Ríkisstjórnin stendur einhuga að baki ákvörðuninni, segir Ingibjörg Pálmadóttir, um að verja 300 milljónum króna til byggingarinnar á næsta ári.
Fé tryggt í næsta áfanga barnaspítalans Barnaspítali Ríkisstjórnin stendur einhuga að baki ákvörðuninni, segir Ingibjörg Pálmadóttir , um að verja 300 milljónum króna til byggingarinnar á næsta ári. NÚ GETA framkvæmdir við byggingu nýs Barnaspítala Hringsins hafist á ný eftir tafir sem verða þess ekki aðeins valdandi að seinka verklokum heldur verður byggingin líka mun dýrari en áætlað var. Sem heilbrigðismálaráðherra hefur það verið mér kappsmál, að bæta aðstæður og hag veikra barna og aðstandenda þeirra. Þar skiptir bygging nýs Barnaspítala Hringsins mestu máli og var það sérstakt ánægjuefni að ríkisstjórnin skyldi á fyrra kjörtímabili sínu ekki aðeins ákveða að hefja framkvæmdir á Landsspítalalóðinni heldur líka sammælast um að tryggja fjármögnun hins nýja barnaspítala. Vegna mótmæla íbúa í nágrenninu hefur verkið tafist. Eftir að úrskurðarnefnd um skipulags- og byggingamál hafnaði röksemdum mótmælenda er ekkert, sem lengur kemur í veg fyrir að við getum ráðist í næsta áfanga byggingarinnar. Gott er til þess að vita að ótti íbúa við hugsanlega röskun hefur ekki orðið umhyggjunni fyrir börnum yfirsterkari. Ríkisstjórnin stendur einhuga að baki ákvörðuninni um að verja 300 milljónum króna til byggingarinnar á næsta ári. Er nú verið að undirbúa útboð vegna næsta áfanga svo sem Hjálmar Árnason, formaður bygginganefndar barnaspítalans, hefur greint frá í fjölmiðlum. Foreldrar sem hafa dvalið með sjúkum börnum sínum á Barnaspítala Hringsins vita betur en aðrir hversu brýnt það er að byggja nýjan spítala. Úrslit í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála eru sérstakt gleðiefni fyrir þá sem þurfa á þjónustu barnaspítala að halda, og næsti áfangi byggingarinnar er gleðiefni fyrir okkur hin sem teljum framkvæmdina afar brýna. Þeir sem vilja kynna sér allt um nýja barnaspítalann geta leitað upplýsinga á slóðinni: http://www2.rsp.is/hringur/val-starfsemi.html Höfundur er heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra. Ingibjörg Pálmadóttir