NÚ DRUKKNAR HINSTA DAGSINS LJÓS EFTIR GUÐRÚNU GUÐLAUGSDÓTTUR Í upphafi þessarar aldar sáu nokkur íslensk skáld sér þann kost vænastan að yfirgefa Ísland og starfa erlendis. Einn úr þessum hópi var JÓNAS GUÐLAUGSSON, sem skrifaði bæði skáldsögur og ljóð á dönsku við góðar undirtektir.
VERK:: SAFN'MENNINGARBLAD DAGS.:: 991002 \: SLÖGG:: aðið á Stað hitti ég STOFNANDI:: TDFA \: \:

NÚ DRUKKNAR HINSTA

DAGSINS LJÓS



EFTIR GUÐRÚNU GUÐLAUGSDÓTTUR



Í upphafi þessarar aldar sáu nokkur íslensk skáld sér þann kost vænastan að yfirgefa Ísland og starfa erlendis. Einn úr þessum hópi var JÓNAS GUÐLAUGSSON, sem skrifaði bæði skáldsögur og ljóð á dönsku við góðar undirtektir. Jónas var mjög bráðþroska og átti um margt óvenjulega dramatíska" ævi í starfi jafnt sem einkalífi. Hann kom víða við, gaf út ljóð sín, ritstýrði blöðum og tók þátt í stjórnmálum á Íslandi áður en hann hélt utan til að gerast þar rithöfundur og skáld. Hann dó á 28. aldursári og hafði þá gefið út margar bækur og hlotið verðskuldaða viðurkenning sem ljóðskáld, rithöfundur og greinahöfundur.

Fyrir nokkrum árum var haldin sýning á verkum Jótlandsmálaranna svonefndu í Norræna húsinu í Reykjavík. Meðal verkanna á sýningunni var portret-mynd af íslenska ljóðskáldinu Jónasi Guðlaugssyni. Verkin komu frá jóska listamanna- og fiskiþorpinu Skagen, þar sem Jónas dvaldi síðasta ævitíma sinn og þar sem hann dó á 28. aldursári 15. apríl 1916. Ég horfði kannski af meiri athygli á myndina af honum en aðrir sýningargestir ­ Jónas var ömmubróðir minn og frá því ég man eftir mér heyrði ég mikið um hann talað. Þótt hann væri þá löngu látinn lifði minning hans sterk meðal systkina hans, ekki síst systra hans Guðrúnar ömmu minnar, Jóhönnu, Láru og Theodóru, en þær voru nær honum í aldri en bræður hans Guðmundur og Kristján. Nokkru fyrir andlát sitt gaf Andrés Björnsson fyrrum útvarpsstjóri mér ljóðabókina Tvístirnið, sem hefur að geyma ljóð Sigurðar frá Arnarholti og Jónasar Guðlaugssonar og fyrir skömmu las ég svo æviminningar Ásgríms Jónssonar listmálara, skráðar af Tómasi Guðmundssyni, þar ber einn kafli yfirskriftina Jónas Guðlaugsson. Lestur ljóðanna og frásögn Ásgríms hvatti mig til þess að leita frekari heimilda um þennan löngu liðna frænda minn og reyna að setja mér persónu hans fyrir sjónir, þær tilraunir leiddu svo til þess að ég skrifaði þessa grein.

Jónas Guðlaugsson fæddist á Staðarhrauni í Mýrasýslu 27. ágúst 1887, sonur séra Guðlaugs Guðmundssonar og Margrétar Jónasdóttur. Guðrún amma mín sagði mér svolítið um tildrög þeirra kynna. Guðlaugur faðir hennar var sonur Guðmundar Gíslasonar bónda og hreppstjóra í Dalsmynni og konu hans Guðrúnar Guðmundsdóttur. Séra Jónas Guðmundsson, sem séra Árni Þórarinsson segir í ævisögu sinni að hafi verið mestur ræðusnillingur í guðfræðistétt sinnar tíðar, tók að sér að kenna Guðlaugi undir skóla gegn því að hann kenndi barnalærdóm börnum hans og konu hans Elinborgar Kristjánsdóttur frá Skarði á Skarðsströnd. Margrét Jónasdóttir var þá níu ára gömul en Guðlaugur fjórtán árum eldri, fæddur 20. apríl 1853. Guðlaugur fékk því næst inngöngu í Latínuskólann í Reykjavík, lauk þaðan stúdentsprófi 1882 og guðfræðiprófi nokkru síðar. Að því loknu kvæntist hann Margréti og var Jónas elstur tólf barna þeirra. Hin voru Elínborg og Þórdís, sem dóu ungar, Guðrún, Jóhanna, Lára, Ingibjörg, sem dó ung, Theodóra, Ólöf, Kristín, dó á barnsaldri, Guðmundur og Kristján. Börnin sem upp komust giftust öll og eignuðust börn og er stór ættbogi frá þeim kominn.

Jónas Guðlaugsson þótti þegar í frumbernsku afar mannvænlegur drengur. Hann var mjög bráðþroska. Jóhanna Ólafsdóttir fyrrum húsfreyja í Breiðholti (gamla bændabýlinu) sagði í útvarpsviðtali þá 99 ára gömul að hann hefði verið farinn að tala í hendingum þriggja ára gamall. Hann var einu sinni að reyna að sauma með stúlku sem Gunna hét og ömmu sinni Guðrúnu sem bjó á heimili hans, saumaskapurinn gekk illa. Sagði hann þá:

Getur þú ekki gefið mér

góðan rauðan tvinna?



Amma hans bætti þá framan á vísupartinn eftirfarandi:

"Gunna blessuð gegndu hér

gerðu bænum sinna."



Jóhanna var í vist hjá Guðlaugi og Margréti í þrjú ár, kom til þeirra ellefu ára, hún kvað heimilið hafa verið glaðvært og hefði skáldskapur mikið verið hafður þar um hönd. "Þau voru bæði hjónin mikið hagmælsk, hún ekki síður," sagði Jóhanna. Séra Guðlaugur gaf út ljóðmæli sín á efri árum. Jónas Guðlaugsson var í flestu tilliti óvenju bráðþroska. Innan við fermingu handskrifaði hann nokkur eintök af fréttablaði, sem síðan gekk manna á milli í sveitinni og þótti góð skemmtun í fásinninu að glugga í það. Eitt slíkt blað sá ég hjá Höskuldi Ólafssyni fyrrum bankastjóra. Hann er dóttursonur Ingibjargar systur Margrétar, en hann safnaði saman ýmsu efni sem snerti Jónas Guðlaugsson.

Jónas fór að heiman um tólf ára aldur og fór þá að búa sig undir skóla. Faðir hans gat ekki liðsinnt honum mikið vegna vaxandi ómegðar. Margrét var að vísu af ríku fólki komin, dótturdóttir Kristjáns kammerráðs á Skarði, en hann var sonarsonur Magnúsar Ketilssonar sýslumanns sem nefndur hefur verið fyrsti blaðamaður Íslands. Magnús var brautryðjandi á ýmsum öðrum sviðum og giftist inn í Skarðsættina, þar sem fyrir var mikið ríkidæmi í jarðeignum og fleiru. Elinborg móðir Margrétar fékk t.d. Svignaskarð í morgungjöf og voru afgjöld af þeirri jörð vasapeningar hennar. Séra Árni Þórarinsson segir að þeir peningar hafi að vísu allir farið til fátækra, enda Elinborg rómuð fyrir gjafmildi og lækningahæfileika.

Þrátt fyrir lítil peningaráð tókst Jónasi Guðlaugssyni að komast í skóla og settist í Latínuskólann, þar var hann m.a. bekkjarbróðir Ásmundar Guðmundssonar biskups. Jónas lauk ekki stúdentsprófi og olli því það atvik að öllum í bekk hans var vikið úr skóla vegna óspekta. Seinna var þeim gefinn kostur á að ljúka prófinu en ekki vildi Jónas þá þekkjast það boð. Þess í stað fór hann átján ára gamall að fást við blaðamennsku og stjórnmál. Hann var um tíma ritstjóri Valsins á Ísafirði. Hann var ekki nema sextán ára þegar hann var orðinn áróðursmaður fyrir Landvarnaflokkinn. Ferðaðist hann talsvert um þeirra erinda, hélt ræður og þótti stórorður. Hann var þá löngu farinn að fást við ljóðagerð. Gáfu óvildarmenn hans honum viðurnefni í háðungarskyni og nefndu hann Litla- leir. Þegar faðir hans frétti af nafngiftinni rumdi í honum: "Ætli ég sé þá Stóri-leir?" Þess er víða getið að Guðlaugur hafi fengist við ljóðagerð, m.a. í dagbókarbrotum Ólafs Davíðssonar, "Ég læt allt fjúka". Þeir voru samtíða í skóla og er ekki laust við að gæti hneykslunar í frásögn Ólafs. Jónas Guðlaugsson hneykslaði sína skólabræður ekki síður þegar hann lýsti því yfir að hann ætlaði að verða stórskáld.

Jónasi Guðlaugssyni er víða lýst af samtíðarmönnum. Jóhanna systir hans segir: "Í mínum augum var Jónas bróðir minn fallegur, hann var hár og grannur með hrokkið hár, djarfur í framkomu og gleðimaður." Hún segir ennfremur að þegar hann hafi verið að hugsa og yrkja hafi hann annað slagði tekið með hendinni upp í hár sér áður en hann svo settist niður til að skrifa. Ásgrímur Jónsson lýsir Jónasi svo: "Hann var gervilegur maður, ljóshærður og bláeygur, í meðallagi hár, fínlegur og sennilega talsverður skartmaður í eðli sínu. Mér fannst hann mjög ljúfmannlegur í umgengni, opinskár og fljótur til kynningar. En hann lét einnig skoðanir sínar hispurslaust í ljós og var mjög vel máli farinn." Jónas Sveinsson kynntist Jónasi frænda sínum Guðlaugssyni þegar hann var tvítugur en nafni hans Sveinsson átta ára. "Jónas var allra manna glæsilegastur að vallarsýn. Eins og ég man hann fyrst, gekk hann jafnan í diplómatafrakka með hvíta glófa á höndum og við staf, fínlegur maður, hversdagslega ljúfur í viðmóti og yfirlætislaus, næstum að segja eins og dálítið spyrjandi," og Jónas Sveinsson heldur áfram: "Mér var sagt, að fáir menn hefðu átt jafn auðvelt með að eignast vini og Jónas Guðlaugsson. Sitt vinfengi lét hann hins vegar ekki mörgum í té. Hann var alþýðu manna ljúfur í orðum og tiltektum, en beit af sér atfylgi höfðingja og galt fyrir það síðar."

Snemma ætlaði Jónas sér stóra hluti og hann taldi sig enga framtíð eiga á Íslandi og vildi komast til útlanda. Fyrst fór hann í ferðalag með móðurbróður sínum til Danmerkur, en það ferðalag reyndist honum afdrifaríkt. Á hóteli er þeir frændur gistu í ferðinni kynntist Jónas óvenjulega glæsilegri konu, Thorborg Schójen að nafni. Hún var dóttir yfirhershöfðinga Norðmanna. Hún var ekki aðeins skínandi falleg og vel menntuð heldur einnig vel greind og listagóður upplesari. Ferðalag þeirra frænda hélt áfram og eftir að hafa starfað veturinn 1907-8 sem blaðamaður við danska blaðið Social-Demokraten sneri Jónas heim til Íslands. Thorborg hefur greinilega ekki verið með öllu ósnortin af hinu unga skáldi því hún hélt á eftir Jónasi til Íslands og þar lyktaði ævintýrinu svo, að sögn Jóhönnu systur hans, að þau Jónas og Thorborg Schójen gengu í hjónaband og hófu búskap í Kirkjustræti 8 í Reykjavík ­ í húsi Kristjáns Þorgrímssonar. Jónas Sveinsson læknir, sonur Ingibjargar móðursystur Jónasar Guðlaugssonar, segir í endurminningum sínum að þessar tengdir hafi vakið mikinn fögnuð hjá foreldrum skáldsins. "Ég man eftir mynd af brúðhjónunum ungu, sem send var að Skarði til foreldra minna, og eins minnist ég umtalsins um gæfu frænda míns," segir hann. Jónas var áreiðanlega mjög ástfanginn af Thorborgu. Hann orti m.a. til hennar:

Þú ert sá draumur sem dregur

mig dægurrykinu frá,

þú ert það ljóð sem mér lyftir

í ljóshvolfin skínandi há.



Því miður varð gæfa Jónasar í þessum hjúskap endaslepp. Ásgrímur Jónsson listmálari kynntist þeim Jónasi og Thorborgu meðan þau bjuggu í Kirkjustrætinu. "Þangað kom ég stundum til þeirra og féll mér fjarska vel við þau. Jónas átti auðugt hugmyndalíf og bæði höfðu þau hjónin lifandi áhuga fyrir listum og öllu, sem fagurt var," segir Ásgrímur í æviminningum sínum. Þau Jónas og Thorborg eignuðust saman eina dóttur, Áslaugu Margréti, f. 1909, en urðu að koma henni í fóstur til Þórðar Thoroddsen læknis, vegna veikinda Thorborgar. Telpan dó á fyrsta ári úr lungnabólgu. Þau Jónas og Thorborg voru fátæk, "mér skilst að hann hafi ekki átt málungi matar," segir nafni hans Sveinsson. Nokkru eftir dauða litlu dótturinnar fóru ungu hjónin til Noregs þar sem þau dvöldu um tíma í góðu yfirlæti hjá móður Thorborgar. Að sögn Jóhönnu Guðlaugsdóttur, systur Jónasar, skrifaði Jónas þar í blöð og orti kvæði og kynntist norskum skáldum sem urðu góðir vinir hans. Þaðan fór Jónas með konu sinni til Kaupmannahafnar. Eftir að þau fluttu þangað þurfti Jónas að fara í ferðalag til Þýskalands í atvinnuerindum. Á meðan hann var í Þýskalandi kynntist Thorborg sænskum barón af tignum ættum og giftist honum nokkru seinna og bjó á Skáni. Guðrún amma mín talaði um að Thorborg hefði verið berklaveik. Það má vera ­ hún varð hins vegar langlíf kona því Ásgrímur segir árið 1956 að Thorborg sé þá enn á lífi. Jónasi mun hafa þótt mjög vænt um Thorborgu og séð eftir henni, um það er til vitnis eftirfarandi ljóð sem hann orti til hennar:

Du staar der tavs, du staar der bleg,

og skønt jeg er dig nær,

du har ej ord, du har ej blik

for den, der var dig kær.



Jeg ser det klart, det er forbi

med det, sem engang var,

og høstens storme fejer væk

hver drøm, som hjertet bar.



Jeg staar blot tavs og ser dig gaa,

halvt som i drøm forbi,

og dine fodtrin blandes ind

i høstens melodi.



Jóhanna Guðlaugsdóttir var skáldmælt eins og öll hennar systkini. Hún reyndi sem unglingur að snara hluta af ljóði Jónasar til Thorborgar:

Nú drukknar hinsta dagsins ljós

við dimmleit skýjahöf.

Hinn kaldi stormur syngur sönginn

sinn við vorsins gröf.

Þar þögul stendur þú og bleik

og þó ég sé þér nær,

­ hann finnur engin orð

sem áður var þér kær.



"Ég hef alltaf haldið því fram, að efnalaust fólk ætti ekki að ganga í hjónaband," segir Ásgrímur í tilefni af hjónabandi Jónasar og Thorborgar. "Jónas hafði vitanlega engin ráð á að sjá fyrir heimili og mun fátæktin ein hafa valdið því að þessi ungu og mannvænlegu hjón slitu samvistir." Jónas Sveinsson segir um áhrif skilnaðarins á Jónas Guðlaugsson: "Hann var allra manna viðkvæmastur, þótt viljasterkur væri, sem sjá má af því að hann rataði í hinar dýpstu raunir án þess að gerast nokkru sinni handgenginn Bakkusi. Ýmislegt finnst mér þó benda til þess að sorgir hans og Thorborgar hafi hert hann upp til dáða."

Hér er ekki fjallað mikið um störf Jónasar Guðlaugssonar ­ aðeins ætla ég þó að vitna í vandaðan formála Hrafns Jökulssonar, sem sýndi minningu Jónasar Guðlaugssonar þann sóma að gefa út úrval úr ljóðum hans árið 1990 og nefnir Bak við hafið. Hrafn rekur í umræddum formála starfsferil Jónasar nokkuð ítarlega. Þar segir m.a. að Jónas hafi í ársbyrjun 1909 tekið við ritstjórn Reykjavíkur í forföllum Jóns Ólafssonar og annast útgáfuna um nokkurra mánaða skeið. Um svipað leyti vann hann að bók sem tvímælalaust mátti telja til bókmenntaviðburða: Dagsbrún. "Dagsbrún er efalítið veigamesta ljóðabók sem svo ungt skáld hefur sent frá sér á íslensku; Jónas var þá 22 ára," segir Hrafn ennfremur. Áður hafði Jónas gefið út Vorblóm árið 1905 og Tvístirni 1906, í félagi við Sigurð frá Arnarholti.

Eftir að Jónas flutti búferlum til Danmerkur alráðinn í að brjóta sér leið til frama sem skáld á erlenda tungu, vann hann fyrir nauðþurftum sínum m.a. sem blaðamaður hjá Politiken. Nokkru seinna lenti hann í illdeilum við Valtý Guðmundsson og lyktaði þeim deilum með því að Jónas missti stöðuna. Hann slóst í hóp hinna ungu upprennandi skálda sem hópuðust í kringum Jóhann Sigurjónsson. Ekki voru allir jafn hrifnir af Jónasi. Sagt er að Gunnar Gunnarsson hafi haft Jónas að fyrirmynd persónunnar Davíðs Jónmundssonar í Fjallkirkjunni ­ hvað sem hæft er í því. Aðrir voru mjög hrifnir af Jónasi, þar á meðal Guðmundur Hagalín. Í útvarpserindi sem Guðmundur flutti á 50 ára dánarafmæli Jónasar 15. apríl 1966 gat hann þess að Jónas hefði haft mikil áhrif á sig og ýmsa kunningja sína er þá fengust við að yrkja.

Jónasi Guðlaugssyni tókst að hasla sér völl í dönskum bókmenntum. Fyrsta bókin sem hann skrifaði á dönsku var Sange fra Nordhavet, sem kom út hjá Gyldendal haustið 1911 og hafði að geyma ljóð. Í grein Hrafns Jökulssonar segir: "Viðtökur voru mjög á einn veg: "Þessi Íslendingur er mikið skáld, sem mundi sóma sér í góðskáldatölu hvers af Norðurlöndunum sem væri." Önnur ljóðabók Jónasar á dönsku, Viddernes Poesi, festu hann í sessi sem athyglisvert og efnilegt skáld. "Allt í einu var risinn söngvari meðal vor," sagði danska skáldið Harry Søiberg í grein um Jónas Guðlaugsson. "Framandi yrkisefni voru Jónasi drjúgt veganesti þegar hann haslaði sér völl sem skáld í Danmörku. En það skipti sköpum að honum tókst til hlítar að yrkja á dönsku; og af meiri þýðleika og lipurð en flest dönsk samtímaskáld," segir ennfremur í formála Hrafns Jökulssonar. Hann getur þess einnig að um það leyti sem Jónas og Thorborg skildu hafi hagur Jónasar verið að vænkast. Hann komst á föst ritlaun hjá Gyldendal. Auk frumsaminna verka þýddi hann Fólkið við hafið eftir Harry Søiberg og Marie Grubbe eftir J.P. Jacobsen. Jónas var einnig afkastamikill greinahöfundur og skrifaði fyrir blöð í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Hann kom í síðasta sinn til Íslands árið 1911 og dvaldi þá hér á landi í fáeinar vikur.

Jónas Guðlaugsson kvæntist í annað sinn árið 1912 þýskri konu af hollenskum ættum, Marietje Ingenohl, og var hún sjúkraþjálfari að mennt. Svo var hún ríkrar ættar að hann skrifaði föður sínum að nú þyrfti hann aldrei að bera kvíðboga fyrir efnahag sínum framar og gæti hér eftir eingöngu fengist við að yrkja og semja. Til gamans má geta þess hér að föðurbróðir Marietje var líflæknir Vilhjálms Þýskalandskeisara. En svo fór um allt ríkidæmið að ættin tapaði öllu í seinni heimsstyrjöldinni. Jónas og Marietje bjuggu á Skagen á Jótlandi. Eftir að Jónas kvæntist Marietje gaf hann út fjórar bækur: skáldsögurnar Solrun og hendes Bjelere og Monika, smásagnasafnið Bredefjordsfolk og ljóðabókina Sange fra de blaa Bjærge. Sögur Jónasar hlutu góðar viðtökur. Hann bjó síðustu árin á Skagahóteli að sögn Ásgríms Jónssonar. "Í einni stofunni á Skagahóteli hékk árum saman málverk af Jónasi ásamt kvæði sem hann hafði ort um bæinn," segir Ásgrímur, og má líklegt telja að þar sé komin myndin fyrrnefnda sem var á Jótlandsmálarasýningunni í Norræna húsinu forðum daga. Jónas eignaðist einn son með Marietje, Sturla hét hann og var lengi deildarstjóri við konunglega listasafnið í Haag. Sturla dó 1971 ókvæntur og barnlaus. Meðan hann lifði hélt hann uppi einhverju sambandi við föðursystkini sín á Íslandi. Ég man að hann sendi a.m.k. einu sinni Guðrúnu ömmu minni um jólaleytið almanak skreytt með listaverkamyndum.

Jónas Guðlaugsson lést 15. apríl 1916 á Skagahóteli. Hann dó að morgunlagi, hann var í þann veginn að flytjast til Kaupmannahafnar og voru kona hans og sonur farin á undan honum frá Skagen. Um nóttina hafði Jónas unnið að því að pakka saman búslóð þeirra Marietje. Um morguninn fékk hann blóðspýting og dó. Þýskir læknar töldu að hann hefði fengið magablæðingu og sama sinnis var frændi hans Jónas Sveinsson læknir. Við dánarbeð hans sat Mor Anni, sem rak Skagahótel. Hún skrifaði föður hans og sagði í bréfinu: "Þótt ég gæti þá mundi ég ekki vilja kalla hann til lífsins aftur, dauðdagi hans var svo fagur. Hann sagði við mig: Það er gott að deyja inn í sólina og vorið." Þá nefndi hann nafn konu sinnar og sonar og dó að svo mæltu. Foreldrar Jónasar hefðu án vafa kallað hann til lífsins aftur ef þau hefðu mátt, þrátt fyrir hinn fagra dauðdaga, svo ákafur var harmur þeirra þegar þau fréttu dauðsfallið. Theodóra dóttir þeirra sagði mér að hún hefði verið viðstödd þegar andlátsfréttin barst að Stað í Steingrímsfirði þar sem séra Guðlaugur var þá prestur. "Pabbi féll alveg saman en mamma lagðist fyrir og stundi sárt og þungt. En hún var sterk kona og fór fljótlega á fætur til þess að telja kjark í pabba," sagði Theódóra. Jónas var ekki aðeins foreldrum sínum, systkinum, konu og barnungum syni harmdauði ­ hann var öllum þeim harmdauði sem unnu fagurri ljóðlist. Leiði Jónasar er að sögn Ásgríms Jónssonar andspænis grafreitum þeirra málaranna Lochers og Krøyers. "Ég geymi ennþá fyrstu ljóðabækur Jónasar Guðlaugssonar með áritaðri kveðju hans, og þykir mér vænt um þær. Hann unni áreiðanlega þjóð sinni, þó að umkomuleysi hennar hrekti hann úr landi, og mér finnst að hún mætti halda minningu hans á loft," segir Ásgrímur í kaflalok. "Síðasta kvæði Jónasar var kveðjuljóð til Íslands, átakanlega fallegt og birtist það í danska vikublaðinu Verden og Vi, örfáum dögum eftir andlát hans."

Þórbergur Þórðarson gisti á Stað í Steingrímsfirði árið 1918, þegar hann var í orðabókarleiðangri sínum. Í bókinni Mitt rómantíska æði segir frá heimsókn Þórbergs til séra Guðlaugs og Margrétar Jónasdóttur. "Þegar ég kom í hlaðið á Stað hitti ég aldraðan kvenmann við kyrkjugarðinn. Ég þekti hana af Jónasi skáldi. Þetta var móðir meistarans, en kona klerksins. Hún var hátöluð og aðalsmannsgustur í röddinni." Þórbergur gisti eina nótt hjá presthjónunum á Stað og tóku þeir fljótlega tal saman hann og séra Guðlaugur og ræddu margt. "Klerkurinn er mjög hæglátur, ljúfur, blíður, fróður, ástúðlegur og á liðugt um mál," segir Þórbergur. "Dætur á séra Guðlaugur margar og allar kváðu þær vera skemmtilegar, gáfaðar og hagorðar. Er því fólki við brugðið fyrir gáfur í Strandasýslu. Einni dóttur hans varð ég bálskotinn í. Hún var mjög skemmtileg sýnum. Líktist hún fremur móðurættinni. Aðra sá ég, sem var svo að segja lifandi eftirmynd Jónasar." Ég hef heyrt að það hafi verið Lára sem Þórbergur var "bálskotinn" í, en hver systranna fimm sem Þórbergur getur hafa séð líktist Jónasi svo mjög er ekki gott að meta ­ ég læt lesendur um að skoða myndir af þeim sem birtast með þessari grein. Því fór fjarri að Þórbergur væri alltaf sammála séra Guðlaugi í viðræðum þeirra kvöldstundina á Stað 1918 ­ þar til talið barst að Jónasi Guðlaugssyni. "Skáldskap sonar síns metur hann (Guðlaugur) mikils. Þá gat ég verið honum sammála í hjarta mínu," segir Þórbergur. Áður en Guðlaugur bauð Þórbergi góða nótt hermdi hann honum síðustu orð Jónasar; "Det er dejligt at dø i foraaret og lyset."

Séra Guðlaugur Guðmundsson orti erfiljóð eftir Jónas son sinn. Ég á þetta erfiljóð í eiginhandarriti Guðlaugs og þar eru þessi erindi:

Tíðum flýgur muni minn

marga nótt og daga.

Svalgeims stígu sorg þrunginn

suður á Vendil-Skaga.



Minn þar sonur sefur á

svæfli grafarinnar.

Dánar vonir honum hjá

hvíla æsku minnar.



Göfgi andans átti hann

afl og fjör til ljóða;

sjer og landi sínu vann

sæmd meðal norðurþjóða.



Nú eru strengir hörpu hans

hrokknir af dauðans völdum

en nafnið lengi lista manns

lifir á sögu spjöldum.

Jónas Guðlaugsson. Teikning eftir Ásgrím Jónsson.

Jónas Guðlaugsson

Jóhanna Guðlaugsdóttir

Lára Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir

Theódóra Guðlaugsdóttir

Ólöf Guðlaugsdóttir

Séra Guðlaugur Guðmundsson á Stað.

Marietje, seinni kona Jónasar Guðlaugssonar, með son þeirra, Sturlu.