FÖSTUDAGINN 10. september skrifaði Árni Björnsson eina af sínum ágætu greinum í Dagblaðið og vil ég nota tækifærið og þakka honum greinar hans. Þar vitnar hann í fyrstu Mósebók, að maðurinn megi drottna yfir jörðinni og öllu sem á henni er eins og hann lystir.

Gamli Nói

Frá Guðmundi Bergssyni:

FÖSTUDAGINN 10. september skrifaði Árni Björnsson eina af sínum ágætu greinum í Dagblaðið og vil ég nota tækifærið og þakka honum greinar hans. Þar vitnar hann í fyrstu Mósebók, að maðurinn megi drottna yfir jörðinni og öllu sem á henni er eins og hann lystir. En hann gleymdi alveg Nóa gamla sem var mikill athafnamaður og lék stórt hlutverk í syndaflóðinu þegar hann smíðaði hið fræga skip Örkina til að bjarga tegundum sem ekki gátu synt til að þær drukknuðu ekki. Þegar ég var smástrákur var mikið sungið um gamla Nóa sem var trúaður mikilsháttar maður. Og þá var mér líka sagt frá þessu stóra og mikla skipi Örkinni sem gat borið öll þessi dýr og undraði mig það stórlega enda hafði ég ekkert til að miða við nema þessar litlu fleytur sem voru í Grundarfirði og ég var viss um að ekki gætu borið mörg stór dýr. Ekki hefur nú verið spáð einhverju syndaflóði en þó held ég að ef af Eyjabakkastíflu verður þá verði það mesta syndaflóð sem yfir okkur hefur gengið og það mun leggja af fuglalíf á Eyjabakka og stórlega þrengja að hreindýrunum og hvað er þá til ráða? Í Framsóknarflokknum eru dugnaðar- og atorkumenn og það eru því líkur á að þeir feti í fótspor Nóa og smíði Örk til að láta á Eyjabakkalónið svo gæsirnar gætu haldið þar til þegar þær eru í sárum og kannski gætu þær orpið þar líka og þannig gætu þeir haldið við tegundunum eins og Nói gerði á sinni tíð og efalaust mætti hafa þar nokkur hreindýr og þá færi ekkrt til spillis nema gróðurinn og það er óþarfi að hafa áhyggjur af nokkrum ýlustráum sem eru undir klaka hvort sem er meiripartinn af árinu. Ég er viss um að þeir í Framsóknarflokknum leysa þessi mál eins og öll önnur, hvort sem þessi aðferð verður viðhöfð eða einhver önnur og hvort sem fleytan verður skírð Örk eða t.d. Sif. Því verða þeir að sjálfsögðu að fá að ráða, annað væri vart við hæfi.

GUÐMUNDUR BERGSSON,

Sogavegi 178, Reykjavík.