Ég hvet félaga í Bríeti til að reyna frekar að skilja og greina slíka ramma, segir Annabel Chong, svo að hin sanna rödd kvenna heyrist.
Grace Quek (Annabel Chong) svarar íslenskum femínistum

Kvikmyndir Ég hvet félaga í Bríeti til að reyna frekar að skilja og greina slíka ramma, segir Annabel Chong, svo að hin sanna rödd kvenna heyrist.

Í SVARI við grein Hildar Fjólu Antonsdóttur vil ég benda á þá augljósu staðreynd að það sem sumum finnst vera erótík, þykir öðrum vera klám. Mér leiðist þegar fólk skilgreinir klám og erótík til að reyna að flokka hvort tveggja utan þess sem er talið vera "rétt". Jafnvel þótt kaldhæðnislegt sé, notar þessi (sjálfskipaði?) talsmaður Bríetar sömu aðferð og kallast "líffæri feðraveldis".

Fjóla virðist haldin þeirri barnslegu trú að heimildarmyndir séu hlutlægar túlkanir á veruleikanum. Skynjun Goughs Lewis á klámiðnaðinum er lituð skoðun hans á goðsögnum sem tengjast iðnaðinum. Hann mótar myndir sínar til að breiða út þá skoðun sína. Til dæmis er atriðið, þar sem ég meiði sjálfa mig, tekið úr öllu samhengi til að sýna frásagnartækni kvikmyndagerðarmannsins á sviði kvalalosta.

Kvikmyndaunnendur á Íslandi vita kannski að við Gough Lewis áttum náin kynni meðan á gerð "Sex, The Annabel Chong Story" stóð. Atriðið þar sem ég sker mig í myndinni, gerðist daginn sem við ákváðum að binda enda á samband okkar. Við vorum sorgmædd og í uppnámi. Jafnvel þótt persónulegu sambandi okkar væri lokið, þurfti samstarf okkar að halda áfram. Við gátum ekki haldið sambandinu áfram. Við kvikmynduðum hvort annað við að meiða okkur sjálf þennan dag.

Ég skil hvernig og af hverju fólk bregst svona við þegar það horfir á mig skera mig. Ég bregst við á sama hátt. Það var samt miklu meira áfall fyrir mig að þetta atriði skyldi vera tekið úr samhengi í myndinni og mér þykir það mjög leiðinlegt að fólki skuli nota það til að réttlæta skynjun sína á kvalalosta.

Auk þess kom tilvitnun mín "kynlíf er nógu gott til þess að deyja fyrir það" fram á löngum fundi þar sem ég hafði rætt um vanþóknun mína á "fórnarlambsmenningunni" í bandarískum háskólum. Ég er ósammála fólki sem veltir sér upp úr fórnarlömbum frekar en að axla ábyrgð á gjörðum sínum.

Ég trúi því að karlar og konur hljóti að bera ábyrð á líkama sínum og kynlífi. Sem dæmi um það bendi ég á að þegar ég féllst á að leika í "World Biggest Gangbang", vissi ég um áhætturnar sem fylgdu því. Ég varð að taka afleiðingum gjörða minna, hverjar sem þær yrðu. Ef ég myndi deyja af völdum kynmaka við 251 karlmann, hefði ég engan rétt til að segja að ég væri fórnarlamb.

Þessi tvö dæmi úr "Sex, The Annabel Chong Story" sanna að tilteknir rammar og klipping eru notuð til að þagga niður í ólíkum röddum. Ég hvet félaga í Bríeti til að reyna frekar að skilja og greina slíka ramma svo að hin sanna rödd kvenna heyrist.

Ég vil líka benda á að sú algenga skoðun að eingöngu karlar framleiði og hafi ánægju af klámi er ein af mörgum mistúlkunum á klámiðnaðinum. Í Bandaríkjunum er 33% þeirra sem hafa ánægju af klámi konur. Mér er sagt að hlutfallið sé hærra í Evrópu. Kvenleikstjórum fer sífellt fjölgandi í klámiðnaðinum, þ.á m. ég sjálf, og við reynum að búa til kynlífsmyndir sem höfða meira til þessara kvenna.

Ég vil síður nota stimpilinn klám og erótík til að lýsa starfi mínu. Ég er ekki hrifin af hugmyndinni um meyjuna annars vegar og hóruna hins vegar. Ég bý til kynlífsmyndir. Ég hlakka til þess tíma þegar kynlífið skiptir mestu máli í myndinni og eina gagnrýnin snertir gæði.

Höfundur framleiðir, leikstýrir og leikur í kynlífsmyndum.

Grace Quek (Annabel Chong)