REKSTRARKOSTNAÐUR í heilbrigðiskerfinu umfram heimildir fjárlaga er helsti vandi á útgjaldahlið ríkissjóðs í ár. Við undirbúning fjárlagafrumvarpsins var unnið að greiningu þessa vanda og gerðar tillögur um 1,4 milljarða viðbótarframlög til að styrkja rekstur heilbrigðisstofnana. Einnig verður lögð til veruleg hækkun á framlögum þessa árs í frumvarpi til fjáraukalaga.
Breytt fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu og almannatrygginga

REKSTRARKOSTNAÐUR í heilbrigðiskerfinu umfram heimildir fjárlaga er helsti vandi á útgjaldahlið ríkissjóðs í ár. Við undirbúning fjárlagafrumvarpsins var unnið að greiningu þessa vanda og gerðar tillögur um 1,4 milljarða viðbótarframlög til að styrkja rekstur heilbrigðisstofnana. Einnig verður lögð til veruleg hækkun á framlögum þessa árs í frumvarpi til fjáraukalaga.

Nú er verið að skoða möguleika á breyttu rekstrarformi einstakra þjónustuþátta eða stofnana heilbrigðisþjónustunnar. Kannaðir verða möguleikar á aukinni verkaskiptingu og samstarfi sjúkrastofnana til þess að nýjungar og fjölbreytni í rekstri fái notið sín. Meðal annars verði skilið á milli hlutverks ríkisins sem kaupanda þjónustunnar annars vegar og veitanda hennar hins vegar.

Samspil almannatryggingakerfisins við skattkerfið og lífeyrissjóðina verður einnig tekið til endurskoðunar. Takmarkið er að draga úr umfangi og kostnaði við stjórnsýslu og samræma og einfalda framkvæmdina til gagns fyrir bótaþega. Aldurssamsetning þjóðarinnar mun breytast á næstu árum og ellilífeyrisþegum fjölga hlutfallslega. Þess vegna þykir nauðsynlegt að huga að framtíð almannatryggingakerfisins og kanna áhrif þessara breytinga á ríkisfjármál og frjálsan lífeyrissparnað.