TEKJUAFGANGUR ríkissjóðs verður á næsta ári 15 milljarðar króna samkvæmt frumvarpi til fjárlaga sem lagt var fram á Alþingi í gær. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs nemi 205 milljörðum króna og heildargjöldin eru áætluð 190 milljarðar. "Er það mikill afkomubati frá fjárlögum og áætlaðri útkomu þessa árs og undanfarinna ára.
Gert ráð fyrir 2,5% hagvexti í fjárlagafrumvarpi næsta árs Tekjuafgangur ráðgerður 15 milljarðar

Fjárlög næsta árs gera ráð fyrir miklum afkomubata frá yfirstandandi ári og er tekjuafgangur ráðgerður 15 milljarðar króna. Lækkun skulda umfram nýjar lántöku nemur um 48 milljörðum króna árin 1998 til 2000.

TEKJUAFGANGUR ríkissjóðs verður á næsta ári 15 milljarðar króna samkvæmt frumvarpi til fjárlaga sem lagt var fram á Alþingi í gær. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs nemi 205 milljörðum króna og heildargjöldin eru áætluð 190 milljarðar. "Er það mikill afkomubati frá fjárlögum og áætlaðri útkomu þessa árs og undanfarinna ára. Meginmarkmið fjárlagafrumvarpsins er að nýta bætta afkomu og vaxandi lánsfjárafgang til að draga úr þenslu í efnahagslífinu og greiða niður skuldir ríkissjóðs," segir m.a. í yfirliti frumvarpsins um afkomu ríkissjóðs.

Tekjujöfnuðurinn var ráðgerður 2,4 milljarðar króna í fjárlögum yfirstandandi árs og verður tekjuafgangur um 7,5 milljarðar samkvæmt endurskoðuðum áætlunum fyrir árið. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir töluverðum breytingum í efnahagsmálum á næsta ári og er gert ráð fyrir 2,5% hagvexti. Þjóðarútgjöld eru talin aukast um 2,5% en aukning þeirra verður 4,5% á þessu ári og hún var tæplega 12% í fyrra. Þá gerir spá fjárlaga ráð fyrir að einkaneysla, samneysla og fjárfesting aukist einnig á bilinu 2-2,5%. Gert er ráð fyrir að úr verðhækkunum dragi á næsta ári og að neysluverðsvísitalan hækki um nálægt 2,5% frá upphafi til loka ársins en hún hækkar um 4,5% á þessu ári.

Um 48 milljarða lækkun skulda á þremur árum

Handbært fé frá rekstri, þ.e. sá hluti af lánsfjárafgangi sem regluleg starfsemi ríkissjóðs skilar, er talið verða 16,2 milljarðar króna. Á þessu ári er gert ráð fyrir að það nemi rúmum 10 milljörðum króna. Framlagið til niðurgreiðslu skulda eykst því um 6 milljarða frá áætlaðri útkomu þessa árs og um 9 milljarða frá fjárlögum 1999. Þá nemur lánsfjárafgangur 23,9 milljörðum króna en það er það fé sem ráðstafað verður til niðurgreiðslu skulda. Lánsfjárafgangur verður 20,5 milljarðar samkvæmt áætlun yfirstandandi árs og uppsafnaður lánsfjárafgangur áranna 1998 til 2000 stefnir í alls 60 milljarða króna. "Miðað við áform í frumvarpinu og áætlanir á yfirstandandi ári stefnir í að niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs umfram nýjar lántökur nemi 48 milljörðum króna á árunum 1998-2000. Gangi þessar áætlanir eftir munu heildarskuldir ríkissjóðs lækka úr 51% af landsframleiðslu í lok árs 1995 í 30% árið 2000," segir í frumvarpinu.

Gert er ráð fyrir minni tekjuauka ríkissjóðs á næsta ári en undanfarin ár vegna minni hagvaxtar. Áætlað er að tekjurnar verði 205 milljarðar króna á næsta ári sem er um 10,5 milljarða króna aukning frá áætlun yfirstandandi árs. Reiknað er með 2,1 milljarðs króna aukningu í tekjusköttum einstaklinga, hálfs milljarðs króna hækkun á tryggingagjöldum og um 2,7 milljarða aukningu í veltusköttum. Tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu eru taldar munu lækka úr 30,3% í ár í 29,8% árið 2000.

Heildargjöld ríkissjóðs eru áætluð 190 milljarðar króna og aukast þau um 2,7 milljarða króna frá áætlun yfirstandandi árs og um 7,6 milljarða frá fjárlögum 1999. Hækkunin nemur um fjórum milljörðum króna eða 2,3% að frátöldum lífeyrisskuldbindingum. Hlutfall ríkisútgjalda af landsframleiðslu lækkar úr 29,2% í ár í 27,7% á næsta ári.

Aukið fé í mennta- og velferðarmál

Í greinargerð frumvarpsins segir að helstu áhersluatriði í nýjum rekstrargjöldum komi fram í auknum framlögum til mennta- og velferðarmála. Rekstur háskóla og framhaldsskóla verði efldur og lögð verði til fleiri bráðaúrræði fyrir börn og unglinga með geðraskanir og hegðunarvandkvæði svo og börn og unglinga í vímuefnaneyslu og með afbrotahneigð.

Stofnkostnaður ríkissjóðs lækkar um 2,2 milljarða milli ára eða um 14%. Kemur hún meðal annars til vegna áforma um að fresta framkvæmdum til að sporna við þenslu í efnahagslífinu og kemur lækkunin fram á öllum helstu stofnkostnaðarliðum ríkisins. "Ef ekki kemur til frestunar á stofnkostnaði munu framlög aukast á milli ára vegna markaðra tekjustofna og áhrifa vega- og hafnaráætlunar. Þá voru uppi áform um að ljúka við stóra áfanga í nokkrum byggingum sem verður frestað um sinn."