HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt að Háfsfjara í Rangárvallasýslu, þar sem flutningskipið Víkartindur strandaði í mars 1997, tilheyrir jörðunum Háfi, Hala og Háfshóli að jöfnu. Eigendur Háfs höfðuðu málið til að fá viðurkenndan rétt sinn yfir öllu svæðinu. Í málinu var deilt um tæplega 1.100 hektara strandlengju, sem fram yfir miðbik aldarinnar var að mestu leyti nær ógróinn sandur.

Þrír bæir eiga jafnan

hlut í Háfsfjöru

HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt að Háfsfjara í Rangárvallasýslu, þar sem flutningskipið Víkartindur strandaði í mars 1997, tilheyrir jörðunum Háfi, Hala og Háfshóli að jöfnu. Eigendur Háfs höfðuðu málið til að fá viðurkenndan rétt sinn yfir öllu svæðinu.

Í málinu var deilt um tæplega 1.100 hektara strandlengju, sem fram yfir miðbik aldarinnar var að mestu leyti nær ógróinn sandur. Til margra ára var landsvæðið undirorpið vatnavöxtum Þjórsár og Markarfljóts og á veturna var landið alísa og skóf þá sandinn yfir ísinn, inn á graslendi. Með landgræðslustörfum allt frá 1928 tókst að hefta sandfokið. Í mars 1997 var svo komið að svæðið hafði tekið stakkaskiptum og víða samfelldur gróður þar sem raki var til staðar, en annars þakti melgresi landið að mestu. Gróðurinn varð fyrir verulegum skemmdum vegna aðgerða á strandstað Víkartinds, að mati eigenda jarðarinnar Háfs, án þess að þeir gætu aðhafst nokkuð, þar sem eignatilkall þeirra hafði hvorki verið viðurkennt af yfirvöldum né eigendum jarðarinnar Hala og Háfshóls.

Tilheyrði landnámsjörð

Eigendur Háfs byggðu kröfu sína á því, að allt frá landnámi hefði þetta umdeilda landsvæði tilheyrt landnámsjörðinni Háfi og aldrei verið frá henni skilið. Þeir hefðu eignast jörðina með gögnum og gæðum samkvæmt fullgildum eignaafsölum og teldu því til beins eignarréttar yfir landsvæðinu. Máli sínu til stuðnings vísuðu eigendur jarðarinnar Háfs meðal annars til lögfestu frá 1874, landamerkjaskrár frá 1885, Jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1708 og vísitasíugjörðar frá 1885. Þá vísuðu Háfseigendur til þess, að jarðirnar Hali og Háfshóll hefðu verið hjáleigur, engin gögn hefðu fundist þar sem tekið væri fram að þær væru það ekki lengur og hjáleigubændur gætu ekki með nokkru móti talist eiga land utan landamerkja sinna.

Ekki var ágreiningur í málinu um að reki á ströndinni hefði verið nýttur af öllum íbúum Háfshverfisins, en menn greindi á um hver önnur not hefðu verið af svæðinu. Eigendur Háfs sögðu að þótt reka hefði verið skipt í ákveðnum hlutföllum gæti það engan veginn talist grundvöllur þess að hinar jarðirnar ættu fjöruna, enda hlunnindi ekki bundin beinum eignarrétti.

Hjáleigur í orði, ekki borði

Eigendur Hala og Háfshóls sögðu fjöruna í óskiptri sameign Háfshverfisjarðanna, þannig að hver um sig ætti þriðjung, enda landi Háfshverfisjarða lýst sameiginlega í öllum skjallegum heimildum. Þá fullyrtu þeir, að við sölu Hala og Háfshóls á sínum tíma, fyrir 1802, hefðu jarðirnar orðið sjálfstæðar og fullgildar jarðir með sömu réttarstöðu og Háfur. Þótt jarðirnar hefðu verið nefndar hjáleigur í jarðabókinni frá 1861 breytti það því ekki að hvergi í síðari tíma gögnum, hvorki í afsölum jarðanna né fasteignmatsbókum, væri þess getið að jarðirnar væru hjáleigur og eigendur og ábúendur annarra jarða í Háfshverfinu hefðu aldrei innt af hendi afgjald til eigenda Háfs.

Hæstiréttur var sammála þeirri niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands á sínum tíma að eigendum Hala og Háfshóls hefði tekist að sanna að Háfsfjara hefði verið í óskiptri sameign jarðanna í Háfshverfinu. Vísaði Hæstiréttur m.a. til skipta haustið 1938 á svokölluðum Fiskivatnseyrum, svipuðu landsvæði og Háfsfjöru, en því svæði var skipt milli jarðanna í þrjá jafna hluta, sem Hæstiréttur segir benda til samkomulags um að svæðið væri í óskiptri sameign í þeim hlutföllum.