TOLLAR, vörugjöld og virðisaukaskattur verða endurgreidd af flotkví og öðrum búnaði sem fluttur hefur verið eða verður fluttur til landsins vegna rannsókna á háhyrningnum Keikó í Klettsvík í Vestmannaeyjum.
Tollar endurgreiddir af kví Keikós TOLLAR, vörugjöld og virðisaukaskattur verða endurgreidd af flotkví og öðrum búnaði sem fluttur hefur verið eða verður fluttur til landsins vegna rannsókna á háhyrningnum Keikó í Klettsvík í Vestmannaeyjum. Í fjárlagafrumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að heimilt verði að fella niður eða endurgreiða gjöld af byggingarefni, vélum, tækjum og búnaði sem keypt er í tengslum við stækkun og breytingar á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. EIN af hverjum fjórum jörðum sem eru til umsjónar í Jarðasjóði ríkisins eru í eyði en alls eru þar til umsjónar 620 jarðir. Þá eru 57 jarðir í umsjón undirstofnana landbúnaðarráðuneytisins. Hlutverk jarðasjóðs er að kaupa jarðir bænda sem hafa afsalað sér framleiðslurétti og jarðir sem ekki seljast á frjálsum markaði og aðstoða sveitarfélög við eigendaskipti að jörðum. Fram kemur í fjárlagafrumvarpinu að verulegur rekstrarvandi hafi myndast vegna mikilla útgjalda síðustu árin og verði nú leitast við að vinna á honum. SELJA á spildur úr landi Tilraunastöðvar Háskóla Íslands á Keldum og verja hluta andvirðisins til eflingar vísindarannsókna. Einnig er gert ráð fyrir að selja eignarhluti Rafmagnsveitna ríkisins og Vegagerðarinnar í sprengiefnageymslu við Suðurlandsveg í Reykjavík. ÁFORMAÐ er að þjóðmenningarhús verði opnað í gamla safnahúsinu við Hverfisgötu á sumardaginn fyrsta árið 2000. Í húsinu verða einkum menningarsögulegar sýningar en hluti hússins verður notaður undir fundastofur sem nýtast munu stjórnsýslu, ferðaþjónustu og fleiri aðilum. Lagt er til að heildarframlag til Safnahúss verði 54,6 milljónir að frádregnum sértekjum og hækki um 33,5 milljónir. ÚTGJÖLD forsetaembættisins hækka um 26,8 milljónir frá síðustu fjárlögum eða 28,9%. Meðal annars er gert ráð fyrir því að opinberar heimsóknir í tilefni árþúsundamótanna kalli á aukin framlög að fjárhæð 8,1 milljón. Einnig er fyrirhugað að endurnýja bifreið forseta Íslands og er gert ráð fyrir 4 milljóna framlagi til þess. EMBÆTTI ríkislögmanns færist frá fjármálaráðuneyti til forsætisráðuneytis um áramót í kjölfar breytingar á skipulagi stjórnarráðsins. Gert er ráð fyrir að framlag til embættisins verði óbreytt að raungildi, eða 26 milljónir. KOSTNAÐUR við ýmis verkefni forsætisráðuneytis nemur alls 605,3 milljónum og hækkar um 366,3 milljónir frá síðustu fjárlögum. Skýrist hækkunin einkum af kostnaði vegna 1.000 ára afmælis kristnitöku á Íslandi og verkefna landafundanefndar. Viðamikil hátíðahöld eru áformuð um allt land árið 2000 til að minnast kristnitökunnar og nemur heildarkostnaður á næsta ári 324,5 milljónum. Hæst ber tveggja daga hátíð á Þingvöllum í byrjun júlí. Þá á að veita 58 milljónir til kynningar á íslenskri forn- og nútímamenningu í Vesturheimi og fyrirhuguð er viðamikil sýning á vegum landafundanefndar í Safnahúsinu. Heildarkostnaður landafundanefndar á árinu 2000 er áætlaður 195,5 milljónir. STOFNA á nýjan launasjóð höfunda fræðirita og er gert ráð fyrir 8 milljóna króna framlagi til sjóðsins á næsta ári. Sjóðurinn mun greiða starfslaun til höfunda alþjóðlegra fræðirita, handbóka, orðabóka og upplýsingaefnis á íslensku. Ætlunin er að veita styrki sem svara til 5 árslauna lektora við háskóla. VERJA á 50 milljónum króna á næsta ári til byggingar sendiherrabústaðar í Berlín. Í fjáraukalögum 1998 var gert ráð fyrir 102 milljóna króna framlagi til að kaupa lóð undir bústað sendiherra Íslands í Berlín og hefja undirbúning að byggingu bústaðarins. FJÖLGA á nemendum við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna úr sex í níu og hækkar framlag til skólans því um 7,5 milljónir. Þá er lagt til að fimm milljónum króna verði varið til að mennta tvo nemendur til meistaragráðu við Jarðhitaskóla SÞ á Íslandi. ÚTGJÖLD Bjargráðasjóðs verða 30 milljónir á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu en núgildandi fjárlög gera ráð fyrir 15 milljóna útgjöldum. Hækkun framlaga skýrast af bágri stöðu sjóðsins sem mun að óbreyttu ekki geta mætt auknum styrkveitingum vegna umtalsverðra kaltjóna og grasbrest á þessu ári og sem líklega koma til útborgunar á næsta ári. FIMM ára áætlun um rannsóknir á mink á að hefjast á næsta ári og er gert ráð fyrir að veiðistjóraembættið fái 3 milljónir króna til þess. Tjón af völdum minka hefur farið vaxandi og miðast rannsóknin að því að finna leiðir til að útrýma mink úr náttúru landsins. STOFNA á náttúrustofu í Sandgerði á næsta ári og á að verja 4 milljónum króna til þess. Umhverfisráðherra er heimilt að styrkja starfrækslu einnar náttúrustofu í hverju kjördæmi en náttúrustofur eru nú í Neskaupstað, Vestmannaeyjum, Stykkishólmi, Bolungarvík og á Sauðárkróki.

Aukin útgjöld vegna Schengen SCHENGEN-SAMNINGURINN hefur í för með sér aukin ríkisútgjöld. Þar af hækka rekstrargjöld dómsmálaráðuneytisins um 25 milljónir á ári til frambúðar. Stafar það af því að gert er ráð fyrir að svokönnuð SIRENE-skrifstofa taki að hluta til starfa á næsta ári. Sú skrifstofa mun bera ábyrgð á þeim hluta Schengen-upplýsingakerfisins sem tilheyrir Íslandi og verður tengiliður lögreglusamvinnu samkvæmt Schengen-samningnum. Þá er áformað að efla landamæravörslu og þarf að þjálfa sérfræðinga til eftirlits með fölsuðum vegabréfum. Þá er gert ráð fyrir árlegu framlagi til þjálfunar og símenntunar lögreglumanna í tengslum við Schengen. Að auki er gert ráð fyrir því að stofnkostnaður vegna þess verði 136 milljónir króna á næsta ári, m.a. vegna kaupa á tækjabúnaði fyrir landamærastöðvar. RAFMAGNSVEITUR ríkisins verða að taka 350 milljóna króna lán á næsta ári til að standa við skuldbindingar og skyldur fyrirtækisins. Gert er ráð fyrir að 250 milljóna króna halli verði á rekstri fyrirtækisins og stafar hann fyrst og fremst af óarðbærum rekstrareiningum í dreifbýli. Þrátt fyrir rekstrartap er áætlað að handbært fé frá rekstri nemi um 800 milljónum. Þá er áætluð arðgreiðsla RARIK í ríkissjóð 202 milljónir en var 150 milljónir á þessu ári. Samkvæmt sérstöku samkomulagi ríkisins og Rafmagnsveitnanna er gert ráð fyrir að 65% af arðgreiðslu stofnunarinnar sé varið til styrkingar dreifikerfis í sveitum og 5% til þróunarverkefnis á vegum Rafmagnsveitnanna. Samkvæmt því ætti 131 milljón að koma til að styrkja dreifikerfið en ákveðið hefur verið að fresta framkvæmdum fyrir 50 milljónir króna. MARKMIÐ er að innan fimm ára verði til stafrænn kortagrunnur fyrir allt landið sem uppfyllir lágmarkskröfur sem notendur gera til slíkra gagna. Veitt er 30 milljóna króna framlag til Landmælinga Íslands vegna þessa verks á næsta ári en hluti verksins er unninn af bandarísku kortastofnuninni NIMA og er áætlað að hlut hennar megi meta til eins milljarðs króna. STEFNT er að jöfnuði í rekstri Ríkisútvarpsins á næsta ári en á síðasta ári nam rekstrartap 395 milljónum króna. Lítilsháttar lækkun verður á rekstrargjöldum stofnunarinnar á næsta ári miðað við áætlun fjárlaga þessa árs en rekstrartekjur hækka um 6%. TEKJUR Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins eru áætlaðar 11,7 milljarðar á næsta ári og aukast um 1.147 milljónir frá áætlun fjárlaga þessa árs. Miðað er við að selt magn áfengis aukist um 7% á næsta ári og þá hefur sala á tóbaki aukist nokkuð eftir samdrátt sem varð á síðasta ári. Rekstrargjöld ÁTVR eru áætluð 8,7 milljarðar þannig að tekjur ríkisins nema 3 milljörðum króna. TVÆR milljónir króna verða veittar vegna galla í nýjum ökuskírteinum. Í sumum skírteinunum hverfa myndirnar smám saman og verða skírteinin ónothæf eftir 1­2 ár. Umrætt framlag er vegna tímabundins kostnaðar þar til búið er að endurnýja skírteinin sem gefin hafa verið út á undanförnum tveimur árum. HJÁ Sýslumanninum í Reykjavík er fyrirhugað að hefja tilraunaverkefni við að veita þjónustu fyrir foreldra sem eiga í umgengnis- og forsjárdeilum. Markmiðið er að leita sátta í slíkum málum áður en til stjórnvaldsúrskurðar fyrir dómi kemur. Veitt er 1 milljón króna til verkefnisins. ÓSKAÐ er í fjárlagafrumvarpinu eftir heimild til að kaupa húsnæði fyrir skrifstofur sendiráðs Íslands í Moskvu, fyrir sendiherra Íslands í Moskvu og einnig fyrir varamann hans. Þá er gert ráð fyrir að keypt verði húsnæði fyrir varamann sendiherra Íslands í Washington og að keypt eða leigt verði nýtt húsnæði fyrir skrifstofur sendiráða Íslands í London og Kaupmannahöfn.

Barnabætur lækka vegna hærri launa ÁÆTLAÐ er að greiddar barnabætur á næsta ári lækki um 320 milljónir króna frá gildandi fjárlögum. Skýrist það af því að barnabætur skerðast hlutfallslega vegna tekna sem eru yfir tilteknum viðmiðunarmörkum. Launahækkanir hafa verið umfram hækkanir fjárlaga 1999 og voru bæturnar því ofmetnar fyrir yfirstandandi ár en auk þess er gert ráð fyrir áhrifum af áætluðum tekjubreytingum næsta árs. Vaxtabætur hækka hins vegar um 350 milljónir á næsta ári frá fjárlögum þessa árs. Gert er ráð fyrir 150 milljóna króna lækkun á bótunum af sömu ástæðu og lækkun vaxtabóta en á móti kemur að vaxtabætur aukast um 500 milljónir vegna breytinga sem gerðar voru á lögum árið 1998 og kveða m.a. á um að greiðslum vaxtabóta er flýtt og fleiri eiga rétt á bótum.

FRAMLÖG til lista hækka um 77 milljónir króna frá gildandi fjárlögum. M.a. hækkar framlag til Listahátíðar í Reykjavík um 10,5 milljónar og Reykjavíkurborg fær 100 milljónir vegna Menningarborgar árið 2000 en alls er gert ráð fyrir 235 milljóna heildargreiðslu ríkisins vegna þess verkefnis á árunum 1999­2001. FLUGSTÖÐ Leifs Eiríkssonar mun skila um 110 milljóna króna hagnaði af reglulegri starfsemi á næsta ári samkvæm fjárlagafrumvarpinu, en það er hækkun um 80 milljónir frá þessu ári. Gert er ráð fyrir að farþegum sem greiða farþegaskatt fjölgi í 474 þúsund árið 2000 eða um tæp 13% en gert er ráð fyrir að farþegum sem greiða innritunargjöld fjölgi um 5%. Frá árinu 1985 hefur fjöldi lendinga og farþega sem fara um flugvöllinn rúmlega tvöfaldast, úr 567 þúsund í rúmar 1,2 milljónir og á síðustu fimm árum nemur fjölgunin að jafnaði 10% milli ára. FRAMLAG til að mæta kostnaði við veikinda- og barnsburðarleyfi starfsmanna löggæslu- og sýslumannsembætta hækkar um 30 milljónir króna á næsta ári frá fjárlögum þessa árs. Er þetta gert til að gera dómsmálaráðuneytinu kleift að koma betur til móts við þennan kostnað þannig að ekki þurfi að leita eftir aukafjárveitingum af þeim tilefnum. ENDURBÆTA á íþróttamannvirki í Vesturbyggð í tilefni af unglingamóti UMFÍ sem verður haldið þar árið 2000. Kostnaðaráætlun heimamanna gerir ráð fyrir 19,7 milljóna króna kostnaði en veita á 5 milljónir króna úr ríkissjóði vegna þessa á næsta ári. Þá er einnig gert ráð fyrir 13,5 milljóna króna framlagi til uppbyggingar íþróttaaðstöðu á Egilsstöðum þar sem ráðgert er að halda landsmót UMFÍ árið 2001. Áformað er að veita sömu upphæð á fjárlögum 2001 og er þá heildarframlag ríkisins 35 milljónir á þremur árum. SÉRSVEIT lögreglunnar hefur verið færð frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík til ríkislögreglustjóra en rekstur sveitarinnar kostar 23,5 milljónir. Þá verður Útlendingaeftirlitið aðskilið frá embætti ríkislögreglustjóra og gert að sérstakri stofnun. LÖGREGLUSTJÓRINN í Reykjavík fær 110 milljóna króna framlag til að mæta rekstrarhalla ársins 1998 en forsenda þeirrar aukafjárveitingar er að þær ráðstafanir sem embættið hefur gert á þessu ári með það að augnamiði að það að draga úr rekstrarkostnaði dugi til þess að rekstur embættisins verði framvegis innan ramma fjárlaga. Dómsmálaráðherra hyggst skipa nefnd sem á að fjalla um mannaflaþörf og framtíðarskipulag löggæslu í borginni og hvernig unnt verður að ná settum markmiðum um þjónustu við borgarana. ÞRJÚ verkefni á sviði hafrannsókna verða styrkt sérstaklega á næsta ári með samtals 13,5 milljóna króna framlagi úr ríkissjóði. Í fyrsta lagi rannsóknir á skyldleika karfastofna, þ.e. hvort úthafskarfi og djúpkarfi séu erfðafræðilega skyldar tegundir. Verkefnið er styrkt af Tæknisjóði Rannsóknarráðs Íslands og eigendum úthafskarfaveiðiskipa. Í öðru lagi er gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu til rannsókna á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins, og loks er gert ráð fyrir fjárveitingu í samstarfsverkefni með fleiri Evrópuþjóðum sem beinist að greiningu erfðaefnis í nokkrum tegundum þorskfiska. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu.