láta koma fram að ekkert hefði verið ákveðið um það hvort einhverjir yrðu reknir eða ráðnir. Þetta fékkst hvorki staðfest hjá Jez Moxey, forstjóra Stoke, né Sigurði Einarssyni, forstjóra Kaupþings. Þeir sögðu að viðræðum yrði haldið áfram.

Á vefsíðu enska dagblaðsins The Sentinel sagði í gær að árangur Garys Megsons, sem tók við framkvæmdastjórn hjá Stoke City í upphafi þessarar leiktíðar, hefði treyst hann í sessi. Haft er eftir heimildamanni, sem þekkir til viðræðnanna, að frammistaða Megsons hafi ekki farið framhjá íslensku fjárfestunum og þrátt fyrir það að þeir taki Guðjón Þórðarson, þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, framyfir geri þeir sér grein fyrir því að taka þurfi tillit til óska stuðningsmanna.

Megson þjálfari mánaðarins

Megson stýrði liðinu til sigurs í þremur leikjum af fjórum í september, knúði fram eitt jafntefli og var fyrir vikið valinn þjálfari mánaðarins. Liðið er nú í sjöunda sæti annarrar deildarinnar (sem í raun er þriðja deild) eftir níu umferðir, hefur sigrað í fjórum leikjum, gert tvö jafntefli og tapað tveimur leikjum. Stoke tekur í dag á móti Scunthorpe, sem er í fimmta neðsta sæti deildarinnar.

Í The Sentinel segir að því yrði fagnað ef Megson yrði áfram. Megson sé fimmti þjálfari liðsins á tveimur leiktímabilum og það yrði litið svo á sem verið væri að bjóða heim glundroða og skaða tilraunir til að reyna fyrir alvöru að komast upp úr annarri deildinni. Kemur enn fremur fram að margir hafi efasemdir um ráðningu erlends þjálfara, sem enga reynslu hafi af enskri knattspyrnu, sérstaklega í neðri deildum.

Óbreytt rekstrarfyrirkomulag?

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins vilja íslensku aðilarnir hafa óbreytt fyrirkomulag á rekstri félagsins, en breyta fótboltahliðinni ­ fyrirkomulagi æfinga, leikmannahópnum og skipta um þjálfara.

Megson var yfirvegaður þegar blaðamaður The Sentinel spurði hann um stöðu hans í gær: "Ef einhver fyrirskipar að ég eigi að láta af þessu starfi get ég ekkert gert við því. Það á ekki eftir að valda mér vandræðum. Ég hef nægt sjálfstraust til að líta svo á að þegar annað starf býðst geti ég búist við að koma til greina." Þjálfarinn, sem er með tveggja ára samning við Stoke, kvaðst hins vegar vona að hann yrði áfram hjá félaginu.

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að samþykkt hafi verið peningaáætlun um yfirtöku íslensku fjárfestanna á 51% hlut í Stoke City, en ýmis útfærsluatriði séu ófrágengin, til dæmis að koma upp nýju æfingasvæði, leikmannakaup og fleira. Gert mun vera ráð fyrir því að Íslendingarnir kaupi til að byrja með 51% hlut, en með því að greiða niður skuldir, reisa æfingasvæði og leggja í sjóð vegna leikmanna muni sá hlutur eftir ákveðinn tíma fara upp í 75%.

Virðir samkomulag um trúnað

Jez Moxey, forstjóri Stoke City, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann vildi ekkert segja um stöðu samninganna við íslensku fjárfestana utan það, sem hann hefði áður sagt: "Félagið og fjárfestarnir hafa undirritað samkomulag um trúnað og því getum við ekkert sagt umfram það."

Moxey sagði að stjórn Stoke hefði verið reiðubúin að selja ráðandi hlut í félaginu í nokkur ár þótt það hafi ekki komist í hámæli fyrr en nú fyrir skömmu. Hann væri hins vegar farinn að ganga gegn trúnaðarsamkomulaginu ef hann léti eitthvað hafa eftir sér hvort þetta væru alvarlegustu viðræðurnar, sem átt hefðu sér stað um sölu á hlut í liðinu. "Hins vegar hafa ýmsir lýst yfir áhuga áður," sagði hann og bætti við þegar hann var spurður um ummæli sín um að félagið ætti í viðræðum við tvo aðila: "Ég hef áður sagt að við ættum í viðræðum við fleiri en einn aðila, sem er ekki það sama og tveir, en það var áður en trúnaðarsamkomulagið var undirritað og því get ég ekki sagt meira."

Moxey er fyrrverandi landsliðsmaður fyrir England í körfubolta og tók sér á sunnudagskvöld hlé frá samningaviðræðum um framtíð Stoke til að leika með körfuknattleiksliði borgarinnar, Stoke Stealers. Eftir leikinn sagði Moxey, sem hefur verið gagnrýndur af stuðningsmönnum Stoke City, að vildu menn gera hróp að sér fengju þeir betra tækifæri til þess á leikjum körfuboltaliðsins, en á leikjum Stoke. Moxey sagði í gær að hann hygðist áfram leika með körfuboltaliðinu, en hann hefði ekki leikið eftir að hann gaf út þessa yfirlýsingu þannig að ekki væri komið í ljós hvort stuðningsmenn Stoke City hygðust taka hann á orðinu.

Sigurður Einarsson, forstjóri Kaupþings, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hann gæti ekkert sagt eða staðfest um stöðu viðræðnanna við Stoke.

Talið er að samtals muni íslensku fjárfestarnir þurfa að leggja fram tæpar sex milljónir punda, en kaupverð 51% hlutarins sé 3,5 milljónir punda. Skuldir Stoke nema þremur milljónum punda samkvæmt síðustu reikningum og hefur verið greint frá því að félagið skuldi eina milljón að auki eftir síðustu leiktíð.